28. febrúar 2002 | Viðskiptablað | 720 orð | 1 mynd

Nýju fötin keisarans

Már Mixa
Már Mixa
"Á Íslandi hafa ný föt keisarans rutt sér til rúms undanfarið varðandi greiningu á rekstri fyrirtækja með ævintýralegum hætti," skrifar Már Mixa. "EBITDA, skammstöfun þessarar greiningaraðferðar, er alls ekki nýtt hugtak og því merkilegt hversu skyndilega það hefur rutt sér til rúms hérlendis."
Ævintýrið Nýju fötin keisarans, eftir H.C. Andersen, greinir frá tveimur klæðskerum sem bjóðast til að sauma ný föt á keisara nokkurn. Klæðskerarnir sýna keisaranum nýtt efni sem keisarinn uppgötvar sér til mikillar skelfingar að hann sér ekki. Til að dylja "fáfræði" sína þykist keisarinn sjá það og hrósar því í hástert. Aðrir við hirðina geta ekki heldur séð neitt efni í höndum klæðskeranna, en af sömu ástæðum og keisarinn þykjast þeir sjá það og útlista fegurð þess með fögrum orðum. Loks þegar keisarinn kemur fram opinberlega í nýju fötunum híar lítið barn á hann því hann er jú ekki í neinum fötum og einfaldur raunveruleikinn verður skyndilega sýnilegur öllum sem vilja sjá hann. Á Íslandi hafa ný föt keisarans rutt sér til rúms undanfarið varðandi greiningu á rekstri fyrirtækja með ævintýralegum hætti. EBITDA, skammstöfun þessarar greiningaraðferðar, er alls ekki nýtt hugtak og því merkilegt hversu skyndilega það hefur rutt sér til rúms hérlendis. Nýlega var hugtakinu lýst sem Ebituna í frétt nokkurri, sem gefur til kynna hversu landlægt það er orðið hér.

Mismunur tekna og kostnaðar

EBITDA má útskýra í stuttu máli sem greiningartæki til að skilgreina hagnað fyrirtækja fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir. Önnur einfaldari leið til að skilgreina hugtakið er að það vísar til mismunar tekna og kostnaðar seldra vara og þjónustu.

Þetta greiningartæki er eitt af undirstöðuþáttum stjórnenda fyrirtækja til að gera sér grein fyrir því hvernig daglegur rekstur fyrirtækisins gengur, burtséð frá fjármögnun þess. Í undantekningartilvikum, aðallega hjá fyrirtækjum sem nýlega hafa hafið starfsemi, gefur EBITDA hugmynd um árangur starfseminnar, enda fjármögnun oft byggð á þeim skilningi að arðsemi sé neikvæð fyrstu misserin en skili sér í þeim mun meiri rekstrartekjum síðar meir.

Vísbending um greiðslugetu

Einnig skiptir þessi stærð miklu máli fyrir eigendur skuldabréfa. Hún veitir ágæta vísbendingu um hversu mörg ár það tekur fyrirtæki að greiða upp nettóskuldir þess miðað við núverandi rekstur án þess að fara út í endurfjárfestingar. EBITDA veitir m.ö.o. vísbendingu um greiðslugetu fyrirtækis. Fyrir hinn almenna hlutabréfafjárfesti veitir þessi stærð í sjálfu sér enga innsýn í raunverulegan rekstur flestra fyrirtækja. Hvað virði hlutabréfa varðar lifir EBITDA nefnilega í þeirri Disney-veröld að breyting afskrifta og fjármagnskostnaðar skipti ekki máli. Þeirri veröld óx fiskur um hrygg þegar vonin óx um að "nýja" hagkerfið myndi umbylta heiminum og því væru afskriftir og fjármagnskostnaður smámunir, tuð gamalla tíma. Staðreyndin í dag gefur auðvitað allt annað til kynna.

Nýleg dæmi varðandi afkomu sumra íslenskra fyrirtækja hafa samkvæmt EBITDA sýnt að reksturinn gengur afar vel. Miklar fjárfestingar undanfarinna ára, sem kalla á afskriftir í sama hlutfalli og aukna greiðslubyrði, auk hækkandi vaxtastigs á Íslandi, gerir það að verkum að EBITDA-samanburður veitir nánast enga vísbendingu um raunverulega rekstrarniðurstöðu fyrirtækja. Auk þess tekur hann ekki tillit til lækkunar skatta sem, eins og flestir vita, á eftir að hafa töluverð áhrif á hagnaðartölur fyrirtækja.

Að fara út í hléi

Það mætti því segja að EBITDA veitti ákveðna innsýn í rekstur fyrirtækja en gæfi engan veginn mynd af heildarrekstri þeirra. EBITDA-greining á rekstri fyrirtækja er ekki ósvipuð því að fara út í hléi á bíómynd og rita dóm um hana. Hálf sagan er sögð en allt er á huldu um heildarmyndina.

Á sama tíma og sérfræðingar hafa keppst við að hrósa EBITDA hefur legið milli línanna að útreikningar á V/H-hlutföllum, sem lengi voru notuð til að nálgast verðgildi fyrirtækja, séu gamaldags aðferð. Við nánari endurskoðun gefur V/H-hlutfallið hins vegar góða hugmynd um verðmæti fyrirtækis og samanburð á þeirri ávöxtunarkröfu sem nota skal við verðmat á því. Hlutfallið tekur tillit til allra þátta varðandi rekstur fyrirtækis þó svo að deila megi um gæði bókhaldsins í þeim efnum.

Áhersla á rekstrarniðurstöðu

Galdurinn er að greina raunhæf vænt V/H-hlutföll fyrirtækja og áhættuna tengda rekstri og fjármagnsuppbyggingu þeirra. Reynsla við greiningu á eigindlegum aðferðum (quantitative) og megindlegum aðferðum (qualitative), byggð á gömlum grunni, kemur þar að góðum notum. Á næstu vikum birta íslensk fyrirtæki ársuppgjör sitt. Björk Guðmundsdóttir sagði fyrir nokkrum árum, þegar leðurjakkatískan var í hámarki, að hún gæti ekki hugsað sér að sjá enn einn leðurjakkatöffarann röltandi um stræti bæjarins. Hún átti að sjálfsögðu við að nóg væri komið af þeirri tískubólu. Tími er einnig kominn til að EBITDA-tískubólan fari að renna sitt skeið á enda og vonandi leggja íslensk fyrirtæki á ný áherslu á rekstrarniðurstöðu sína - það er það sem skiptir máli - og svipta þannig hulunni af leyndardómi hinna nýju fata keisarans.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.