Þorsteinn Bachmann, nýráðinn leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
Þorsteinn Bachmann, nýráðinn leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
"Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni," sagði Þorsteinn Bachmann, nýráðinn leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann mun hefja störf sem slíkur við hlið Sigurðar Hróarssonar, núverandi leikhússtjóra, 1.

"Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni," sagði Þorsteinn Bachmann, nýráðinn leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann mun hefja störf sem slíkur við hlið Sigurðar Hróarssonar, núverandi leikhússtjóra, 1. mars næstkomandi, en taka svo við þegar Sigurður lætur af stöfum næsta sumar.

Þorsteinn sagði að Leikfélag Akureyrar stæði vel um þessar mundir, listrænt séð og einnig fjárhagslega, og andrúmsloftið væri mjög gott. "Það skiptir miklu máli að andrúmsloftið sé gott, sérstaklega á stað, þar sem fólk kemur saman til að fá andlega næringu og njóta."

Þorsteinn sagðist taka við góðu búi. Mikil umskipti hefðu orðið í rekstri leikfélagsins á síðustu misserum. Staðan hefði ekki verið sérlega góð, en nú kvæði við annan tón. "Sigurður hefur unnið gott starf fyrir félagið og það stendur nú afar vel," sagði Þorsteinn. "Samkomuhúsið er fallegt og þar er góður hljómburður. Þá stendur til að gera á húsinu nauðsynlegar úrbætur sumarið 2003."

Þorsteinn og kona hans, Laufey Brá Jónsdóttir, gerðust fastráðnir leikarar hjá Leikfélagi Akureyrar síðasta sumar og mun Þorsteinn ljúka þeim samningi. Þau Þorsteinn og Laufey koma fram í tveggja manna leikverki sem frumsýnt verður í byrjun maí; Saga um pandabirni, sögð af saxófónleikara sem á kærustu í Frankfurt. Þá hafa þau staðið fyrir fjölsóttum leiklistarnámskeiðum fyrir áramót og verður þráðurinn tekinn upp að nýju nú í næstu viku. Eins hafa þau verið með námskeið í grímugerð og leik- og leiklistarnámskeið í grunnskólum. "Það virðist vera mikill áhugi fyrir leiklist á Akureyri. Hér eru tónlistarskóli og myndlistarskóli, en það hefur vantað að fólki sé boðið upp á tilsögn í leiklist," sagði Þorsteinn.

Hann leikstýrir einnig um þessar mundir Leikfélagi Verkmenntaskólans á Akureyri, en það mun frumsýna söngleikinn Rocky Horror Picture Show í næsta mánuði. "Það er mikið að gera og það er mjög gaman," sagði Þorsteinn.

Um þessar mundir leikur hann í Slövum og kvaðst hann vona að fólk fjölmennti á verkið, enda hefði það fengið góða dóma. Hann sagði gott umtal um leikfélagið og hið jákvæða andrúmsloft sem innan þess ríkti spyrjast vel út og því ekki ólíklegt að fólk lengra að komið myndi í ríkum mæli sækja leikhúsið heim í vetur.

Leikhús er fyrir áhorfendur

"Leikhúsið er fyrir áhorfendur, því ber skylda til að þjóna þeim og samfélaginu og ég mun hafa það að leiðarljósi þegar ég tek við starfi leikhússtjóra," sagði Þorsteinn. Í ljósi þess að Akureyri auglýsti sig sem fjölskylduvænan bæ hefur hann í hyggju að bjóða í framtíðinni upp á "litlar fallegar barnasýningar" eins og hann orðaði það.