Margrét Dóróthea Pálsdóttir fæddist í Hólshúsi, Miðneshreppi, 9. ágúst 1917. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 28. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Páll Pálsson bóndi í Hólshúsi, fæddur 25.1. 1881 og dáinn 16.8. 1969 og kona hans Helga Pálsdóttir, fædd 28.10. 1888, dáin 22.7. 1977. Systkini Margrétar voru Páll Ó. Pálsson látinn, Björgvin Jón Pálsson, Fjóla Pálsdóttir látin og Sveinn Pálsson. Hún eignaðist einn son sem lést á fyrsta aldursári. Margrét giftist Steingrími Viggóssyni en þau slitu samvistir og hún bjó í foreldrahúsum þar til foreldrar hennar létust. Síðustu ár bjó hún í Miðhúsum, húsi eldri borgara í Sandgerði. Margrét starfaði lengst af sem matráðskona og við afgreiðslustörf og endaði starfsferil sinn í Kaupfélagi Suðurnesja í Sandgerði.

Útför Margrétar verður gerð frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði á morgun, mánudaginn 3. júní, og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Hvalsneskirkjugarði.

Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (V. Briem.)

Elsku nafna mín, það kallaðir þú mig alltaf. Ég var skírð í höfuðið á þér á 70 ára afmælinu þínu og þú hélst mér undir skírn. Ég veit að þér þótti vænt um það, enda fékk ég oft að njóta þess.

Þú varst okkur systkinunum sem besta amma og við kölluðum þig alltaf ömmu Páls þegar við vorum lítil og það fannst þér alltaf skemmtilegt, þó að þú værir í raun frænka okkar. Þú misstir þinn eina son mjög ungan og ég veit að nú eruð þið sameinuð hjá Guði.

Það hafa ekki verið alvörujól hjá okkur nema þú hafir verið hjá okkur. Þú varst alltaf svo glaðvær og gast hlegið svo mikið að tárin fóru að renna niður kinnarnar.

Mig og fjölskyldu mína langar að þakka þér fyrir allar samverustundirnar og allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Við eigum eftir að sakna þín mikið og tilfinningin um að eiga aldrei eftir að sjá þig oftar er mjög óþægileg.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Margrét Pála Valdemarsdóttir.

Mig langar í fáeinum orðum að minnast ástkærrar föðursystur minnar, Margrétar Dórótheu Pálsdóttur, eða Möggu Páls eins og hún var jafnan kölluð, en hún andaðist að morgni þriðjudagsins 28. maí. Fráfall hennar hefur vakið blendnar tilfinningar hjá mér, gleði og þakklæti fyrir það ástríki og aðhald sem hún veitti mér sem barni og unglingi, en eftirsjá vegna þess að samverustundir okkar hefðu vissulega getað verið fleiri hin síðustu æviár hennar.

Sem ung kona varð Margrét fyrir þeim mikla harmi að missa einkason sinn á fyrsta ári úr barnaveiki og eignaðist hún ekki fleiri börn. En við systkinabörnin hennar urðum henni afar kær og var það mjög gagnkvæmt. Þegar við svo eignuðumst okkar börn urðu þau "barnabörnin" hennar og töluðu þau ávallt um hana sem Ömmu Páls. Við ólumst mörg hver upp að Lágafelli í Sandgerði þar sem margt var um manninn, afi og amma, börn þeirra og barnabörn. Þegar ég var sex ára fluttust foreldrar mínir með sína fjölskyldu til Reykjavíkur, en mörg sumur eftir það dvaldist ég í Sandgerði sem barn og fram á unglingsár, enda leit ég ævinlega á Lágafell sem mitt annað heimili og þar stýrði Margrét búi. Hún var mikið og traust haldreipi í mínum augum og bar ég ótakmarkaða virðingu fyrir henni, eins og mér fannst reyndar flest samferðafólk hennar gera. Hún ávann sér traust margra og eignaðist fjölda vinafólks sem ávallt hélt tryggð við hana. Því til staðfestingar var það þannig, að einatt þegar hún síðar dvaldist hjá okkur hjónum á aðfangadagskvöld fékk hún fleiri jólapakka en við fjögurra manna fjölskyldan öll til samans og höfðu börnin ekki undan að bera í hana pakkana. Og nokkrar eignaðist hún nöfnurnar sem skírðar voru í höfuðið á henni. Sérhlífni var óþekkt hugtak í hennar huga og samviskusemin var henni í blóð borin. Hún var bæði glettin og hláturmild og hló oft þar til tárin runnu, þó að vissulega gæti þykknað í henni, enda ákaflega stolt og staðföst kona og lá ekki á skoðunum sínum ef henni mislíkaði eitthvað. Það fékk ég að reyna fyrir nokkrum árum er ég áræddi að rökræða stjórnmál við hana, hún gegnheil sjálfstæðiskona en ég frekar á hinum vængnum. Það var í fyrsta og síðasta skiptið sem ég reyndi slíkt.

Margrét mín, blessuð sé minning þín, hún mun lifa með okkur sem eftir lifum.

Höskuldur Freyr Sveinsson.

Margrét Pála Valdemarsdóttir.