Einar Már Sigurðarson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, óskaði eftir upplýsingum frá forsætisráðuneyti um kostnað vegna einkavæðingar.
Einar Már Sigurðarson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, óskaði eftir upplýsingum frá forsætisráðuneyti um kostnað vegna einkavæðingar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÁRLAGANEFND fór fram á það á aukafundi sínum í gær að óska eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað vegna einkavæðingarverkefna ríkissstjórnarinnar á árinu frá forsætisráðuneytinu.
FJÁRLAGANEFND fór fram á það á aukafundi sínum í gær að óska eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað vegna einkavæðingarverkefna ríkissstjórnarinnar á árinu frá forsætisráðuneytinu. Upplýsingar um þessi mál voru veittar af hálfu forsætisráðuneytisins eftir að fulltrúar í fjárlaganefnd samþykktu að gæta trúnaðar um upplýsingarnar. Áður hafði ráðuneytið hafnað því að veita upplýsingarnar á þeirri forsendu að um væru að ræða trúnaðarupplýsingar sem vörðuðu mikilvæga viðskiptahagsmuni einstaklinga og spunnust af þeirri ákvörðun miklar deilur á Alþingi á mánudag þar sem forseti Alþingis var m.a. sakaður um að taka afstöðu með framkvæmdavaldinu gegn óskum löggjafarsamkundunnar um upplýsingar, en fram hefur komið í umræðum um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2001, er að finna lið upp á 300 milljónir kr. vegna undirbúnings einkavæðingar ríkisfyrirtækja. Undir lok umræðu um frumvarp til fjáraukalaga í gærkvöldi var farið fram á aukafund í fjárlaganefnd þar sem fulltrúar minnihlutans í nefndinni töldu svör forsætisráðuneytisins, þegar til kastanna kom, allsendis ófullnægjandi.

Andliti löggjafarvaldsins bjargað gagnvart framkvæmdavaldinu

Einar Már Sigurðarson, einn fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, upplýsti um þetta ráðslag við upphaf þingfundar í gær, en hann vakti einmitt máls á samskiptum fjárlaganefndar og forsætisráðuneytisins á mánudag. Sagði Einar Már að Ólafur Örn Haraldsson (B) formaður fjárlaganefndar hefði beitt sér í málinu þrátt fyrir fyrri ummæli forseta Alþingis og með því hafi andliti löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu verið bjargað.

"Það var orðið við því af hálfu nefndarinnar að gæta trúnaðar í málinu, en að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að minnihluti nefndarinnar telur það ámælisvert að þessi gögn þurfi að vera í trúnaði og við áskiljum okkur fullan rétt til þess að gagnrýna það," sagði Einar Már. "Hins vegar teljum við mikilvægast í málinu og fögnum því að sjálfssögðu að umbeðnar upplýsingar muni berast til nefndarinnar."

Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd, sagði það alvarlegt þegar Alþingi og þingnefndir gætu ekki sinnt skyldum sínum og starfað með eðlilegum hætti. Vakti hann athygli á því að umrædd ósk um fjárheimild kæmi fram í frumvarpi til fjáraukalaga og henni væri því búið að ráðstafa. "Þetta er eitthvað sem kemur upp mjög brýnt og Alþingi er beðið um að taka til afgreiðslu sem sérstakt og afbrigðilegt verkefni sem hafi borið brátt að," sagði hann.

Galt varhug við þessu alvarlega fordæmi

Jón Bjarnason sagði út af fyrir sig ekki óeðlilegt að ræða viðkvæm málefni í trúnaði í nefndum, en galt hins vegar varhug við því alvarlega fordæmi sem skapaðist með því að hægt væri með þessum hætti að skjóta sér undan skyldum um að veita Alþingi og fjárveitingavaldinu umbeðnar upplýsingar.

Ólafur Örn Haraldsson sagðist hins vegar telja að málið hefði nú fengið farsælan endi og hefði verið unnið samkvæmt þeim farvegi sem gilti um starfsemi þingnefnda.

Því fór hins vegar fjarri að aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem til máls tóku af þessu tilefni, hafi verið sáttir við þessar lyktir mála. Þannig sagðist Guðmundur Árni Stefánsson (S) að þetta væri sér ekki nægilegt sem ekki sæti í fjárlaganefnd. Hann sagðist hins vegar hafa hugsað sér að taka þátt í umræðu og afgreiðslu um fjáraukalagafrumvarpið og umræddar upplýsingar væri hluti fyrirliggjandi gagna. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, tók undir þá gagnrýni og benti á að allir þingmenn, ekki aðeins fulltrúar í fjárlaganefnd, taki þátt í umræðum og greiði atkvæði um fjárlög og fjáraukalög og því sé fásinna að þeir hafi ekki allar upplýsingar um meðferð opinbers fjár undir höndum.

Hækkun heimilda í fjárauka- lögum upp á 610 milljónir kr.

Gagnrýni á þessa málsmeðferð setti svip sinn á þriðju umræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2001, sem stóð í allan gærdag og fram á kvöld. Í upphafi þeirrar umræðu gerði Ólafur Örn Haraldsson, formaður fjárlaganefndar, grein fyrir framhaldsnefndaráliti þar sem meirihluti nefndarinnar gerir breytingartillögur upp á 610 milljónir til hækkunar frá fyrri fjárheimildum sem fram komu við fyrstu og aðra umræðu.

Af þeirri fjárhæð eru 365 millj. kr. vegna endurmats á tekjum Ríkisútvarpins og lagt er til að 98 millj. kr. af söluhagnaði Stofnfisks hf. verði varið til að greiða niður rekstrarhalla Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Hólaskóla í stað þess að honum verði varið til fiskeldislána eins og heimild var fyrir í fjárlögum 2001. Þá er lagt til að hluta af söluhagnaði ríkisins, alls 10 milljónum kr., af jörðinni Straumi verði varið til þess að greiða upp uppsafnaðan rekstrarhalla Garðyrkjuskóla ríkisins frá fyrri árum. Var það gagnrýnt harðlega af fulltrúum stjórnarandstöðu í umræðunni, þar sem formaður fjárlaganefndar hefði við umræður um fjárlög í fyrra sagt það "fortakslaust að söluandvirði jarðarinnar Straums ætti að verja til styrktar rekstri Skógræktar ríkisins, enda um það fjallað í viðkomandi gjafabréfum". Því yrði ekki annað séð en að gengið væri gegn ákvæðum gjafabréfsins með því að ráðstafa hluta af söluhagnaði til að mæta rekstrarhalla Garðyrkjuskólans.

Þessu hafnaði Geir H. Haarde (D) fjármálaráðherra og sagði hafa orðið að samkomulagi milli sín og landbúnaðarráðherra að verja hluta söluhagnaðarins með þessum hætti, enda væri þáttur Garðyrkjuskólans í rannsóknum á skógrækt umtalsverður. Stærsti hluti upphæðarinnar, eða 40 milljónir, rynni hins vegar til Skógræktar ríkisins.

Í áliti meirihluta fjárlaganefndar er einnig lagt til að Íbúðalánasjóði verði veittar auknar lántökuheimildir í ljósi þróunar útlána það sem af er árinu. Lánsfjármögnun hækkar um 940 m.kr. frá fjárlögum ársins til að fjármagna viðbótarlán sem sjóðurinn sér um að veita fyrir hönd sveitarfélaganna. Ennfremur er húsbréfadeild heimilað að auka lántökur um 4.200 m.kr. vegna aukinnar útgáfu húsbréfalána og áformuð lántaka til endurfjármögnunar á eldra húsnæðiskerfi lækkar um 2.500 m.kr. í ljósi endurskoðunar á sjóðstreymi Byggingarsjóða ríkisins og verkamanna. Jafnframt er lagt til að lántökur og útlán Byggðastofnunar verði aukin um 300 m.kr. og verði 1.600 m.kr. á árinu 2001.

Þá er lagt til að við bætist nýr liður sem heimili Rafmangsveitum ríkisins að taka lán er nemur allt að 780 m.kr. Þar af eru 300 m.kr. til kaupa á Rafveitu Sauðárkróks og 480 m.kr. til að standa undir hallarekstri fyrirtækisins vegna óarðbærra rekstrareininga. Loks er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilað að veita hinu nýja hlutafélagi um rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sjálfskuldarábyrgð er nemur allt að 2.500 m.kr. til að standa undir endurfjármögnun lána í árslok 2001.

VG og Frjálslyndir vilja hafna heimild til Rarik

Í álitum 1. og 2. minnihluta fjarlaganefndar er m.a. komið að gagnrýni á ýmsa liði frumvarpsins sem fremur eru taldir eiga heima í fjárlagafrumvarpi næsta árs, frekar en fjáraukalagafrumvarpi.

Í breytingartillögum Jóns Bjarnasonar og Árna Steinar Jóhannssonar (Vg) og Guðjóns Arnars Kristjánssonar (F) er lagt til að hafnað verði að gefa Rafmagnsveitum ríkisins heimild til að kaupa Rafveitu Sauðárkróks og að veita þeim lán að upphæð 300 millj. kr. til þessara kaupa.

"Sveitarfélagið Skagafjörður á í miklum fjárhagsvanda eins og mörg önnur sveitarfélög á landsbyggðinni. Þennan greiðsluvanda sveitarfélaganna á að leysa með aðgerðum á landsvísu heildstætt. Sveitarfélögin á suðvesturhorni landsins, þangað sem "góðærið" kom, keppast nú við að efla orkufyrirtæki sín og nýta styrk þeirra til sóknar í nýsköpun atvinnulífs. Á meðan sjá sveitarfélögin á landsbyggðinni hvert af öðru sér ekki fært annað en að selja þessi fjöregg sín til að létta til bráðbirgða á greiðsluvandanum. Lagt er til að ríkið komi að því að leysa fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem hluta af heildarlausn á landsvísu en ekki með því að afhenda Rarik peninga til að kaupa af þeim Rafveituna og rýra þar með möguleika Skagfirðinga til að sækja fram á eigin forsendum í orkubúskap," segir í greinargerð með tillögunni.