Draumey Aradóttir
Draumey Aradóttir
eftir Draumeyju Aradóttur. Mál og menning 2001. 161 bls.

DRAUMEY Aradóttir skrifar fyrstu bók sína í minningu ömmu sinnar. Það er vel þar sem skáldsaga hennar er ekki síður um gamalt fólk en börn þó að þau séu í aðalhlutverkum. Það er einmitt samband unga og gamla fólksins sem dýpkar söguna og færir hana í vítt samhengi mannlegra samskipta. Í hressilegum átökum þar sem lífsgleðin ríkir hverfur kynslóðabilið á eðlilegan hátt í þessari bók um vináttu, samúð og hreinskilni.

Sagan segir frá vorinu þegar aðalpersónan Birta er tólf ára og allt er að breytast í kringum hana. Henni finnst að besta æskuvinkona sín hafi snúið við sér baki, hún eignast nýja vinkonu og fer dálítið að spá í stráka. Afi hennar sem býr hjá þeim og fatlaður bróðir hennar eru stór hluti af tilverunni, pabbinn er sjómaður og lítið heima en mamman vinnur úti allan daginn. Það er margt fyndið og skemmtilegt í lýsingum á afanum og tilraunum hans til að verða sjálfstæður og komast að heiman. Hann er kostuleg persóna sem litar söguna lífsgleði og hlýju og reynist Birtu félagi og vinur því þau eiga margt sameiginlegt, til dæmis baráttuna við að láta taka sig alvarlega sem viti borið fólk. Nýja vinkonan kemur utan af landi með hressandi hreinskilni og fallegt hjarta og hefur með því góð áhrif á alla í kringum sig. Níutíu og sex ára gömul langamma hennar, sem kennir sig við Sjöundá á Rauðasandi eins og amma höfundarins, er einnig boðberi jákvæðra gilda utan af landi þó að hún hafi búið í Reykjavík í fimmtíu ár og er hún mjög skemmtileg persóna. Margar fleiri litríkar persónur prýða söguna en almennt eru þær skýrar og vel unnar og alltaf lýst frá sjónarhorni Birtu.

Birta veltir fyrir sér mannlegri hegðun þegar hún sér fólkið í kringum sig í nýju ljósi hvað eftir annað en það er ekki síður hún sjálf sem breytist þegar hún lærir að segja hug sinn og setja sig í spor þeirra sem henni þykir vænt um. Það er skýr boðskapur í þessari raunsæju, látlausu bók: Við eigum að láta okkur aðra varða, virða annað fólk og njóta skemmtilegra augnablika. Það er í sögunni ákveðin rómantísk lífssýn sem segir að sveitin og fámennið ali af sér gott og skemmtilegt fólk en okkur er líka sagt að allt þetta sé að finna í Reykjavík. Bygging sögunnar er skýr og framvinda atburðanna eðlileg og spennandi. Teikningar og kápa Helga Sigurðssonar eru skemmtilegar og í samræmi við raunsæi og einfaldleika bókarinnar. Það vantar alltaf sögur um venjulega krakka svo að vonandi heldur Draumey Aradóttir áfram að sýna okkur hæfileika sína sem rithöfundur.

Hrund Ólafsdóttir