15. mars 2002 | Minningargreinar | 2572 orð | 1 mynd

KARL LILLIENDAHL

Karl Lilliendahl hljóðfæraleikari fæddist á Akureyri 16. júlí 1933. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjavík 10. mars síðastliðinn. Foreldrar Karls voru Guðný Hulda Káradóttir Lilliendahl húsmóðir, f. 25.7. 1907, d. 7.8. 1983, og Theódór Lilliendahl símritari í Reykjavík, f. 27.2. 1901, d. 25.11. 1981. Þau eignuðust tvö börn auk Karls, þau Óskar Lilliendahl, aðalbókara hjá SPRON, f. 1.7. 1938, d. 27.5. 1970; og Dagnýju Huldu Lilliendahl leikskólastarfsmann, f. 28.12. 1948, gift Erni Jóhannssyni, starfsmanni skattrannsóknastjóra.

Karl kvæntist 26.2. 1955 eftirlifandi eiginkonu sinni Hermínu Jónasdóttur Lilliendahl sjúkraliða, f. 6.12. 1935. Hún er dóttir Jónasar Halldórssonar, lengst af rakarameistara á Siglufirði, og Kristínar Steingrímsdóttur húsmóður, en þau eru bæði látin. Börn Karls og Hermínu eru: 1) Kristín Lilliendahl, kennari og þroskaþjálfi í Mosfellsbæ, f. 5.7. 1955, gift Stefáni J. Pálssyni húsasmíðameistara og eiga þau tvö börn; Grétu Salóme og Sunnu Rán. 2) Hulda Lilliendahl, verkefnastjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, f. 3.4. 1958, gift Viggó Bragasyni flugfjarskiptamanni og eiga þau tvö börn: a) Hildi Lilliendahl, sambýlismaður hennar er Ólafur Ingibergsson og eiga þau einn son, Sævar; og b) Karl Lilliendahl. Einnig á Viggó tvö börn frá fyrra hjónabandi: Völu Hrönn og Ólaf Orra. 3) Jónas Theódór Lilliendahl, verkstjóri í Reykjavík, f. 21.7. 1960, kvæntur Margréti S. Björnsdóttur kennara og eiga þau tvö börn; Snæbjörn Val Lilliendahl og Valbjörn Snæ Lilliendahl. Auk þess á Jónas son úr fyrra sambandi, Tryggva Paul Lilliendahl.

Karl ólst upp í Reykjavík og hóf hljómlistarferil sinn í Gagnfræðaskóla Austurbæjar er hann stofnaði skólahljómsveit þar 1949 ásamt Ragnari Bjarnasyni og Sigurði Þ. Guðmundssyni. Karl lék með Hljómsveit Þórarins Óskarssonar í Listamannaskálanum og með Hljómsveit Guðmundar Norðdahl í Vestmannaeyjum 1951-1952, með Hljómsveit Guðmundar R. Einarssonar í gamla Þórscafé við Hlemm 1953, með Guðmundi Norðdahl í Ungó í Keflavík 1954, með Hljómsveit Josefs Felzman og síðan Hljómsveit Aage Lorange í Tjarnarcafé frá 1955. Árið 1957 stofnaði Karl NEÓ-tríóið ásamt Magnúsi Péturssyni og Kristni Vilhelmssyni og léku þeir í Leikhúskjallaranum og Lídó til 1961. Eigin hljómsveit stofnaði Karl árið 1962 sem lék í Klúbbnum til 1966, en annaðist eftir það allan hljómlistarflutning á Hótel Loftleiðum frá opnun þess og til 1972. Eftir það starfaði hann með ýmsum hljómlistarmönnum, m.a. í Naustinu, Templarahöll Reykjavíkur og Veitingahúsinu Ártúni. Karl starfaði einnig sem sölumaður frá 1973, fyrst hjá Timburverslun Árna Jónssonar en síðan hjá Húsasmiðjunni frá 1985 til 1996. Karl var starfsmaður Hagaskóla frá 1997 til æviloka. Karl gekk til liðs við Kiwanis klúbbinn Heklu árið 1970 og gegndi tvívegis embætti forseta klúbbsins.

Útför Karls fer fram frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, umber allt.

Í minningunni ligg ég á milli afa míns og ömmu. Í myrkrinu heyri ég ömmu mína fara með bænina sem hún síðar kenndi mér til hlítar áður en ég fermdist. Ó faðir gjör mig lítið ljós. Ég læri versin þarna á milli þeirra og orðin setjast að í sálinni fyrir lífstíð. Einlæg bæn um að vera öðrum ljós, eða blómstur blítt, stöðugur í öllum aðstæðum lífsins, vera öðrum ljúflingslag, styrkur stafur og gjafmildur meðbróðir.

Þannig var pabbi minn, Karl Lilliendahl, sem andaðist á sinn hæverska og hljóðláta hátt á heimili sínu sl. sunnudag. Það er gæfa okkar sem þekktum hann að eiga nú fallega og óflekkaða minningu um mann sem með ljúflyndi sínu og rósemi hafði dýpri áhrif á líf okkar en hann sjálfan gat nokkurn tíma grunað.

Pabbi minn átti starfslok sín framundan, tíma sem hann hugðist verja meira með fjölskyldu sinni og til eigin hugðarefna, tíma tilhlökkunar. Það er sárt núna að fá ekki að sjá það verða. En við munum mæta komandi tímum með þeim hætti að það heiðri minningu hans sem best. Það gerum við með því að reyna að líkjast honum.

Minning um góðleik og hlýju, einstakt æðruleysi og áhuga á högum okkar barnanna sinna og barnabarna er aflið sem nú blæs í brotinn hálm og innan tíðar mun breyta nótt í dag.

Ég kveð þig elsku pabbi minn með þökk fyrir hver þú varst.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er

góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.

Kærleikurinn er ekki raupsamur,

hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega,

leitar ekki síns eigin,

hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni,

en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu,

umber allt.Guð blessi minningu þína.

Þín dóttir

Kristín.

Elsku pabbi minn nú ertu farinn. Þó að ég viti að þú sefur nú svefninum langa langar mig til að ávarpa þig beint eins og þú værir ennþá hjá mér. Annað get ég ekki því ég á ennþá von á að heyra í þér í símanum eða þá að sjá þig renna í hlað á Benzanum. Ég held ég hafi aldrei getað útskýrt nægjanlega fyrir þér hve heitt ég elskaði þig vinur minn. Hve ég dáði spilamennskuna þína á gamla Gibsoninn og hljómasúpuna sem þú kunnir. Hve ég er þakklátur fyrir að þú og mamma kennduð mér að meta djass og að þið skylduð ala mig upp með músík í eyrum. Í mínum huga verður aldrei annar eins "rytmadjassgítaristi" borinn í þennan heim. Það sagði mér eitt sinn einn af okkar fremstu gítarleikurum "af minni kynslóð" að hann hefði farið eitt laugardagskvöld niður í Naust til að stúdera rytmaleikinn þinn þegar þú varst að spila þar í kringum 1982. Hann sagði að það hefði verið ótrúlegt að sjá og heyra til þín og bætti við: Hvílík hljómasúpa! Þetta með hljómasúpuna kom mér ekki á óvart. Ef þú tókst upp gítarinn breyttust einföldustu lög í ótrúlegustu hljómaútsetningar og stundum þegar ég var að horfa á þig taka gripin fannst mér þú vera að gera eitthvað sem ekki væri hægt að gera. Ég spurði oft: Hvernig er hægt að skipta svona hratt um grip og hitta alltaf á réttu strengina pabbi? Þú brostir bara. Við hlógum oft að sögunni þegar þú varst ungur og þurftir að taka inntökupróf í FÍH svo þú mættir spila á böllum. Prófdómararnir létu þig fá nótur og báðu þig að spila. Þú baðst þá á móti að leyfa þér bara að heyra lagið - þá gætirðu örugglega fundið hljómana og spilað fyrir þá! Allir gömlu standardarnir sem þið mamma spiluðuð og sunguð svo oft þegar þú tókst upp gítarinn. All of me, Sunny side of the street, Basin Street Blues, Brúnaljósin brúnu, Litla stúlkan mín. Ég gæti haldið endalaust áfram.

Þú gafst mér svo margt fleira. Þú stoppaðir einu sinni bílinn þegar ég henti rusli út og lést mig ná í það. Ég var unglingur þegar það gerðist og enn þann dag í dag man ég þetta þegar ég vöðla saman bréfi í bílnum og set það í vasann. Þú settir siðferði efst á listann og kenndir mér að greina rétt frá röngu á svo margan máta. Þegar við Gréta giftum okkur gafst þú mér hvíta smókingjakkann þinn sem var orðinn þér of lítill. Honum var breytt og ég bar hann með reisn á giftingardaginn. Mér þótti jafn vænt um það og þér. Síðan þá hef ég alltaf klæðst honum á gamlárskvöld og mun gera svo lengi sem hann endist. Þú áttir þér svo marga svona siði og venjur sjálfur og eitt er víst að hluta af þeim genum fékk ég frá þér og er stoltur af. Það segja margir að við séum líkir í svo mörgu og er það oft sagt með örlítilli kímni. En pabbi, ef þú bara vissir hve ég er hreykinn af því að líkjast þér, ef bara ég hefði sagt þér það nógu skýrt og nógu oft. En ég hugga mig við að þú vitir það innst inni. Þú sagðir mér svo oft hvað þú værir hreykinn af mér og öllu því sem ég tók mér fyrir hendur og það er nokkuð sem mér þykir óendanlega vænt um. Kallaðir mig alltaf "Teddi minn", sama hvert erindið var.

Elsku hjartans pabbi minn. Ég veit að Guð blessar þig og varðveitir svo ég kveð þig nú í þeirri vissu að við hittumst fyrir hinum megin þegar kallið mitt kemur. Þá setjumst við niður og tökum upp gítarinn og saxinn og sameinumst í "Summertime" eða einhverjum góðum standard, tökum hvor utan um annan, saman á ný, í eilífu lífi.

Hvíl í friði elsku vinur.

Þinn sonur.

Kæri afi. Við vitum að þú sefur þínum langa svefni en okkur langar að kveðja þig. Gömlu góðu stundirnar eru liðnar og við yljum okkur við minningarnar um þig. Hvað þú varst glaður að við skyldum vera að læra að spila á hljóðfæri. Þú varst líka svo ánægður með jólaplötuna sem við feðgar gerðum og gáfum þér og ömmu. Við elskum þig allir kæri afi og líka Fluga, hundurinn okkar. Guð blessi þig elsku afi og við kveðjum þig með orðum Guðs:

Drottinn er minn hjálpari,

eigi mun ég óttast.

Snæbjörn, Valbjörn og Tryggvi.

Elsku hjartans Kalli minn. Þakka þér allt, sem þú varst mér. Yndislegur stóri bróðir, umhyggjusamur og góður við mig, alla tíð. Þakka þér fyrir alla tónlistina, sem hefur glatt mig, frá því ég man eftir mér.

Ég sakna þín svo mikið og óska að ég hefði getað faðmað þig og fengið koss á ennið, áður en þú fórst. En þannig heilsuðumst við og kvöddum alltaf hvort annað. Minningarnar eru margar og þær geymi ég í hjarta mínu.

Pabbi, mamma og Óskar bróðir hafa nú tekið á móti þér, opnum örmum. Guð blessi þig og geymi, elsku bróðir minn.

Innilegustu samúðarkveðjur til elsku Hermínu, Stínu, Huldu, Tedda og fjölskyldna þeirra. Guð blessi ykkur öll og styrki.

Ó faðir, gjör mig ljúflingslag,

sem lífgar hug og sál

og vekur sól og sumardag,

en svæfir storm og bál.

(Matth. Jochumsson.)

Þín systir,

Dagný.

Elsku frændi minn. Ég er ekki enn búinn að átta mig á þessu. Aldrei hef ég grátið né harmað lát nokkurs manns jafnmikið og nú. Í mínum augum varstu ekki bara fyrirmynd á tónlistarlegum sviðum heldur einnig fyrirmynd hvað varðar ljúfleika og persónuleika. Á mínum þunglyndustu stundum sem unglingur varð ég ávallt himinlifandi er þú komst í heimsókn og faðmaðir mig. Það eina sem gæti bundið enda á sorgina sem nú ríkir í fjölskyldunni væri ef þú kæmir einu sinni enn og faðmaðir okkur að þér eins og þú gerðir í hvert einasta skipti sem ég man eftir að hafa hitt þig.

Þú hefur alltaf haft trú á mér sem gítarleikara, jafnvel þegar ég hlustaði á einhver skrípalæti sem flokkast varla undir tónlist. Eftir að ég uppgötvaði djassinn hef ég sífellt óskað þess að einn daginn gæti ég mögulega haft 1/10 af þeirri kunnáttu sem þú hafðir. Að einn daginn gæti ég spilað á tónleikum og heillað þig upp úr skónum. Mér verður ávallt hugsað til þín er ég heyri fagra gítartóna líkt og mér er hugsað til Óskars frænda þegar ég heyri fagra bassatóna, þótt aldrei hafi ég verið svo heppinn að kynnast honum eins heppinn og ég var að kynnast þér.

Þegar menn eins og þú deyja neita ég að trúa öðru en að það sé líf eftir dauðann. Þú varst ljúfasti maður sem ég hef nokkru sinni kynnst og sá albesti frændi sem hægt er að ímynda sér.

Megi líf þitt, sem framundan er, verða hið farsælasta. Vertu sæll í bili, frændi. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Hermínu og fjölskyldu.

Óskar Örn Arnarson.

Hann Kalli frændi minn er farinn. Ég á afar erfitt með að sætta mig við þá staðreynd að ég sjái hann ekki aftur, faðmi hann og hlýni um hjartarætur þegar hann brosir til mín. Hann er einn af þeim einstaklingum sem ég hélt að yrðu alltaf hér og myndu aldrei breytast.

Ég er þó lánsamari en flestir, því ég náði að kynnast þessum stórkostlega manni vel og á svo margar yndislegar minningar um hann.

Ein sú skýrasta er frá níu ára afmælinu mínu. Ég hafði alltaf verið meiri strákur í mér en stelpa, og er það reyndar enn. Þennan dag kom Kalli frændi í afmælisveisluna og færði mér konfektkassa og gullfallega rós. Þetta var í fyrsta og eina skiptið á ævi minni sem mér hefur liðið eins og prinsessu. Kalli frændi hafði þann einstaka hæfileika að draga fram það besta í öllum og ég var alltaf ánægðari með sjálfa mig þegar hann var nálægt, hann hafði svo mikla útgeislun og hlýju.

Það er sárt að kveðja uppáhaldsfrænda minn og innan fjölskyldunnar ríkir mikil sorg, en það er þó huggun harmi gegn að amma Hulda, afi Theodór og Óskar frændi taka á móti honum opnum örmum á betri stað. "Sumir koma í líf okkar og hverfa þaðan fljótt. Aðrir staldra við, skilja eftir spor í hjarta okkar og við erum aldrei söm." Með sorg í hjarta kveðjum við frænda okkar og sendum innilegustu samúðarkveðjur til Hermínu frænku og fjölskyldu.

Erna Huld og Jóhann Kári.

Sunnudaginn 10. mars varð Karl Lilliendahl, starfsmaður Hagaskóla, bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjavík. Hann hafði verið starfsmaður skólans undanfarin fjögur ár og sinnti margvíslegri þjónustu við börnin sem gangavörður.

Karl setti sinn svip á samfélag okkar í skólanum og við minnumst hans með söknuði og hlýhug þegar hann er nú horfinn úr okkar hópi. Skemmst er að minnast þátttöku hans í hljómsveit sem lék á svokölluðu braggaballi tíundu bekkinga þar sem fimm kennarar og aðrir starfsmenn tróðu upp og léku nokkur lög frá sjötta áratugnum við ljómandi góðar undirtektir barnanna. Þar sýndi Karl kunnuglega takta á gítarinn og lék við hvern sinn fingur.

En nú hefur klukkan glumið honum og henni verður að hlýða hversu ótímabært og ósanngjarnt sem okkur annars kann að finnast það. Fjölskyldu Karls sendum við í Hagaskóla samúðarkveðjur okkar og biðjum þess að birta megi ætíð umlykja minninguna um þann góða dreng, Karl Lilliendahl.

Samstarfsmenn í Hagaskóla.

Ekki átti ég von á því er ég kvaddi vin minn Karl Lilliendahl eftir vel heppnaða skemmtun á Hrafnistu í Reykjavík 21. feb. síðastl., að það yrði hinsta kveðjan. Þetta var okkar árlega stefnumót á Hrafnistu sem hófst árið 1968. Kalli kom þá að máli við mig og bað um aðstoð við að halda uppi dansi á skemmtun Kiwanis-manna fyrir vistfólk Hrafnistuheimilisins í Reykjavík. "Óskar bróðir" eins og Kalla var tamt að segja var þá félagi í Kiwanis-klúbbnum Heklu. Hann plataði okkur Kalla ásamt fleirum úr hljómsveitinni til að koma á Hrafnistu og leika fyrir dansi að skemmtun lokinni. Þar með var lagður grunnurinn að samstarfi mínu með Kalla mínum og Kiwanis-mönnunum í Heklu sem hefur staðið óslitið síðan. Kalli gekk í klúbbinn að bróður sínum látnum kringum 1970.

Það var árið 1964 sem leiðir okkar Kalla lágu saman. Kalla vantaði þá söngkonu með hljómsveit sinni í veitingahúsinu "Klúbbnum" við Borgartún. Síðan lá leið okkar í Víkingasal Hótel Loftleiða er hann var opnaður með viðhöfn 1. maí 1966. Þegar ég hætti að syngja með hljómsveit Karls Lilliendalhl 1971, hélt samstarf okkar áfram með félögunum í "Heklutríóinu" sem kom saman einu sinni á ári á Hafnistu, sér og öðrum til skemmtunar.

Margs er að minnast og margs er að sakna. Mig langar að þakka Kalla mínum fyrir frábært samstarf á hljómsveitarpallinum gegnum öll árin, og þátttöku hans í gerð hljómdisksins er ég gerði með góðri aðstoð gamalla og glaðra félaga 2001. Þar sannaði Kalli minn að hann hafði engu gleymt, og handlék gítarinn á sinn einstaka hátt með mjúkri og glaðri sveiflu.

Elsku Hermína mín, Stína, Hulda, Teddi og aðrir ástvinir. Við Þórhallur sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímamótum. Megi guð og allir hans englar vera með ykkur í sorginni. Blessuð sé minningin um góðan dreng.

Hjördís Geirsdóttir.

Kristín.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.