Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir gagnlegum umræðum um Evrópumál og afstöðu okkar Íslendinga til samrunaþróunarinnar í Evrópu.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir gagnlegum umræðum um Evrópumál og afstöðu okkar Íslendinga til samrunaþróunarinnar í Evrópu. Frá byrjun þessa árs hefur utanríkisráðherra haldið þrjár meiriháttar ræður um málið, fyrst í Háskóla Íslands, síðan í Háskólanum á Akureyri og loks í Þingborg á Suðurlandi. Morgunblaðið sagði ítarlega frá öllum þessum þremur ræðum utanríkisráðherra auk þess að eiga við hann fréttasamtöl á undanförnum vikum, þar sem hann hefur verið á fundum með ráðamönnum Evrópusambandsins. Í þessum ræðum ráðherrans hafa komið fram afar gagnlegar upplýsingar og á það ekki sízt við um ræðu hans í Háskólanum á Akureyri, þar sem hann ræddi sérstaklega sjávarútvegsmál í tengslum við Evrópusambandið og mátti greina í þeirri ræðu sterkari fyrirvara en áður.

Í fyrradag flutti svo Davíð Oddsson forsætisráðherra ræðu á Viðskiptaþingi Verzlunarráðs Íslands, þar sem hann fjallaði m.a. ítarlega um Evrópumálin og EES-samninginn. Ræða forsætisráðherra sýndi vel hvernig umræður sem þessar verða til þess að nýjar upplýsingar koma fram, sem hafa mikla þýðingu fyrir framhald umræðna um þetta mikilvæga málefni.

Davíð Oddsson upplýsti m.a., að eftir stækkun Evrópusambandsins mundi aðild að því kosta okkur Íslendinga á annan tug milljarða á ári hverju. Þessar tölur um kostnað af aðild að ESB hafa ekki komið fram áður.

Í Evrópuumræðunum hér hafa komið fram áhyggjur hjá starfsmönnum utanríkisráðuneytis yfir því, að EFTA-ríkin hafi ekki fengið aðgang að nefndarfundum á vettvangi ESB, sem talið var að við ættum rétt á skv. EES-samningnum. Forsætisráðherra upplýsti í ræðu sinni að þau tilvik, sem hér um ræðir, snúi að nefndum, sem fjalli um neytendamál og hreinlæti og hollustu á vinnustöðum. Þótt hér sé vissulega um mikilvæg málefni að ræða er þó ljóst að hagsmunir okkar snúast um önnur og stærri mál. Það er mikilvægt að sendimenn Íslands á erlendri grund missi ekki tengslin við grasrótina í íslenzku þjóðfélagi. Hún snýst um sjávarútveginn eins og skýrt kom fram í ræðu Halldórs Ásgrímssonar á Akureyri.

Það er ljóst að hvorugur stjórnarflokkanna vill beita sér fyrir því að Íslendingar leggi fram umsókn um aðild að ESB. Á þessari stundu er því enginn ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um það grundvallaratriði. Af ummælum formanna stjórnarflokkanna verður ekki séð að breyting verði á þeirri grundvallarafstöðu í fyrirsjáanlegri framtíð.