Jón Múli Árnason Það er merkilegt; maður vinnur með einhverjum í áratugi, sér hann daglega, heyrir hann oftar, og svo einn dag gengur hann út af vinnustað og tilheyrir fortíð á eftirlaunum og þú getur byrjað að gleyma honum, eða munað hann fyrir alvöru, þá uppgötvarðu að þú þekkir manninn ekkert, nema af góðu einu.

Jón Múli Árnason, landsþekktur þulur Ríkisútvarpsins, jasssjúklingur, lúðrasveitarblásari, lagasmiður slíkur, að öll þjóðin syngur hann, grínisti af sjaldgæfri gerð, hæglátur séntilmaður, kommi á heimsmælikvarða, sonur íhaldsins, Þingeyingur, gamall boxari, hláturmildur, þungur á brún, útvarpsmaður fyrstog síðast, fagmaður í fínustu fjölskyldu útvarpsmanna, löngu áðuren lélegar eftirlíkingar flæddu á markaðinn.

Þetta allt saman er sjötugt í einum manni á páskum, 31. þessamánaðar, og ég sem reiknaði meðþví að hann yrði eilífur á góðum aldri ungs manns! Þannig var hann þegar ég kynntist honum.

Þegar ég sjálfur slysaðist til að hefja störf hjá Ríkisútvarpinu var Jón Múli þegar orðinn landsfrægur, elskaður af hlustendum fyrir röddina og túlkunina á fréttum og tilkynningum, en þannig var það nú ekki í byrjun. Hann þurfti að losa sig við galla byrjandans eins og við allir, sem vildum þjóna íslenskum útvarpshlustendum.

Þegar ég, eftir nokkurra ára störf, gerðist þulur, var Jón Múli þar fyrir ásamt Pétri Péturssyni og þeir leiðbeindu mér, leiddu mig holótta götuna að eyrum hlustenda. Jón Múli var þá þegar lítt gefinn fyrir tilfinningasemi, hann kaus "mérstendurásama"-skelina, maður nálgaðist hann varlega og hrökk iðulega frá honum, þegar heldur háðskar athugasemdir skullu á manni. Ég varð hinsvegar oft vitni að því, að harkan var tilbúningur, að undir kaldrænunni bjó mikil hlýja, heitar tilfinningar, allt hans fas var merkt "mérstendurekkiásama" - þó þið haldið það! Þetta fann ég í fari hans þegar hann varað lesa fréttir sem báru hryggð þeim er heyrðu, þegar slys urðu og snertu alla þjóðina, en kom í hans hlut að segja þær fréttir. Ég vissi að einu sinni, þegar togari fórst með allri áhöfn, treysti Jón Múli sér ekki til að lesa öll þessi nöfn vaskra manna og um alla þá semþeir létu eftir sig, hann las þessa frétt inn á segulband, með þeirri mildi sem sorgarfréttin krafðist. Þá passaði ekki "mérstendurásama"rödd hins venjulega þular.

Þegar ég hef þurft að leita til Jóns Múla, í starfi eða einkalífi, hefur hann brugðist við af drengskap. Ráð hans voru þó oft gefin í þessum hálfkæringi, en sæmilega læs maður á manneskjuna gat strokið kæringinn út og notfært sérgóð ráð greinds manns.

Afmælisbarn dagsins, háttvirtur Jón Múli, mun lengi verða eilífur á góðum aldri sjötugs manns. Hannhefur meitlað í skúlptúr útvarpsins það form sem ekki verður endurgert betur.

Það hefur löngum verið sagt að maður komi í manns stað. Ég leyfi mér að efast um að það sé rétt. Hvar sem leitað verður, með öllumtiltækum ljósum í loga, verður annar eins Jón Múli ekki fundinn. Ég er viss um að hann verður eilífur og kemst þar með í Heimsmetabókina og er bara mátulegt á hann. Hver var að biðja hann að vera svo góðan útvarpsmann, að sú stofnun, sem hann helgaði hæfileika sína, verður aldrei jafn góð eftir?

Hamingjuóskir frá mér og mínum.

Jónas Jónasson