Flugrekstur Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning SAS fyrir prófraunina Rætt við Jóhannes Georgsson, framkvæmdastjóra SAS á Íslandi, um markmið flugfélagsins á tímum samdráttar og harðnandi samkeppni FORRÁÐAMENN evrópskra flugfélaga sjá fram á...

Flugrekstur Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning SAS fyrir prófraunina Rætt við Jóhannes Georgsson, framkvæmdastjóra SAS á Íslandi, um markmið flugfélagsins á tímum samdráttar og harðnandi samkeppni FORRÁÐAMENN evrópskra flugfélaga sjá fram á harðnandi samkeppni eftir að hinn sameiginlegi innri markaður í Evrópu kemst á í árslok 1992. Brugðist hefur verið við þessari ógnun með ýmsum hætti, en stefnan hjá flestum flugfélögum virðist vera að auka samstarf sín á milli. Skandinavíska flugfélagið SAS hefur verið framarlega í flokki þeirra flugfélaga sem vinna að því að styrkja stöðu sína með því að byggja upp alþjóðlegt samstarfsnet. Slíkt samstarf býður upp á mikla hagræðingu í kostnaði auk aðgangs að stærra og öflugra bókunarkerfi. Þá hafa forráðamenn SAS á síðustu árum verið iðnir við að kaupa hlut í flugfélögum í Evrópu og Bandaríkjunum til að treysta samkeppnisstöðu félagsins. Það má því segja að mikil vinna hafi verið lögð í að undirbúa SAS fyrir þá prófraun á samkeppnishæfni fyrirtækisins sem opnun innri markaðar Evrópu verður óneitanlega, en þá verður samkeppni á flugleiðum innan Evrópu gefin frjáls.

SAS hóf rekstur söluskrifstofu í Reykjavík árið 1969. Þá hófust einnig áætlunarferðir milli Kaupmannahafnar og Grænlands með viðkomu á Íslandi, en þær ferðir lögðust af árið 1981. Í aprílbyrjun árið 1988 voru aftur teknar upp fastar ferðir SAS milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur og var fyrsta árið flogið hingað einu sinni í viku. Ferðunum fjölgaði í tvær árið eftir og nú í aprílbyrjun verður þriðju ferðinni bætt inn í áætlun félagsins. Jóhannes Georgsson, framkvæmdastjóri SAS á Íslandi, sagði í samtali við Morgunblaðið að ætlunin væri að hefja hingað daglegt flug á næstu tveimur til þremur árum.

Jóhannes sagði að starfsemi skrifstofunnar hér væri tvíþætt. Annars vegar væri um að ræða sölu á flugi milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar, en aðalsalan væri í tengiflugi frá Kaupmannahöfn og út um allan heim. Þá færu farþegar ýmist utan með SAS eða Flugleiðum. SAS heldur uppi tengiflugi til flestra heimshorna og hefur samstarf við önnur flugfélög um að flytja farþega þangað sem félagið flýgur ekki sjálft," sagði Jóhannes. Hann sagði ennfremur að SAS hefði undanfarin ár átt samstarf við Flugleiðir um sameiginleg flugfargjöld til og frá borgum víða um heim í gegnum Kaupmannahöfn.

Erum að opna Ísland sem markaðssvæði"

Þessir samningar hafa verið beggja hagur. Hlutur Flugleiða verður ekki minni en áður, þrátt fyrir fjölgun ferða SAS milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar, þar sem þeir munu njóta góðs af kynningu Íslands í hinu víðtæka markaðs- og dreifingarkerfi SAS," sagði Jóhannes. Á síðasta ári var rætt um hugsanleg hlutabréfakaup SAS í Flugleiðum, en Jóhannes sagði að viðræður milli þessara aðila hefðu stöðvast síðastliðið haust vegna ágreinings um verðgildi hlutabréfa Flugleiða. Í dag eiga SAS og Flugleiðir sennilega í meiri samkeppni en nokkru sinni áður. Hún er að hluta komin til vegna fjölgunar ferða hjá SAS milli Íslands og Danmerkur og eins vegna þess að við höfum eflaust tekið við stöðu Arnarflugs sem helsti samkeppnisaðili Flugleiða í flugi til Ísland. Það er þó ekkert sem segir að þessi tvö flugfélög geti ekki verið samstarfsaðilar báðum til hagsbóta. SAS gefur Flugleiðum aðhald með samkeppni og þeir fá þá kosti sem fylgja því að eiga samstarf við stórt flugfélag með sambönd um allan heim. Það er hagkvæmt fyrir SAS að fá hingað farþega í gegnum Kaupmannahöfn, hvernig sem þeir koma og stefnan er að kynna Ísland á alþjóðlegum markaði," sagði Jóhannes.

SAS er alþjóðlegt fyrirtæki í eigu þriggja flugfélaga í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Síðan er hvert þessara þriggja flugfélaga að hálfu í eigu viðkomandi ríkisstjórnar og að hálfu í eigu einkaaðila sem hlutafélög. Ríkisstjórnirnar eru fjárfestingaraðilar, en beita sér ekki fyrir ákvarðanatöku í rekstri fyrirtækisins. Þessi þrjú félög eiga síðan önnur þrjú sem stunda víðtæka starfsemi í sambandi við flugrekstur fyrirtækisins. Að auki rekur SAS nokkur dótturfyrirtæki og er þar helst að nefna SAS hótelin og SAS Service Partner sem sér um veitingarekstur á flugvöllum. Þá á SAS Diners Club kreditkortafyrirtækið á Norðurlöndum ásamt hluta í nokkrum flugfélögum.

SAS er flugfélag þeirra sem ferðast í viðskiptaerindum

- Nú urðu áherslubreytingar í rekstri SAS í byrjun síðasta áratugar. Hvaða markmið voru fyrirtækinu þá sett?

Meginmarkmiðið var að verða flugfélag þeirra sem ferðast í viðskiptaerindum. Þeir setja öðruvísi kröfur sem fyrst og fremst ganga út á að ferðir séu tíðar og bókunarkerfi sveigjanlegt og eru reiðubúnir til þess að greiða fullt verð fyrir þá þjónustu. Viðskiptavinurinn lagar sig ekki lengur að flugfélaginu, heldur gengur þetta öfugt fyrir sig í dag," sagði Jóhannes. Hann sagði ennfremur að hjá SAS þætti eðlilegt að þeir sem ferðuðust í viðskiptaerindum og greiddu þess vegna hærra gjald en venjulegir ferðamann, fengju betri þjónustu. Því hefði verið sett upp sérstakt farrými fyrir þá farþega sem ferðuðust þannig og þeim væru boðin ýmis hlunnindi.

Þrátt fyrir að við höfum byggt upp okkar kerfi á því að reyna að fullnægja kröfum þeirra sem ferðast mjög oft og þurfa þess vegna tíðar ferðir og sveigjanlega bókunarmöguleika, viljum við líka þjóna þeim sem ferðast sem venjulegir ferðamenn. Við álítum forsendu þess að við getum boðið þeim farþegum hagstæð fargjöld vera þá að við náum árangri með aðalmarkmiðið," sagði Jóhannes. Hann sagði einnig að meðal markmiða SAS væri að verða alþjóðlegt flugfélag sem flytti farþega milli heimsálfa og væri með Evrópu sem heimavöll.

- Hafa forráðamenn SAS fundið leiðir til þess að ná þessum markmiðum?

Eftir að markmið fyrirtækisins voru orðin skýr og menn sammála um að stefnt skyldi að þvi að nálgast þau var stóra spurningin sú hvort að SAS væri ekki of lítið fyrirtæki. Menn gerðu sér grein fyrir því að fyrsta skrefið væri að stækka fyrirtækið og í því skrefi erum við núna. Við leituðum eftir samstarfi við önnur flugfélög og útkoman varð Evrópska gæðabandalagið þar sem stærstu flugfélög allra EFTA landanna að Íslandi undanskildu sameina krafta sína. Auk SAS eru þar Swissair, Finnair og Austrian. Flugleiðir voru lengi vel inni í myndinni, en samningar gengu ekki saman. Við reynum að beina farþegum milli þessara fjögurra flugfélaga, með því að hafa þjónustuna þannig að þeir þurfi ekki að leita annað. Við lögum t.d. tímatöflur flugfélaganna saman og beinum farþegum þannig á milli."

Markaðshlutdeild SAS á Íslandi fer vaxandi"

SAS á einnig í samstarfi við önnur flugfélög og má þar nefna breska félagið British Midland, Continental í Bandaríkjunum, All Nippon í Japan, Thai í Tælandi, kanadíska flugfélagið Canadian og Varig í Brasilíu. Kaupmannahöfn er þannig að verða gífurlega mikilvæg loftumferðamiðstöð í alþjóðlegu flugneti okkar sem nær til allra heimsálfa," sagði Jóhannes.

- Ef við snúum okkur aftur að SAS á Íslandi, hvernig gengur reksturinn hér. Er markaðshlutdeild SAS að aukast á Íslandi?

Sala SAS á Íslandi var um 330 milljónir íslenskra króna á síðasta ári. Frá árinu 1987 hefur aukningin verið gífurlega mikil og á þessu ári er áætlað að salan verði um 450 milljónir króna eins og sést á meðfylgjandi línuriti. Í febrúar varð 20% samdráttur í flugferðum Íslendinga, en hann dró ekki úr sölu okkar miðað við síðasta ár. Við náðum hins vegar ekki þeirri söluaukningu sem við höfðum reiknað með. Þrátt fyrir það erum við bjartsýnir á að ná þeirri söluaukningu sem við höfðum áætlað yfir árið í heild," sagði Jóhannes.

Markaðshlutdeild SAS á Íslandi hefur einnig aukist síðustu tvö ár úr 14% í 20%. Þar er hlutfall SAS reiknað af heildarfjölda þeirra Íslendinga sem ferðuðust á árinu og keyptu á Íslandi ferðir á einhverri af flugleiðum SAS í heiminum. Árið 1989 flugu 20.000 farþegar með SAS af þeim 142.000 Íslendingum sem ferðuðust. Í fyrra ferðaðist sami fjöldi Íslendinga, en þá flugu 28.000 með SAS. Breyting á sætaframboði SAS milli Íslands og Danmerkur er ekki eina skýringin á þessari aukningu. Við erum hreinlega að ná til okkar stærri bita af kökunni," sagði Jóhannes. Hann sagði einnig að af heildarsölu SAS á Íslandi á síðasta ári hefðu 35% farþega verið á leiðinni KeflavíkKaupmannahöfn. Þá voru 55% af heildarfjölda ferða SAS milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar seld á Íslandi.

SAS heldur sínum hluta með auknum tilkostnaði

- Hvernig lítur framtíðin út hjá SAS. Með hvaða ráðum ætlar fyrirtækið að mæta þeim samdrætti sem spáð er og aukinni samkeppni í kjölfar sameiginlegs markaðar í Evrópu?

Við stöndum frammi fyrir því sama og önnur flugfélög að kostnaður í flugrekstri hefur aukist gífurlega og þar er aukinn eldsneytiskostnaður aðalástæðan. SAS stendur illa samanborið við önnur alþjóðleg flugfélög vegna þess hve kauplag á Norðurlöndum hefur aukist umfram það sem gerist annars staðar í Evrópu. Þessi staðreynd hlýtur eðlilega að draga úr samkeppnishæfni SAS gagnvart öðrum alþjóðafyrirtækjum nema eitthvað verði gert.

Við þurfum því að grípa til einhverra aðgerða til þess að vega upp á móti auknum kostnaði. Við höfum haldið okkar markaðshlutdeild, en til þess höfum við þurft að efna til aukins tilkostnaðar vegna aukinnar samkeppni. Ég get tekið sem dæmi að á síðustu tveimur árum hefur orðið 75% aukning í flugi milli Kaupmannahafnar og London, en farþegaaukning á sama tíma er aðeins 14:%," sagði Jóhannes.

Jóhannes sagði ennfremur að stríðið við Persaflóa hefði tekið sinn toll líkt og hjá öðrum flugfélögum. SAS varð fyrir tekjumissi uppá 5 milljarða íslenskra króna vegna stríðsins. Þá hafa menn hafa spáð fyrir um kreppu í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð í ár og næsta ár og eins hefur lágt gengi bandaríska dollarsins verið okkur óhagstætt þar sem mikil hluti tekna SAS kemur inn í dollurum. Hátt gengi sænsku krónunnar undanfarið hefur einnig leitt til aukins kostnaðar hjá SAS. Minnkandi hagvöxtur er auðvitað líka áhyggjuefni, en þumalfingurreglan er sú að 1% breyting í hagvexti leiði af sér 2% breytingu í seldum farþegakílómetrum," sagði Jóhannes.

Þurfum að skera upp herör gegn kostnaði

Að sögn Jóhannesar hefur SAS ákveðið að mæta þessum áföllum með því að skera niður kostnað um 30 milljarða íslenskra króna fram að ársbyrjun 1993. Það hefur verið nokkuð gagnrýnt að þessar samdráttaraðgerðir komi aðallega niður á heimalöndum fyrirtækisins og lítið á hinum alþjóðlega markaði. Ástæðan er sú að á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil hagræðing hjá SAS annars staðar en í Skandinavíu þar sem verkalýðsfélög hafa staðið í vegi fyrir slíku.

Í dag vinna hjá flugfélaginu um 22.500 og við þurfum að fækka um 3.500 á næstu tveimur árum. Heildarstarfsmannafjöldi SAS er hins vegar um 42.000. Það verður gripið til ýmissa ráða s.s. tilfærslna í starfi, launalaus leyfi starfsmanna og eins verður mönnum boðið að fara snemma á eftirlaun. Ef þetta dugar ekki til verður að grípa til uppsagna, en það verður forðast í lengstu lög. Við þurfum einnig að draga úr framleiðslukostnaði t.d. með því að nota sparneytnari vélar. Eins þurfum við að minnka við okkur í fjárfestingum og lækkar stjórnunar- og rekstarkostnað með því að tileinka okkur nýjar aðferðir," sagði Jóhannes.

Jan Carlzon, framkvæmdastjóri SAS, hefur lýst því yfir að aðeins stærstu flugfélögin eigi eftir að lifa af sem alþjóðaflugfélög og árið 1995 verði eingöngu 5 slík ráðandi í Evrópu. Yfirlýst markmið SAS er að verða eitt af þeim. Stóra takmarkið hjá SAS er að verða ofan á í þeirri miklu samkeppni sem er fyrirsjáanleg í Evrópu með innri markaðnum árið 1992. Stefnt er að því að ná 13% arðsemi í rekstri á næstu árum og a.m.k. 50% markaðshlutdeild í Skandinavíu. Við viljum sem sagt að fólk álíti að SAS gefi besta ferðamöguleikann og vinnum heilshugar að því að ná því markmiði," sagði Jóhannes Georgsson, framkvæmdastjóri SAS á Íslandi.

HKF

Morgunblaðið/Sverrir

FLUGREKSTUR - Jóhannes Georgsson, framkvæmdastjóri SAS á Íslandi, sagði að forráðamenn fyrirtækisins væru bjartsýnir á að ná áætlaðri söluaukningu á árinu þrátt fyrir stöðnun fyrstu tvo mánuðina.