Auður Styrkársdóttir
Auður Styrkársdóttir
BORGARRÁÐ hefur tekið þá ákvörðun að leyfa akstur um þann hluta Hafnarstrætis sem hefur verið lokaður undanfarin fimm ár.
BORGARRÁÐ hefur tekið þá ákvörðun að leyfa akstur um þann hluta Hafnarstrætis sem hefur verið lokaður undanfarin fimm ár. Þessi ákvörðun er tekin vegna þrýstings frá þeim eina verslunareiganda sem býr við þennan hluta götunnar, og sem hefur lengi talið að bílaumferð muni auka hjá sér verslun þótt ekki sé þetta aktu-taktu verslun.

Áður en fjarlægðar verða þær hindranir sem nú standa í veginum fyrir bílum í Hafnarstræti vil ég mótmæla - og það kröftuglega. Á árunum 1994-1996 sat ég sem varamaður í stjórn SVR og var stundum kölluð á fundi. Á einum þessara funda var upplýst um slys á barni sem orðið hafði við strætisvagnaleiðina um Hafnarstrætið, sem þá hafði aftur verið opnað öllum bílum eftir tímabundna lokun. Í kjölfar þeirra upplýsinga samþykkti stjórn SVR einróma að fara þess á leit við borgaryfirvöld að Hafnarstræti yrði lokað á þessum kafla. Ekkert okkar treysti sér til þess að axla þá ábyrgð sem fylgir því að stefna fólki á öllum aldri á stað þar sem slysahætta er veruleg. Borgarstjórn samþykkti sem betur fer þessa tillögu stjórnarinnar og Hafnarstræti hefur verið lokað á þessum kafla síðan.

Á þeim fimm árum sem liðin eru hefur bílaeign borgarbúa stóraukist. Þar með hefur slysahætta á gangandi vegfarendum líka aukist. Við Hafnarstætið hefur Strætó tekist að byggja upp ágæta aðstöðu fyrir marga vagna sína og skapað farþegum öruggt skjól. Þetta skjól á nú að taka af farþegum og stefna þeim út í óvissu umferðaröngþveitis sem óhjákvæmilega skapast þar sem strætisvagnar þurfa að athafna sig innan um einkabíla.

Við erum mörg sem þurfum eða kjósum að spara okkur verulegar fjárhæðir á ári hverju með því að ferðast með Strætó til og frá vinnu og jafnvel meira en það. Tæpast er hægt að segja að skipulag borgarinnar hafi verið hagstætt almenningsfarartækjum. Þvert á móti hafa yfirvöld skipulagsmála kappkostað að þenja borgina út og skipuleggja íbúðabyggð og verslunarsvæði sem víðast og breiðast um borgina. Þrátt fyrir þetta hefur að mestu tekist vel til hjá stjórnendum SVR og nú áStrætó að halda í horfinu og bæta inn leiðum. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt verk.

Á allra síðustu árum hafa augu margra vaknað fyrir því hversu óhagkvæmur þessi vöxtur er og nær sé að þétta byggð og styðja almenningssamgöngur. Umferð einkabíla í Reykjavík er margfalt meiri en umferð í sambærilegum borgum erlendis og mengunin eftir því. Almenningssamgöngur verða hins vegar að vera bæði tíðar og umfram allt öruggar til þess að standa undir nafni og laða til sín fleiri farþega. Einn liður í því var lokun Hafnarstrætis að hluta á sínum tíma. Ég skil vel áhyggjur verslunareigandans í Hafnarstræti vegna minnkandi verslunar, en beini þeim tilmælum til hans og borgaryfirvalda að endurskoða afstöðu sína í þessu máli. Eða hver vill bera ábyrgð á slysi?

AUÐUR STYRKÁRSDÓTTIR,

stjórnmálafræðingur og

strætisvagnafarþegi.

Frá Auði Styrkársdóttur: