Holberg Másson, stofnandi Netverks.
Holberg Másson, stofnandi Netverks.
HOLBERG Másson, stofnandi Netverks, hefur annað árið í röð fengið viðurkenningu World Economic Forum (WEF) og verið valinn í hóp sjötíu frumkvöðla á ýmsum sviðum. Af sjötíu manna hópi fengu sex viðurkenninguna í annað skipti.

HOLBERG Másson, stofnandi Netverks, hefur annað árið í röð fengið viðurkenningu World Economic Forum (WEF) og verið valinn í hóp sjötíu frumkvöðla á ýmsum sviðum. Af sjötíu manna hópi fengu sex viðurkenninguna í annað skipti. WEF er vettvangur þúsund stærstu fyrirtækja heims.

Í samtali við Morgunblaðið segir Holberg að viðurkenningin sé ánægjuleg og hafi m.a. þá þýðingu að auðvelda aðgang að fjárfestum, viðskipta- og samstarfsaðilum, eins og hann hafi fundið fyrir á liðnu ári. "Þetta opnar fyrir manni dyr að verkefnum og því sem er að gerast í heiminum á þessu sviði."

Viðurkenningin er nú veitt Holberg og Netverki vegna nýjunga sem Netverk hefur komið með á markaðinn á sviði gagnaflutninga m.a. í farsímakerfum. Um er að ræða hugbúnað sem Netverk hefur þróað til að bæta hraða og rekstraröryggi í gagnafjarskiptum.

Holberg verður einn af tengiliðum frumkvöðlahópsins við WEF, en þess var farið á leit við þá sem hlutu viðurkenninguna annað árið í röð. Hann mun taka þátt í ýmsum verkefnum og ráðstefnum á vegum WEF á þessu ári, t.d. verkefni varðandi þann mun sem er á aðgengi að tækni á Vesturlöndum annars vegar og í þriðja heiminum hins vegar. "Í því sambandi verður reynt að virkja fyrirtæki og lönd til að hjálpa til og ég er að skoða hvort einhver af þessum verkefnum geti vakið áhuga íslenskra fyrirtækja. Það gæti verið mjög jákvætt fyrir íslensk fyrirtæki að komast inn í samstarf sem annars væri ekki auðvelt að komast í," segir Holberg.