Austurstræti 14 er tígulegt hús, sem setur svip á umhverfið, en húsið stendur á áberandi stað á horninu við Pósthússtræti.
Austurstræti 14 er tígulegt hús, sem setur svip á umhverfið, en húsið stendur á áberandi stað á horninu við Pósthússtræti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið er fallegt og stílhreint og eigandi þess hefur sýnt því mikinn sóma, segir Freyja Jónsdóttir. Allt upprunalegt hefur verið látið halda sér sem hægt er. Í virðingu frá 1977 kemur fram að húsið hefur allt verið endurnýjað að innan og skipt út gluggum á suðurhlið.

ÁRIÐ 1834 var byggt verslunarhús á þessari lóð sem Ole P. C. Möller átti. Síðar eignaðist það Guðný Möller, tengdadóttir hans. Það var oftast kennt við hana og nefnt "Guðný Möllershús". Húsið var grindarhús klætt með listasúð. Þarna var Guðný með matsölu.

Skömmu eftir aldamótin keypti Einar Benediktsson húsið og lét rífa það árið 1907. Lóðin sem húsinu fylgdi var talin óhóflega dýr og nefndu gamansamir náungar hana Gulllóðina og festist nafnið við staðinn.

Einar lét byggja þar tvílyft timburhús með porti, kvistum og útskornum karnap. Ekki er vitað með vissu hver teiknaði húsið en af myndum sem teknar voru af því er það líkt verkum Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara. Húsið var með öðruvísi gluggum en tíðkaðist þá en þeir voru með heilum rúðum og er líklegt að þetta hafi verið með fyrstu húsum á landinu með slíkum gluggum.

Húsið var nefnt Syndikatið. Í því var vefnaðarvöruverslun Th. Thorsteinssonar ásamt ýmsum öðrum rekstri. Það brann í miðbæjarbrunanum árið 1915.

Byggt 1928

Lóðin virðist hafa verið óbyggð til ársins 1928. Þá lét Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar forsætisráðherra og borgarstjóri, reisa á lóðinni stórhýsi sem enn stendur. Húsið var brunavirt 21. desember 1928 og var þá fullbúið. Grunnflötur þess er 15,4m x 16,5m, hæð 14,4 m og ris 4,7 m, lofthæð í kjallara er 2,5 m. Það er byggt úr járnbentri steinsteypu með þaki, borðasúð, pappa og járni yfir.

Í kjallaranum eru skilveggir allir og gólf úr steinsteypu. Ofan á gólfum er rakavarnarlag og yfirsteypa úr járnbentri sterkri sementsblöndu. Öll loft í húsinu eru úr járnbentri steinsteypu og tveir skilveggir (burðarveggir) yfir þvert húsið, sem og allir veggir umhverfis stigaganga, úr venjulegri steinsteypu.

Aðrir skilveggir í húsinu eru úr bindingi gerðir af 2x4" plönkum og með tvöfaldri borðaklæðningu, klæddir striga og maskínupappír. Innan á útveggjum allra hæða, nema þeirrar neðstu, eru korkplötur innan á veggjum; þar eru allir veggir og loft múrsléttuð, ýmist veggfóðrað eða málað.

Á fyrstu hæð eru þrjár sölubúðir með búðarinnréttingum, tvö skrifstofuherbergi, þrjár vinnustofur, tvö anddyri, tvö klósett og handlaugaklefi og gangur. Á annarri hæð er sölubúð, saumastofa, fimm skrifstofuherbergi, anddyri og gangur. Á þriðju hæð eru sex skrifstofuherbergi, fimm læknastofur, anddyri og tveir gangar. Á fjórðu hæð eru tíu herbergi, anddyri og tveir gangar. Þar eru öll herbergin veggfóðruð og máluð.

Í þaklyfti eru skólasalur og íbúð með tveimur herbergjum og eldhúsi. Þar eru einnig tvær ljósmyndastofur, tvö fatahengi, baðklefi, skrifstofa, tveir gangar og tveir stigagangar. Á skammbitum er gólf, allt þaklyftið er þiljað að innan og neðan á skammbita og ýmist veggfóðrað og málað. Á öllum hæðunum og í risi eru tvö klósett og handlaugaklefi.

Í kjallaranum eru átta geymsluherbergi, miðstöðvarherbergi, klósett og gangur. Á gólfum tveggja sölubúðanna, anddyri og á stigaþrepum neðstu hæðar er gúmmídúkur. Á öðrum gólfum í húsinu er linolíumdúkur. Á húsinu eru sautján vörusýningargluggar með sýningarskápum. Stigar hússins eru úr timbri. Að utan er húsið sementssléttað.

Á austurgafli þess er lágmynd eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Myndin minnir á Íslendingasögur og er hið mesta augnayndi. Fallegir skrautlistar eru við þakskegg hússins og við myndina.

Gerhard Rönne, danskur húsameistari, teiknaði húsið en Einar Einarsson sá um smíðina. Húsið er allt hið vandaðasta og hefur hvergi verið til sparað. Kjallari hússins hefur það fram yfir flesta eða alla aðra kjallara í húsum í Kvosinni að aldrei hefur sjór flætt inn í hann þegar hásjávað er.

Þegar kjallarinn var steyptur lét Jón steypa alla útveggi í einu svo að engin samskipti urðu á steypunni og var unnið við verkið daga og nætur. Lyfta var sett í húsið og var lyftuvörður Lúðvík Hjálmtýsson; hann hafði verið sendill hjá Jóni. Í brunavirðingum á húsinu er ekkert skráð um lyftuna og má það undarlegt vera, því að eftir því sem best er vitað var ekki lyfta fyrir fólk í öðru húsi í Reykjavík nema Eimskipafélagshúsinu. Lyftan var frá A/S Titan í Kaupmannahöfn.

Í bókinni um Jón Þorláksson eftir Hannes Hólmstein Gissurarson segir frá því að óvænt töf hafi orðið við vinnu á þaki hússins: "Lítill fugl hafði hreiðrað um sig í suðausturhorni þessi og beið Jón Þorláksson með að láta ganga frá því, þangað til fuglinn hafði ungað út eggjum sínum." Einnig segir frá því í bókinni að Jón og dóttir hans, Elín, sem þá var átta ára, hafi fylgst með fuglinum.

Jón Þorláksson var fæddur 3. mars 1877 í Vesturhópshólum í Húnaþingi. Hann var sonur Þorláks Símonar Þorlákssonar og konu hans Margrétar Jónsdóttur. Jón var yngstur fimm barna þeirra. Hin börnin voru: Sigurbjörg, Margrét, sem lést í æsku, Björg og Magnús. Magnús varð síðar bóndi á Blikastöðum í Mosfellssveit og Björg ein af merkustu konum þessa lands. Hún var gift Sigfúsi Blöndal og vann við gerð íslensk-dönsku orðabókarinnar með manni sínum.

Jón Þorláksson var ekki nema fjórtán ára þegar hann settist í Lærða skólann í Reykjavík. Hann vakti þar strax athygli fyrir miklar námsgáfur. Jón innritaðist í Verkfræðiskólann í Kaupmannahöfn haustið 1897 og lauk námi þaðan í janúarlok árið 1903. Jón Þorláksson varð landsverkfræðingur árið 1905 og tók við af Sigurði Thoroddsen, fyrsta verkfræðingnum á Íslandi, en Sigurður tók þá við embætti í Menntaskólanum í Reykjavík.

Jón Þorláksson kvæntist Ingibjörgu Claessen 10. ágúst 1904 í kirkjunni á Sauðárkróki. Foreldrar hennar voru Jean Valgard Claessen og Kristin Briem, dóttir sýslumannshjónanna á Reynisstað í Skagafirði. Jón Þorláksson lést 20. mars 1935. Hann var aðeins 58 ára gamall og hafði gegnt embætti borgarstjóra um hríð.

Ýmiss konar rekstur

Í gegnum tíðina hefur verið ýmiss konar rekstur í húsinu. Þar var Soffíubúð, sem Soffía Jóhannesdóttir frá Ísafirði átti ásamt frænda sínum Axel Ketilssyni, sem einnig var frá Ísafirði. Soffía og Axel voru systrabörn. Í Soffíubúð var verslað með föt á konur og karla, vefnaðarvöru og ýmislegt smádót til saumaskapar og skrauts. Búðin var á stórum gólffleti á fyrstu hæð hússins.

Á götuhæðinni var einnig hárgreiðslustofa og úra- og skartgripaverslun sem Halldór Sigurðsson rak. Sonur hans var Sigfús Halldórsson, hið vinsæla tónskáld. Hattabúð og hattasaumastofa var lengi á annarri hæð sem Anna Ásmundsdóttir átti. Í húsinu var tannlæknastofa Halls Hallssonar og einnig var þar á hans vegum tannsmíðastofa. Á annarri hæð var skrifstofa sem annaðist útflutning á saltfiski. Lögfræðistofur voru á þriðju hæð.

Sigurður Thoroddsen verkfræðingur á Fríkirkjuvegi 3 var í húsinu með verkfræðistofur. Á fjórðu hæð var ljósmyndastofa Vignis og Óskars. Á þeirri hæð voru nokkrar skrifstofur. Í risi var íþróttasalur Jóns Þorsteinssonar. Í húsinu var einnig Lýsissamlagið og Söfnunarsjóður Íslands. Fyrirtækin voru áfram í húsinu þó að eigendaskipti yrðu á því.

Árið 1936 kaupir Axel Ketilsson, kaupmaður og eigandi að Soffíubúð, allt húsið af Ingibjörgu Claessen Þorláksson, ekkju Jóns Þorlákssonar. Axel Ketilsson var fæddur á Ísafirði 5. desember 1887, sonur Ketils Magnússonar skósmiðs og konu hans Helgu Guðrúnar Bjarnadóttur.

Axel setti á stofn eigin verslun á Ísafirði árið 1911, "Axelsbúð", sem verslaði með vefnaðarvöru. Þótti mörgum Ísfirðingnum þetta vera feigðarflan á unga manninum þar sem þrjár verslanir voru fyrir á Ísafirði sem versluðu með álnavöru. En verslun Axels gekk vel og hann hóf einnig vélbátaútgerð á Ísafirði.

Kona Axels var Ólöf Björnsdóttir Guðmundssonar kaupmanns á Ísafirði. Árið 1928 fluttu þau hjónin til Reykjavíkur og Axel varð forstjóri fyrir Soffíubúð í Austurstræti 14. Hann varð einkaeigandi verslunarinnar árið 1934.

Börn Axels og Ólafar voru sjö. Axel Ketilsson lést 16. maí 1941, en Ólöf Björnsdóttir lést 5. janúar 1960. Eftir lát þeirra sáu afkomendur þeirra um húsið og reksturinn þar. Ketill Axelsson, sonur þeirra, varð síðan eigandi að öllu húsinu.

Á fyrstu hæð eftir að Soffíubúð hætti var þar lengi rekin Herradeild P&Ó sem verslaði með sérstaklega vandaðan herrafatnað. P&Ó hafði umboð fyrir og seldi Lloyds-herraskó, skór með þessu merki fást núna hjá Steinari Waage. Mörgum mun vera minnisstæð auglýsing frá þeim félögum, sem hljóðaði þannig: "Allt frá hatti ofan í skó, herradeild P&Ó."

Pétur og Ólafur kynntust innan við fermingu, þegar þeir voru sendisveinar í Haraldarbúð í Austurstræti 22. Pétur var tengdasonur Axels og Ólafar. Herradeild P&Ó var í húsinu hátt í þrjátíu ár. Tóbaksverslunin London var í húsinu frá árinu 1930. Verslunin byrjaði í Austurstræti 1 og mun fyrirtækið Ó. Johnson & Kaaber hafa stofnað verslunina 1925. Á fyrstu hæð var einnig London dömudeild og á annarri hæð var Bára með dömufataverslun þar til Bára flutti inn á Hverfisgötu.

Café París stofnsett

Café París var stofnsett fyrir tíu árum af Katli og sonum hans. Það er á fyrstu hæðinni og er nú rekið á stærri gólffleti en fyrst. Café París er eitt af vinsælustu veitingahúsum borgarinnar með góðar veitingar í þægilegu umhverfi. Húsnæði veitingasölunnar er fallega innréttað og hægt er að ganga beint út á stétt við Austurvöll. Á góðviðrisdögum er komið fyrir borðum úti við svo að viðskiptavinirnir geti notið þess að sitja úti í sólinni.

Húsið Austurstræti 14 er fallegt og stílhreint og eigandi þess hefur sýnt því mikinn sóma. Allt upprunalegt hefur verið látið halda sér sem hægt er. Í virðingu frá 1977 kemur fram að húsið hefur allt verið endurnýjað að innan og skipt út gluggum á suðurhlið.

Skipt var bæði um raf- og vatnsleiðslur og allir stigar steinsteyptir sem áður voru úr timbri. Í aðalinngangi hússins eru sérstaklega fallegar terrasoflísar, lagðar eins og munstur í Viltonteppi. Þá var skipt um innihurðir í húsinu. Bakstigagangurinn var tekinn af og snyrtingar allra hæðanna færðar þangað, en eldhús og ræstikompur settar í plássið.

Þaki hússins var lyft og á það settir stórir þakgluggar. Úr gluggunum sést yfir alla miðborgina og höfnina. Gluggar á fyrstu hæð eru allir upprunalegir með harðviðarkörmum og litlum tígullaga rúðum efst í gluggunum í harðviðarrömmum. Á horni hússins við Pósthús- og Austurstræti eru dyr. Á tröppunni fyrir framan þær stendur gylltum stöfum: London.

Vegna Evrópustaðals varð að breyta umbúnaði lyftunnar en hún er enn að mestu upphafleg.

Núna er í húsinu verslunin London og Café París á fyrstu hæð. Það fer vel á því að á hinum hæðum hússins eru skrifstofur Alþingis.

Helstu heimildir frá Borgarskjalasafni, b-skjöl og brunavirðingar og bókin um Jón Þorláksson eftir Hannes Hólmstein Gissurarson.