1. júní 2002 | Fastir þættir | 479 orð | 1 mynd

Hvað er einkirningasótt?

Magnús jóhannsson læknir svarar spurningum lesenda

Spurning: Svo virðist sem faraldur hafi gengið í skólanum þar sem dóttir mín er af veiki sem kallast einkirningasótt. Hvaða veiki er þetta og hvernig smitast hún? Er þessi veiki hættuleg eða getur hún verið langvarandi?
Spurning: Svo virðist sem faraldur hafi gengið í skólanum þar sem dóttir mín er af veiki sem kallast einkirningasótt. Hvaða veiki er þetta og hvernig smitast hún? Er þessi veiki hættuleg eða getur hún verið langvarandi?

Svar: Einkirningasótt (eitlasótt, kossasótt, mononucleosis) er smitsjúkdómur sem stafar af veiru sem nefnist Epstein-Barr-veira og er skyld herpesveirum sem valda m.a. áblæstri. Nafnið kemur til af því að mikil fjölgun verður á einkjarna frumum í blóðinu, s.k. einkirningum. Þetta er mjög algeng veira og flestir smitast af henni sem börn eða unglingar; rannsóknir á Vesturlöndum hafa sýnt að um 50% 5 ára barna og 95% fólks á aldrinum 35-40 ára hafa smitast. Börn smitast iðulega án þess að veikjast en talið er að 35-50% þeirra sem smitast sem unglingar eða fullorðnir veikist. Þegar einhver hefur smitast, hvort sem hann fær sjúkdómseinkenni eða ekki, myndar hann mótefni gegn veirunni og ber hana í sér til æviloka. Veiran er til staðar í munnvatni þeirra sem eru veikir eða nýlega smitaðir og getur fundist í munnvatni stöku sinnum síðar á ævinni. Einkirningasótt smitast ekki eins auðveldlega og kvef og talið er að hún smitist oftast með kossum en hún getur borist milli einstaklinga ef sá smitaði hóstar eða hnerrar. Sjúkdómseinkenni koma venjulega fram 30-50 dögum eftir smit ef þau koma fram á annað borð. Algengustu sjúkdómseinkenni eru sótthiti, særindi í hálsi, höfuðverkur, hvítar skellur á slímhúð í koki, eitlastækkanir, lystarleysi, útbrot og þreyta. Sjúkdómsgreining byggir á þessum einkennum og þar að auki er hægt að gera blóðrannsókn til að staðfesta greininguna. Í flestum tilfellum hverfa sjúkdómseinkennin á 2-4 vikum en stundum er sjúklingurinn þreyttur og slappur í 3-4 mánuði og einstaka sinnum lengur. Til er kenning um að Epstein-Barr-veiran tengist síþreytu sem getur staðið mánuðum og jafnvel árum saman en ekki hefur tekist að sýna fram á slíkt samband með sannfærandi hætti. Ekki er til nein meðferð sem læknar einkirningasótt og sýklalyf gera ekkert gagn en sum þeirra geta valdið slæmum útbrotum hjá þeim sem eru með þessa veiki. Eina meðferðin er við einkennum og það sem hægt er að ráðleggja er að hvíla sig, drekka mikinn vökva, nota eitthvað mýkjandi í hálsinn og hugsanlega taka mild verkjalyf en þó ætti að forðast þau sem innihalda acetýlsalisýlsýru. Miltað er staðsett efst í kviðarholi vinstra megin og stækkar stundum mikið í einkirningasótt, þess vegna ætti að forðast allt sem gæti valdið þrýstingi eða höggum á kviðarholið vegna þess að miltað getur sprungið þó að það sé ákaflega sjaldgæft. Stækkað milta er viðkvæmt fyrir höggum og ef það springur verður innvortis blæðing sem er hættuleg og krefst skurðaðgerðar án tafar. Einnig getur lifrin stækkað en hún er hægra megin í kviðarholi.

Einkirningasótt er algengur smitsjúkdómur sem einungis er hægt að veikjast af einu sinni á ævinni. Sjúkdómurinn er oftast vægur og gengur fljótt yfir en samt er ástæða til að fá sjúkdómsgreiningu og ráðleggingar hjá lækni til að forðast aukakvilla.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.