7. maí 2002 | Innlendar fréttir | 500 orð

Verjandi sakbornings segir hann vera ósakhæfan

Hrottafengin og langvinn atlaga

VERJANDI Ásbjarnar Levís Grétarssonar sem hefur játað að hafa myrt mann í íbúð sinni, krafðist þess að Ásbjörn yrði sýknaður af ákæru um manndráp enda væri hann ósakhæfur sökum geðveiki.
VERJANDI Ásbjarnar Levís Grétarssonar sem hefur játað að hafa myrt mann í íbúð sinni, krafðist þess að Ásbjörn yrði sýknaður af ákæru um manndráp enda væri hann ósakhæfur sökum geðveiki. Vísaði hann í álit geðlæknis sem hefði komist að þeirri niðurstöðu að Ásbjörn væri og hefði lengi verið algerlega ósakhæfur vegna alvarlegra geðraskana og ranghugmynda. Taldi geðlæknirinn að fangelsisrefsing myndi ekki bera nokkurn árangur.

Ásbjörn Leví varð manni að bana í kjallaraíbúð sinni við Bakkasel í Reykjavík aðfaranótt 27. október sl. Fyrir dómi í gær lýsti Ásbjörn því að hann hefði hitt manninn á bar en þeir hefðu síðan ákveðið að fara heim til Ásbjarnar til að reykja saman hass og skoða bækur. Þegar heim var komið hefði maðurinn sýnt honum kynferðislega tilburði, faðmað hann og síðan strokið honum um neðanverðan kviðinn. Ásbjörn sagðist hafa brugðist harkalega við, hrint manninum á gólfið og síðan náð í stóran eldhúshníf. Hann hefði síðan stungið manninn í bak og brjóstkassa og loks skorið hann á háls. Við krufningu fundust 8 stungusár, hið dýpsta 14 sentimetrar, og 9 skurðsár voru á hálsi. Ásbjörn sagðist hafa gert sér grein fyrir því að maðurinn myndi ekki lifa þetta af og því ákveðið "að stytta dauðateygjurnar". Hann náði því í hafnaboltakylfu og barði manninn sem reyndi að verjast. Um 10 áverkar eftir högg fundust á höfði hans. Þegar Ásbjörn sá að maðurinn andaði enn, náði hann í plastpoka og lagði fyrir vit mannsins.

Fannst hann vera annar maður

Aðspurður um ástæður sagði Ásbjörn að sér hefði fundist maðurinn vera annar maður sem hefði misnotað sig í æsku. Um leið og maðurinn hefði snert sig hefði hann viljað drepa hann og lýsti Ásbjörn því þannig að það hefði verið "eins og djöfullinn væri í mér".

Að þessu loknu dró Ásbjörn líkið út úr íbúð sinni og yfir í garð í nágrenninu. Blóð lak úr líkinu og var blóðslóðin frá íbúðinni og yfir í garðinn rúmlega 80 metra löng. Þegar lögregla handtók Ásbjörn stuttu síðar var hann byrjaður að þrífa blóðið af gólfinu, hnífnum og kylfunni. Verjandi Ásbjarnar, Björn L. Bergsson hrl. sagði að verk Ásbjarnar hefðu stjórnast af geðveiki hans og ranghugmyndum. Fórnarlamb hans, sem hefði misskilið heimboð Ásbjarnar, hefði ekkert gert til að stuðla að árás, hann hefði í mesta lagi getað búist við styggðaryrðum frá Ásbirni. Þess í stað hefði Ásbjörn ráðist á hann af miklum ofsa og ráðið honum bana. Kynferðisbrot sem Ásbjörn hefði orðið fyrir hefði aukið veikindin, hann hefði í raun talið sig vera að ráðast að brotamanninum.

Ragnheiður Harðardóttir, saksóknari, sagði að atlagan hefði verið langdregin og hrottfengin. Árásin hefði tekið dágóða stund og Ásbjörn hefði fyrst beitt hníf en síðan náð í hafnaboltakylfun inn í annað herbergi. Loks hefði hann sett plastpoka fyrir vit mannsins og síðan reynt að kyrkja hann. Eftir það hefði Ásbjörn flutt líkið á brott og verið byrjaður að þrífa íbúðina þegar lögregla handtók hann. "Eru þetta aðgerðir manns sem er með öllu ófær um að stjórna gerðum sínum?" spurði Ragnheiður og sagði að því yrði dómurinn að svara.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.