[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞEIR Birgir Hilmarsson og Kjartan Friðrik Ólafsson skipa rafdúettinn Ampop. Dúettinn var stofnaður árið 1998 af þeim félögum og tveimur árum síðar leit fyrsta breiðskífan dagsins ljós, Nature is not a Virgin .

ÞEIR Birgir Hilmarsson og Kjartan Friðrik Ólafsson skipa rafdúettinn Ampop. Dúettinn var stofnaður árið 1998 af þeim félögum og tveimur árum síðar leit fyrsta breiðskífan dagsins ljós, Nature is not a Virgin. Á dögunum kom svo út hér á landi smáskífan Made for Market. Þeir drengir ætla þó ekki að láta þar við sitja heldur gefa þeir hana einnig út í Bretlandi á sama tíma í samvinnu við útgáfufyrirtækið Static Caravan.

"Við gefum smáskífuna út á vínyl-plötu í Bretlandi en á geisladiski hér heima. Á disknum eru fleiri lög og fleiri hljóðblandanir," byrjar Kjartan.

"Þetta er okkar fyrsta útgáfa á efni okkar utan Íslands og það er auðvitað ákveðið fagnaðarefni fyrir okkur."

Nú hefur smáskífan þegar fengið fínar viðtökur erlendis, ekki satt?

"Jú, jú, við höfum fengið prýðilegar viðtökur," svarar Kjartan. "Þar ber kannski hæst að John Peel hjá BBC hefur tekið diskinn til spilunar í útvarpsþætti sínum."

"Já, svo er einhver útvarpsstöð í Dublin, XFM Dumblin, sem hefur líka verið að spila okkur," bætir Birgir við.

"Platan er líka svo nýkomin út að það er ekki komin nein almennileg reynsla á þetta. Það eru ekki nema tvær vikur síðan hún kom út í Bretlandi. Við erum allavega ekki að sigra heiminn ennþá," segir Kjartan.

Er stefnan tekin á frægð og frama erlendis?

"Nei nei, en draumurinn er að búa sér til aðstöðu til að vinna tónlist og verja meiri tíma í það," segir Kjartan. "Til þess þarf maður samt að fá borgað í peningum fyrir að spila. Maður þarf helst að vera í nokkrum vinnum með því að spila í hljómsveit."

Teljið þið að gott gengi Bjarkar og Sigur Rósar hafi greitt gengi íslenskra tónlistarmanna á erlendri grund?

"Já, alveg tvímælalaust," svarar Kjartan um hæl.

"Það hefur hjálpað allri íslenskri tónlist, nema kannski sveitaballahljómsveitunum, enda held ég að fólk sem er í því sé aðallega að einblína á markaðinn hérna heima," segir Kjartan.

"Já, ég vil meina að þau hafi opnað markaðinn fyrir okkur sem erum að gera tilraunakennda tónlist," segir Birgir og Kjartan bætir við: "Það er ekki það stór markaður fyrir það hérna heima."

Ný breiðskífa tilbúin

Næstkomandi þriðjudag munu Ampop-menn svo blása til tónleika á Gauki á Stöng í tilefni af nýútkominni smáskífu sinni. Ásamt þeim koma fram Skurken og Prince Valium sem munu taka rafdúett og kynna nýtt efni af væntanlegri plötu sinni. Birgir segir svo óvæntan gest ætla að heiðra þá með nærveru sinni.

Hvaða efni ætlið þið svo að flytja á tónleikunum?

"Efni af smáskífunni og svo væntanlegri breiðskífu. Þetta verður því nær engöngu nýtt efni sem við flytjum," svarar Birgir.

"Já, við höfum verið að taka upp nýja breiðskífu sem stefnt er að að gefa út á þessu ári þótt það sé enn svolítið óljóst. Hún er allavega tilbúin og eiginlega löngu tilbúin," segir Kjartan.

"Við erum reyndar tiltölulega nýbúnir að hljóðblanda hana. Hún kemur svo vonandi út á þessu ári, við þurfum bara að finna henni farveg," segir Birgir og bætir við:

"Nú þekkja kannski einhverjir gömlu plötuna okkar og þetta er ekki beint framhald af henni. Í þessari nýju einbeitum við okkur meira að tónlist án söngs og erum kannski orðnir rólegri."

"Það er ákveðinn rokkkafli á nýju breiðskífunni," skýtur Kjartan inní.

"Þetta er samt svona frekar melódískt og tilraunakennt," segir Birgir.

Hvað er svo framundan hjá Ampop?

"Það er fyrirhuguð tónleikaferð til Frakklands í september. Við verðum í slagtogi með fleiri íslenskum hljómsveitum á borð við Maus, Lo-Fi, Lúna og fleiri," segir Birgir.

"Já, þetta er fyrirtæki sem hefur verið að einbeita sér að því að fá íslenska listamenn til að koma og spila í Frakklandi," segir Kjartan að lokum.

"Það er auðvitað gaman að fá tækifæri á borð við þettta."

Tónleikarnir verða haldnir sem áður sagði á Gauk á Stöng næstkomandi þriðjudag og opnar húsið klukkan 21. Áhugamenn um tónlist ættu að sjálfsögðu ekki að láta fram hjá sér fara að hlýða á nýtt efni frá hinum tilraunakenndu rafbræðrum.

birta@mbl.is