28. mars 2002 | Viðskiptablað | 630 orð

Markverð tímasetning

Myndun loftbóla í virði hlutabréfa og keðjuverkun þeirra

Oft er sagt að tímasetning skipti öllu máli.
Oft er sagt að tímasetning skipti öllu máli. Haft var eftir hinum þekkta hagfræðingi, Irving Fisher, að gengi hlutabréfa virtist hafi náð varanlega háum hæðum, en þessi umæli eiga frægð sinni að þakka að þau voru sögð rétt áður en gengi hlutabréfa náði hámarki árið 1929 og féllu síðan um 90% í gildi næstu þrjú árin. Tímasetning útgáfu bókarinnar Irrational Exuberance eftir Robert J. Shiller er ekki síður markverð. Bókin er sérstök að því leyti að meginefni hennar fjallar um þá vitfirru sem höfundur taldi að einkenndi gengi hlutabréfa. Bókin kom í bókabúðir um miðjan mars árið 2000, nánast á sama augnabliki og loftbóla NASDAQ hlutabréfavísitölunnar tók að hjaðna. Í upphafi bókarinnar eru leidd fram söguleg rök, aðallega útfrá V/H hlutföllum, að hlutabréfamarkaðir voru ekki einungis hátt verðlagðir í byrjun ársins 2000, heldur er einnig bent á að þeir væru jafnvel enn hærra verðlagðir en þeir voru árið 1929. Gröfin sem sýna þetta eru vissulega áhugaverð og gefa til kynna að þrír hæstu toppar V/H hlutfalla á síðustu öld hafi verið undanfarar hræðilegrar ávöxtunar hlutabréfa næstu 20 árin. Tekið er fram að ekki er litið til vaxtastigs hverju sinni án teljandi skýringa, sem dregur aðeins úr áhrifamætti röksemdarfærslunnar. Tölurnar tala hins vegar sínu máli og gengið er út frá því sem staðreynd að hlutabréfamarkaðir séu gróflega ofmetnir, sem reyndar kom síðar á daginn.

Meginefni bókarinnar snýr svo að því að útskýra hvernig loftbólur í virði hlutabréfa myndast og keðjuverkandi áhrif þeirra. Sjónum er aðallega beint að hækkandi hlutabréfaverði síðasta áratugar. Litið er á þá þætti umhverfisins sem mest áhrif höfðu á vitund fólks, aðallega í kjölfar veraldarvefsins sem Shiller telur að hafi haft mikil áhrif á gengi hlutabréfa. Veraldarvefurinn opnaði nýjan heim fyrir marga, heim þar sem fólk gat skyndilega fengið ógrynni upplýsinga sem það sjálft stýrði að einhverju leyti. Þetta gerðist á sama tímabili og hagnaður fyrirtækja jókst mikið og með vonir um aukna framleiðni með aðstoð veraldarvefsins urðu spár um aukinn hagnað sífellt bjartsýnni, og einnig óraunsæjar. Aukið upplýsingaflæði hafði einnig áhrif í sjónvarpsáhorfi, t.d. aukið áhorf fjármálasjónvarpsstöðvarinnar CNBC. Með sjónvarpsstöð með nýjustu fréttir fjármálamarkaðarins og aðgang að veraldarvefnum fóru margir að nýta sér þá möguleika að versla með hlutabréf á veraldarvefnum fyrir hóflegar þóknanir, sem aðeins nokkrum árum áður var annaðhvort dýrt eða nánast ógerlegt. Allir þessir þættir auk annarra utanaðkomandi áhrifa hjálpuðust að við að mynda loftbóluna.

Shiller lítur á þætti sem tengjast sálfræði og menningu, og bendir réttilega á að menning er samofin fjölmiðlum í vestrænu samfélagi í dag. Hann telur að þessir tveir þættir geti saman unnið að því að mynda ekki aðeins loftbólur í virði hlutabréfa heldur einnig vanmat á þeim til lengri tíma samkvæmt flestum stöðlum. Þetta leiðir til hjarðhegðunar og þó svo að 50.000 Elvis-aðdáendur geti ekki haft rangt fyrir sér telur Shiller að milljónir fjárfesta geti svo sannarlega verið á villigötum ef réttu kringumstæðurnar myndast.

Í eftirmála bókarinnar, skrifaður um ári eftir að netbólan sprakk, skrifar Shiller: "Birnirnir eru þögulir. Þeir sem misstu vinnu sína vegna svartsýnna skoðana sinna eru enn ekki í dag komnir aftur í áhrifamiklar stöður." Þessi tilvitnun endurspeglar þá erfiðleika sem menn glíma við þegar loftbólur á hlutabréfamörkuðum myndast. Erfitt er að vera með varnaðarorð um verðgildi hlutabréfa þegar þakklætið er sjaldan til staðar og fólk "tapar" á því að vera ekki þátttakendur í leiknum. Í því ljósi má segja að útgáfa Irrational Exuberance hafi verið hugdjörf. Mikilvægi sögulegra og aðallega sálfræðilegra rannsókna koma skýrt fram, enda nauðsynlegt í því umhverfi sem bókin var skrifuð í. Að lokum má nefna að Shiller telur að fjárfestar séu enn í dag allt of bjartsýnir varðandi gengi hlutabréfa og séu enn "að læra" að hlutabréf eru ekki nauðsynlega besta langtímafjárfestingin. Því er Irrational Exuberance verðug lesning í dag ekki einungis varðandi fortíðina, heldur einnig hugsanlega varðandi komandi ár.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.