Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Úrslitin sýndu svart á hvítu, segir Össur Skarphéðinsson, að gott gengi í skoðanakönnunum á miðju kjörtímabili þýðir ekki sjálfkrafa fylgi í kosningum.

SAMFYLKINGIN hlaut mikilvæga traustsyfirlýsingu í kosningunum sem fóru fram fyrir sléttri viku. Traust landsmanna á hinum unga flokki jafnaðarmanna birtist í að næstum þriðji hver kjósandi greiddi Samfylkingunni atkvæði í þeim sextán sveitarfélögum þar sem hún bauð fram eigin S-lista. Fylgi hennar í þeim nam 31,6 % atkvæða. Fylgi Samfylkingarinnar í þingkosningunum 1999 var 26,8%. Samfylkingin vann því mikilvægan sóknarsigur í kosningunum á laugardaginn.

Næststærsti flokkurinn

Til samanburðar reyndist fylgi Framsóknar vera 23,4% í þeim sveitarfélögum þar sem hún bauð fram eigin lista. Úrslitin sýndu svart á hvítu, að gott gengi í skoðanakönnunum á miðju kjörtímabili þýðir ekki sjálfkrafa fylgi í kosningum. Vinstri-grænir, sem misserum saman hafa siglt hátt í skoðanakönnunum, fengu aðeins 6,6% atkvæða í þeim sveitarfélögum sem þeir buðu fram í. Það var skiljanlega órafjarri væntingum flokksins.

Fylgi Samfylkingarinnar á laugardaginn, 31,6 % atkvæða, leiðir afdráttarlaust í ljós, að hún er næststærsti flokkur landsins. Að því leyti hnigu úrslit kosninganna í sama farveg og skoðanakannanir sem síðasta misserið hafa verið framkvæmdar af vönduðum stofnunum. Þar hefur birst hæg en örugg sókn Samfylkingarinnar. Nokkrar undanfarnar kannanir hafa sýnt 26-28% fylgi flokksins í Reykjavík, 25% í Reykjaneskjördæmi og um 20% annars staðar.

Kosningarnar á laugardaginn sýndu því með afgerandi hætti að Samfylkingin er næststærsta stjórnmálaaflið bæði í landsmálum og í sveitarstjórnum.

80 bæjarfulltrúar

Sigurinn sem Samfylkingin vann í kosningunum birtist mjög skýrt í þeim mikla fjölda bæjarfulltrúa sem flokkurinn á nú víðs vegar um landið. Sumir urðu til fyrir tilstilli hreinna S-lista Samfylkingarinnar. Aðrir voru meðal þeirra þungavigtarmanna sem Samfylkingin lagði til í sameiginleg framboð. Þar ber vitaskuld Reykjavík hæst en auk þeirra má nefna Vopnafjörð, Húsavík, Ólafsfjörð, Bolungarvík, Voga svo nokkur slík séu nefnd.

Í sextán sveitarfélögum voru hreinir Samfylkingarlistar bornir fram. Mér reiknast til að í þeim hafi Samfylkingin fengið samtals kosna um 45 bæjarfulltrúa. Þetta er vösk sveit og fjölmenn. Til samanburðar má nefna, að vinstri-grænir fengu aðeins 4 fulltrúa í þeim sveitarfélögum þar sem þeir buðu fram hreina VG lista.

Fráleitt er þarmeð sögð öll sagan um hinn nýja styrk Samfylkingarinnar á sveitarstjórnarstiginu. Mjög margir samfylkingarmenn voru kosnir í bæjarstjórnir af sameiginlegum listum. Þegar þeir eru taldir fjölgar flokksbundnum samfylkingarmönnum í bæjarstjórnum landsins í að minnsta kosti 80 fulltrúa.

Úrslitin fela því í sér gríðarleg og jákvæð umskipti fyrir Samfylkinguna. Hún er með ótvíræðum hætti orðin næststærsti stjórnmálaflokkurinn og á mjög marga fulltrúa í sveitarstjórnum landsins. Þessi breytt staða Samfylkingarinnar birtist í því að þessa dagana er hún í óða önn að mynda meirihluta í mörgum bæjarfélögum.

Hafnarfjörður og Siglufjörður

Utan Reykjavíkur fólust stærstu tíðindi kosninganna í sögulegum sigri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Hún náði sex bæjarfulltrúum, og hlaut hreinan meirihluta, þrátt fyrir mjög góða kosningu sjálfstæðismanna í bænum. Stórsigur Samfylkingarinnar í Hafnarfirði er líklegur til að koma í veg fyrir að hafnfirsku tilrauninni, sem Sjálfstæðisflokkurinn framkvæmdi með því að innleiða einkavæðingu í grunnskólann í Hafnarfirði, verði haldið áfram annars staðar þar sem sjálfstæðismenn náðu meirihluta. Pólitískar afleiðingar verða því að líkindum mestar vegna úrslitanna í Hafnarfirði.

Á öllu suðvesturhorninu er staða Samfylkingarinnar nú mjög góð. Hún fékk 33,1% í Reykjanesbæ, 43% í Grindavík, framboð sem flokkurinn studdi og lagði til burðarása í náðu 57,5% í Vogunum og 42,5% í Sandgerði. Í Kópavogi fékk Samfylkingin 28,3%, og 32,4% á Akranesi.

Á Norðurlandi er Samfylkingin einnig í öflugri sókn víða. Framboð á hennar vegum hlaut hreinan meirihluta á Siglufirði. Fyrir flesta aðra en innvígða samfylkingarmenn voru það óvænt tíðindi. Mikil áhersla á starf flokksins í bænum, og geysiötull siglfirskur þingmaður flokksins gerðu hins vegar að verkum að hreinn meirihluti á Siglufirði var talinn raunhæft markmið. Það gekk eftir. Á Ólafsfirði vannst líka meirihluti af lista, sem Samfylkingin lagði þungavigtarmenn til.

Sameinaður listi vinstri manna, með öflugum fulltrúum Samfylkingarinnar, hélt meirihluta sínum á Húsavík. Samfylkingin var sömuleiðis sterk á sameinuðum lista sem vann meirihluta á Vopnafirði. Í Fjarðarbyggð náði Fjarðarlistinn, náskyldur ættingi Samfylkingarinnar, ekki að halda hreinum meirihluta að þessu sinni. Án efa verður hann þó ráðandi í þeim meirihluta sem veður myndaður í bæjarstjórn Fjarðarbyggðar. Samfylkingin mun ekki liggja á liði sínu til að hreinn meirihluti Fjarðarlistans vinnist aftur í næstu kosningum.

Umskipti á Suðurlandi

Hinn nýi styrkur Samfylkingarinnar birtist líka með glæsilegum hætti í stóru sveitarfélögunum á Suðurlandi. Þar hafa orðið alger umskipti. Sókn Samfylkingarinnar felldi meirihluta í Vestmannaeyjum, Árborg, og Hveragerði. Þegar þetta er ritað er útlit fyrir að Samfylkingin gæti myndað meirihluta í fjórum stærstu sveitarfélögunum í kjördæminu.

Í Árborg varð pólitískur jarðskjálfti. Sterkir frambjóðendur, sterk málefni og vel útfærð barátta færði flokknum 14% sveiflu. Hann stökk úr 26% í 40%. Samfylkingin er nú langstærsti stjórnmálaflokkurinn í Árborg. Í Hveragerði urðu líka gagnger umskipti. Samfylkingin stórjók fylgi sitt og hlaut 26,4% atkvæða. Þar er þegar búið að mynda meirihluta með atbeina flokksins.

Í Vestmannaeyjum féll meirihluti sjálfstæðismanna. Þar réð mestu að Vestmannaeyjalistinn, sem þingmaður Samfylkingarinnar leiddi, hélt þremur bæjarfulltrúum, þrátt fyrir að Framsókn hefði klofið sig frá listanum fyrir kosningarnar. Samfylkingin réð þannig úrslitum um niðurstöðuna í Eyjum.

Sigurinn í Reykjavík

Stórsigur Reykjavíkurlistans var mjög mikilvægur fyrir Samfylkinguna. Ein leið stjórnmálaflokka til valda í íslenskum stjórnmálum liggur um borgarstjórn Reykjavíkur. Það skýrir hina gríðarlegu áherslu Sjálfstæðisflokksins á að vinna borgina. Samfylkingin hefur lagt til bæði burðarása og þverbita í Reykjavíkurlistann. Borgarstjórinn, sem er einn öflugasti stjórnmálamaður landsins í dag, kemur úr röðum Samfylkingarinnar. Hún á langmestan þátt í sigri hans, og án persónulegra yfirburða Ingibjargar Sólrúnar er óvíst um niðurstöðuna. Það er heldur ekkert leyndarmál að borgarstjórn Reykjavíkur tengjast upprennandi stjórnmálamenn á vegum Samfylkingarinnar, sem seta í borgarstjórn mun bæði þroska og efla til átaka á öðrum vettvangi þegar fram í sækir.

Sigur okkar í Reykjavík var satt að segja aldrei í hættu. Þegar Björn Bjarnason og aðrir reyna að sjá vatnaskil í kosningabaráttunni í kringum einstaka atburði gleyma þeir að skoða kosningabaráttu R-listans. Hún var háð af fjárhagslegum vanefnum, miðað við fordæmalausan fjáraustur sjálfstæðismanna. Kosningabaráttan var skipulögð á þeim forsendum. Frá upphafi var gert ráð fyrir að bæði fjárhagslegu og starfslegu atgervi baráttunnar yrði einhent á síðustu 7-10 dagana. Þá fyrst var Stóra-Berta dregin fram og látin skjóta. Það dugði.

Styrkleikapróf Morgunblaðsins

Á kosningadaginn sagði í leiðara Morgunblaðsins að kosningarnar væru styrkleikamæling fyrir flokkana. Samfylkingin væri að fara í fyrstu sveitarstjórnarkosningarnar frá því flokkurinn varð til. Útkoma hennar og sameiginlegra framboða á vinstri vængnum, þ.m.t. Reykjavíkurlistans, myndi ráða miklu "um þann byr sem Samfylkingin fær fyrir þingkosningarnar". Leiðarahöfundur tók sérstaklega fram, að fyrir vinstri-græna væri mikilvægt að "fá góða útkomu þar sem þeir bjóða fram eigin lista, til að staðfesta að það fylgi, sem flokkurinn hefur mælst með í skoðanakönnunum á landsvísu, sé til í raunveruleikanum."

Þessi greining Morgunblaðsins á laugardaginn var hárrétt. Niðurstaða kosninganna hlaut að verða styrkleikamæling, sem sýndi svart á hvítu hvort kjósendur vildu fremur styrkja Samfylkinguna eða vinstri-græna sem öflugt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Úrslitin eru öllum ljós. Kjósendur völdu Samfylkinguna. Hún átti sér bakland meðal næstum þriðjungs kjósenda. Samfylkingin naut yfirburðafylgis meðal kjósenda á vinstri vængnum. Kosningar eru prófsteinn raunveruleikans. Þær sýndu, að fylgi Samfylkingarinnar er til í raunveruleikanum, svo minnt sé á orð leiðarahöfundar Morgunblaðsins.

Samfylkingin gegn flokkakerfinu

Mér þótti athyglisvert að lesa að leiðarhöfundur Morgunblaðsins taldi fróðlegt að sjá, hvort Frjálslynda flokknum tækist ná fótfestu í kosningunum, og halda þannig áfram atlögu sinni að fjórflokkakerfinu. Honum virðist yfirsjást, að þyngsta atlagan að fjórflokknum var gerð með stofnun Samfylkingarinnar. Í henni fólst einbeitt tilraun til að sameina jafnaðarmenn í einum flokki, og búa til þriggja flokka kerfi. Hvort menn höfðu erindi sem erfiði í þeim leiðangri kemur líklega ekki í ljós fyrr en að afloknum þarnæstu þingkosningum.

Orð leiðara Morgunblaðsins gefa hins vegar tilefni til að vekja eftirtekt á þeirri stöðu sem nú er komin upp á sveitarstjórnarstiginu. Þar er fjórflokkurinn í reynd dauður. Í stað hans lifa þrír öflugir flokkar góðu lífi. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Framsókn. Vinstri-grænir eru tæpast til á sveitarstjórnarstiginu. Stofnun Samfylkingarinnar fyrir tveimur árum var öðrum þræði uppreisn gegn flokkakerfinu og tilraun til að búa til nýja stöðu í íslenskum stjórnmálum. Niðurstaða kosninganna á laugardaginn sýnir að sú tilraun hefur þegar tekist á sveitarstjórnarstiginu. Morgunblaðið hefur að vísu ekki botnað leiðarann, en miðað við forsendurnar sem höfundur hans gefur sér má ætla að sterkar líkur séu á að í næstu þingkosningum takist tilraun Samfylkingarinnar líka á landsvísu.

Seigla og trúverðugleiki

Eitt er að hafa óánægjufylgi í könnunum. Annað er að fá raunverulegan stuðning í kosningum. Samfylkingin hefur sannarlega stundum átt undir högg að sækja. Ég get hiklaust fullyrt, að enginn annar stjórnmálaflokkur býr yfir jafnmikilli seiglu og Samfylkingin. Hvað sem á hefur dunið hefur Samfylkingin alltaf haldið sig við málefnin, og agað klassíska jafnaðarstefnu sína við þarfir nútímans. Hún hefur forðast upphlaup og æsingar, og ekki hikað við að styðja ríkisstjórnina þegar hún hefur unnið að góðum málum.

Samfylkingin hefur því sýnt að hún er heiðarlegur og trúverðugur stjórnmálaflokkur. Það er galdurinn á bak við velgengni hennar í kosningunum á laugardaginn. Kjósendur völdu Samfylkinguna af því þeir treysta henni best til að verða hið sterka og málefnalega afl sem íslensk stjórnmál þurfa vinstra megin á miðjunni.

Samfylkingin er að verða þroskaður stjórnmálaflokkur. Hún hefur öðlast trúverðugleika í augum kjósenda. Í þeirra augum er Samfylkingin öfgalaust og málefnalegt mótvægi við ofurveldi Sjálfstæðisflokksins. Það er hin sögulega niðurstaða kosninganna á laugardaginn.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.