Jón Múli Árnason Jóni Múla veitist einkar létt að ná beinu fjarskiptasambandi við hlustendur. Hann kann þá list að nálgast þá með þeim hætti, sem laðar til sín áheyrendur með kurteislegri gamansemi og siðfágun. Meðal margra trúnaðarstarfa sem Jóni voru falin af Ríkisútvarpinu má telja kynningu sinfóníutónleika í Háskólabíói. Þar naut sín vel vandvirkni hans og alúð, jafnframt mælsku og orðgnótt. Svo lifandi voru lýsingar Jóns ef efnisskráin og atburðarás á sviði og í sal gaf tilefni, og það sem fyrir augu bar, að áheyrendur, er heima sátu, hefðu mátt hafa í huga ljóð Einars Benediktssonar Í Dísarhöll:

Svo glatt er leikið af gripfimum drengjum

sem gneistar kveikist af fiðlunnar þvengjum.

Svo myndrænar voru lýsingar Jóns Múla frá hljómleikasal að hannhefði í mörgum tilvikum mátt taka til sín orð Einars Benediktssonar um stjórnandann:

. . . hann leikur hvern atburð á tónanna sviði

svo augað með eyranu fagnar.

Fæstir hlustendur vissu eða gerðu sér grein fyrir því hve miklum tíma Jón varði til þess að undirbúa kynningar sínar. Því miður er algengt að kastað sé höndum til slíkra verka og þeir sem falin eru slík kynningarstörf í fjölmiðlum láti móðan mása án þekkingar á viðfangsefninu, reki í vörður og geri hlé á máli sínu, svo helst virðist semþeir séu hlustendum síst fróðari og viti jafnvel minna um efnið en þeir, sem heima sitja. Slíkt henti Jón aldrei. Hann bjó sig jafnan undir starf sitt hverju sinni. Leitaði upplýsinga um tónverk og tíðaranda, höfunda, flytjendur og hljóðfæraskipan. Að því búnu hófst hann handa að semja kynningar sem féllu svo að tíma þeim, sem ætlaður var til þeirra, að aldrei kæmi til árekstra og þess jafnan gætt að ekki yrðu löng og leið hlé á útvarpstíma tónleikanna. Reyndist svo jafnan að "stóð heima strokkur og mjölt", eins og Björn magister frá Steinnesi hefði sagt ef hann hefði áttað tiltaka eitthvað það sem stóðst tímaáætlun. Takmark hljómsveitar og stjórnanda er að töfrasproti tónlistarinnar hrífi hug þeira sem á hlýða.

Í ljóði Einars Benediktssonar sem til var vitnað lýsir skáldið þeirri tilfinningu sem bærist í brjósti hrifnæms áheyranda á sinfóníutónleikum.

Svo hrífist ég með - og hefjist í geði.

Jón Múli átti sinn ríka þátt í þvíað hrífa útvarpshlustendur og hefja þá í geði. Mig minnir að Gunnar Gunnarsson skáld hafi eitt sinn látið þess getið í viðtali að hann byrjaði vinnudag sinn á því að hlýða á morgunútvarp. Jón Múli réð þar þá ríkjum. Gunnar skáld nefndi hann ármann útvarpsins. Það var við hæfi. Jón er árrisull og honum reyndust drjúg morgunverkin í góðum skilningi þeirra orða. Orðabók Árna Böðvarssonar skýrir orðið ármann m.a. sem hollvætt í fjalli eða steini. Í leikriti þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar "Delerium Búbónis" er sungið um Ármannsfjallið fagurblátt og fannir Skjaldbreiðar og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.

Nú eru eyktamót í ævi Jóns. Þó hann hafi "sungið fyrir heiminn" eins og Nonni litli í Sumarhúsum og sagt fáein orð að auki og væri þess vegna vel að hvíldinni kominn, kæmi ekki á óvart að hann tæki Gvend Guðbjarts sér til fyrirmyndar og héldi áfram að gera eitthvað. Jóni Múla fer trúlega svipað skáldinu, sem bað þess að kvöldi erilsams dags að góður vinnudagur færi í hönd.

Kærar kveðjur, þakkir og heillaóskir úr Hjallhúsi í Grjótaþorpi.

Pétur Pétursson þulur.