Svavar Sigmundsson, nafnfræðingur og forstöðumaður Örnefnastofnunar.
Svavar Sigmundsson, nafnfræðingur og forstöðumaður Örnefnastofnunar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svavar Sigmundsson, nafnfræðingur og forstöðumaður Örnefnastofnunar, hefur skoðað örnefni til sjávar. Hann sagði Helga Mar Árnasyni að nokkur leynd hafi hvílt yfir miðum og sumir íslenskir sjósóknarar átt miðabækur sem þeir létu ekki aðra sjá.

"MENN hafa frá örófi alda haft þörf fyrir að marka þá staði á sjó þar sem betur fiskaðist en annars staðar," segir Svavar en hann hefur tekið saman örnefni til sjávar á Íslandsmiðum og hélt fyrir skömmu fyrirlestur í Sjóminjasafni Íslands um þetta efni. "Þetta kölluðu menn hér á landi mið eða vastir. Með því að miða til lands á þessum stöðum og láta tvær línur skerast þar mörkuðu menn fiskimið. Auk þess höfðu menn sérstök einkenni botns í sjónum sjálfum til þess að ákvarða mið. Lúðvík Kristjánsson gerði miðunum góð skil í bók sinni, Íslenskum sjávarháttum, og má þar lesa um helstu einkenni þeirra. Lúðvík segir að orðið mið hafi haft tvenns konar merkingu í máli sjómanna, annars vegar lína sem hugsast dregin gegnum tvö kennileiti, er bera hvort í annað, það efra yfir hinu fremra en hins vegar mið, sem þá þarf ekki sérstaklega að vera ákvarðað eftir landsýn, heldur einhverju öðru, t.d. dýpi.

Orðið hefur nú merkinguna "fiskislóð" og þannig skilja flestir það nú eftir að hætt var að miða út eftir gamla laginu og staðsetningartæki hafa tekið við. Lúðvík birti einnig nokkur kort með fiskimiðum í riti sínu, t.d. um fiskimið Bolvíkinga og mið frá Þorlákshöfn, og nefndi dæmi um ýmis fiskimið hringinn í kringum landið, ásamt nokkrum teikningum af miðum. Athugun sína byggði Lúðvík á fiskimiðasafni sínu, sem í eru tæplega 2.200 mið, úr öllum landshlutum. Safn þetta er nú varðveitt í Örnefnastofnun Íslands. Þar eru auk þess varðveittar skrár um fiskimið sem fylgt hafa örnefnalýsingum sjávarjarða víða að af landinu. Þar má m.a. nefna miðalýsingar úr Vestmannaeyjum, sem Guðjón Ármann Eyjólfsson hefur tekið saman. Hér er yfirleitt um að ræða fiskimið árabáta, en stærri bátar notuðu a.m.k. að hluta til önnur mið, og til voru sérstök hákarlamið. En þegar kom lengra út, t.d. á togslóð á Halanum, var ekki lengur hægt að hafa mið af landi.

Alloft voru önnur staðaheiti notuð á sjó en landi, e.t.v. vegna þess að staðurinn, oft fjall, leit öðruvísi út af sjó. Fjallið Öskubakur upp af Skálavík norðan Súgandafjarðar er nefnt Víkingur af sjó. Sýlfell á Reykjanesi heitir Djúpafjall á sjó. Þorbjörn fyrir ofan Grindavík er stundum nefndur Setufjall af sjómönnum. Yfirleitt eru miðanöfn hvorki á sjókortum né landakortum. Á sjókortum eru aðeins helstu fiskislóðir nefndar en á landakortum koma þó fyrir nöfn á landi sem eingöngu eru notuð á sjó. Þannig er um Eldborg dýpri og Eldborg grynnri norðan Grindavíkur. Þar er ekki átt við að Eldborgin sjálf sé grunn eða djúp heldur eru þær notaðar sem mið misdjúpt úti."

Ekki nefna ákveðin orð

Eitt af því sem gæta varð á sjó, var að nefna ekki ákveðin orð eða örnefni. "Vegna þess að búrhvalurinn var hættulegur sjómönnum mátti ekki nefna þar búr á nafn. Því mátti mið ekki heita Búrfell, heldur varð að kalla það t.d. Matarfell eða Kistufell á sjó. Svín mátti heldur ekki nefna þar vegna svínhvalsins, og því varð að kalla Svína-örnefni öðru nafni til sjávar, nota orðin purka, sýr (gylta) eða grís í staðinn sem lið í nafni á fiskimiði.

Sjómenn áttu sumir hverjir skrifaðar miðabækur sem lýstu fiskimiðum. Þessar bækur voru mönnum kærkomnar og oft fóru menn dult með þær svo að aðrir kæmust ekki að eftirlætismiðum þeirra. Þónokkrar slíkar miðabækur hafa varðveist og birtir Lúðvík sýnishorn af þeim í bók sinni. Þá festu menn sér miðin í minni með því að gera miðavísur, og er elsta vísa af því tagi, um Grímsmið frá Rifi, varðveitt í Bárðar sögu Snæfellsáss frá því um miðja 14. öld, en vísan getur verið mun eldri.

Skrár um mið hafa einkum verið skrifaðar eftir að árabátaöld leið undir lok. En ýmislegt er enn óskráð af miðum á einstökum stöðum á landinu. Upp á síðkastið hafa menn verið að staðsetja þessi gömlu mið sums staðar með því að taka myndir utan af sjó af miðinu á landi og staðsetja það um leið með GPS-staðsetningartæki. Þetta þyrfti að gera víðar og bjarga þannig þeim ómetanlegu verðmætum sem felast í þessari ævafornu staðsetningaraðferð. Hin gömlu mið reynast oft vera ótrúlega nákvæm til viðmiðunar um góð fiskimið.

Erlendar afbakanir

Ýmsar afbakanir á íslenskum staðanöfnum finnast í heimildum erlendra manna. Þannig urðu Vestmannaeyjar að Vespenø hjá Dönum, og í enskum heimildum eru þær nefndar m.a. Westpenonia eða Westmonie. Dýrafjörður var nefndur Derefer í enskum heimildum. Á korti því sem dansk-enski landhelgissamningurinn frá 1903 byggðist á er Ritur nefndur Ritur Huk og þannig er um fleiri nöfn á kortinu að dönskum orðum er bætt aftan við íslenska örnefnið, t.d. Grimsey Flak og Eldeyjar Bank. Á bresku sjókorti frá 1950 er nafnið Husgavlene þar sem á herforingjaráðskortunum er nafnið Húsgaflar á svæðinu frá Dalatanga og suður að Steinsnesi, þar sem eru m.a. Dalafjall, Akurfell og Tóarfjall.

Í elstu sjóleiðabók sem nefnir staði á Íslandi er að finna nafnið Oosterhoec fyrir Glettinganes á Austurlandi og Sletten fyrir Flatey á Breiðafirði. Dyrhólaey er nefnd Portland á korti Þórðar Þorlákssonar frá árinu 1668 og er nafnið talið eiga sér fyrirmynd á líkum stað við Ermarsund."

Ligkisten og Lousy Bay

Svavar hefur safnað heimildum yfir dönsk, færeysk, hollensk, þýsk, frönsk og ensk heiti á íslenskum fiskimiðum. Þar kemur margt fróðlegt í ljós. Þannig gáfu danskir sjófarendur við Ísland ýmsum stöðum á landinu eigin nöfn, til dæmis kölluðu þeir fjallið Stöð á Snæfellsnesi Ligkisten, Kirkjufell Sukkertoppen og Melrakkaey Præstens Ø, af því að hún tilheyrði kirkjustaðnum Setbergi. Þá köllu þýskir sjómenn fiskimið djúpt út af Breiðafirði Katzengrund, sem e.t.v. gefur til kynna að þar hafi veiðst mikið af geirnyt, sem þeir kalla stundum sæketti (Seekatzen). Franskir sjómenn kölluðu Rytinn Point de Diable eða Djöfulsnúp. Fjölmargar heimildir eru til um nöfn sem enskir sjómenn hafa gefið íslenskum fiskimiðum. Rósagarðinn kölluðu þeir t.a.m. Workingman Bank eða Verkamannabanka og Tálknafjörð kölluðu enskir Lousy Bay og er talið að nafnið sé tilkomið af því að menn hafi aflúsað sig í Djáknalaug í Stóra-Laugardal.

Ýmis nöfn eru ráðgáta

"Ýmis erlend nöfn á fiskislóðum sem varðveitt eru í spjaldskrá Hafrannsóknastofnunarinnar eru ráðgáta," segir Svavar. "Til dæmis Berntief, Broadway, Jo-Jo-banki, Kildinbank, Navalok, Puschkin Vodka, Stapaburg, Walló banki. Hið sama gildir um ýmis íslensk nöfn sem þar er að finna, s.s. Bangsinn, Brjálaða hornið, Ebbi, (Þýska) flugbrautin, Hampiðjutorg, Hannibal, Harðjaxlinn, Hattabúð, Heimsmeistarahryggur, Hlaða, Ísleifur, Járnhausinn, Kirkjuturnar, Kistan, Leggjabani, Lovísa, Mamma, Sannleiksstaðahraun, Skápurinn, Sökkubani, Trintur, Torg hins himneska friðar, Þjóðverjahólar og Örvæntingarhornið.

Vísast kæmi fleira í leitirnar ef skoðaðar væru heimildir einstakra erlendra útgerða og sjókort þeirra. Erlenda nafnaflóran á Íslandsmiðum og stöðum við sjó segir sína sögu um upplifun hinna erlendu sjómanna af landinu og miðunum umhverfis. Með nafngiftunum lýstu þeir stöðunum á sinn hátt eða sýndu hug sinn til þeirra í blíðu og stríðu á Íslandsmiðum. Ekki hefur verið unnt að grafast fyrir um merkingu allra nafnanna enda eiga þau sum hver uppruna sinn í sjómannamáli og öðrum mállýskum sem ekki eru aðgengilegar í orðabókum. En sjá má af nöfnunum að sjómennirnir hafa reynt að gera sér þessa fjarlægu staði sér heimalegri með því að gefa þeim sín eigin nöfn," segir Svavar.