RODA frá Hollandi kom mjög á óvart í gærkvöld með því að slá franska liðið Bordeaux út í 3. umferð UEFA-bikarsins í knattspyrnu. Roda, sem bar sigurorð af Fylki í 1.
RODA frá Hollandi kom mjög á óvart í gærkvöld með því að slá franska liðið Bordeaux út í 3. umferð UEFA-bikarsins í knattspyrnu. Roda, sem bar sigurorð af Fylki í 1. umferðinni, 3:0 í Hollandi og 3:1 á Laugardalsvellinum, hefur gengið mjög illa í hollensku úrvalsdeildinni í vetur og er þar í bullandi fallbaráttu.

Bordeaux vann fyrri leik liðanna 1:0 en tvö mörk í síðari hálfleik, frá gríska sóknarmanninum Yannis Anastasiou og nígeríska kantmanninum Garba Lawal, tryggðu Roda 2:0 sigur og 2:1 samanlagt.

Norðmaðurinn Jan Derek Sörensen gulltryggði sæti Dortmund í 16 liða úrslitum keppninnar. Hann skoraði sigurmarkið mínútu fyrir leikslok þegar Dortmund vann FC Köbenhavn 1:0, eða með sömu tölum og í fyrri leiknum í Danmörku.

Hapoel Tel Aviv frá Ísrael kom mjög á óvart með því að sigra Lokomotiv Moskva í Rússlandi, 1:0, og 3:1 samanlagt. Slóveninn Milan Osterc skoraði sigurmarkið en hann hefur verið orðaður við ensk lið að undanförnu. Leikurinn fór fram í frosti í bænum Ramenskoye, 80 kílómetra frá Moskvu, en ekki var leikfært í höfuðborginni vegna vetrarríkis.