Hljómsveitin Strax: "Eftir nokkur skipti var lögregluvörður á tónleikunum til að passa upp á að fólk stæði ekki upp. Það var alveg bannað. Í Peking var okkur svo bannað að fara nær sviðsbrúninni en sjö metra"
Hljómsveitin Strax: "Eftir nokkur skipti var lögregluvörður á tónleikunum til að passa upp á að fólk stæði ekki upp. Það var alveg bannað. Í Peking var okkur svo bannað að fara nær sviðsbrúninni en sjö metra"
EGILL Ólafsson tónlistarmaður segir að það hafi verið kínverskur verslunarfulltrúi í Kaupmannahöfn sem hafi átt upptökin að því að hljómsveitinni Strax var boðið í opinbera heimsókn til Kína 1986.

EGILL Ólafsson tónlistarmaður segir að það hafi verið kínverskur verslunarfulltrúi í Kaupmannahöfn sem hafi átt upptökin að því að hljómsveitinni Strax var boðið í opinbera heimsókn til Kína 1986.

"Þessi maður sá kvikmyndina Með allt á hreinu og ku víst hafa skemmt sér konunglega. Við höfðum reyndar verið með umsókn í kínverska sendiráðinu í einhvern tíma um það að við hefðum áhuga á að heimsækja kommúnistaríki. Einhverra hluta vegna small þetta saman og varð að okkur var boðið til Kína af kínverskum stjórnvöldum og vorum þess vegna opinberir gestir og fengum móttökur sem slíkir. Það voru tveir til þrír menn sem fylgdu okkur alla ferðina, en við fórum út í byrjun maí '86 og komum heim viku af júní. Mig minnir að við höfum heimsótt fjórtán borgir og við ferðuðumst frá Kanton og upp til Peking og fórum svo bæði eins langt í vestur og austur og við komumst. Í austur fórum við lengst til Nanjing sem nankin-efnið er kennt við.

Að hlýða og vera kurteis

Það var nú svolítið að slakna á öllu, því ég minnist þess að Kínverjarnir voru farnir að tala afskaplega vel um Sjang Kai Sjek, og við gistum meðal annars í sumarhúsi hans nærri Peking, afskaplega fallegri byggingu. Ég man líka að á þessum tíma kom yfirlýsing um það að nú ættu menn að leggja það af að klæðast litföróttum klæðum og það var eins og hendi væri veifað, og daginn eftir voru allir komnir með skræpótt bindi og öll ásýnd manna breyttist bara á einni nóttu. Þá skildi maður hvernig menn halda móralinn í svona stórum samfélögum. Það er náttúrlega með því að vera hlýðnir og temja sér kurteisi. Það var til dæmis gaman að sjá strætó pakkfullan af fólki sem snertist ekki, það þótti okkur alveg makalaust. Þetta voru merkilegir tímar, það var að hlána heilmikið og Kínverjar litu mikið til vesturs.

Okkur var tekið með kostum og kynjum og við spiluðum í öllum stærstu tónleikahúsum borganna sem við heimsóttum, þetta voru allt upp í átta þúsund manna hús. Í sumum tilfellum vorum við fyrstu vestrænu músíkantarnir sem höfðu komið á þessa staði. Við spiluðum alls staðar í beinni útsendingu í útvarp og það voru viðtöl við okkur í öllum blöðum. Það sem meira var, var að miðar á tónleikana voru seldir á svörtum markaði, og við fréttum af því að miðarnir hefðu verið að fara á allt að fjórðungi mánaðarlauna verkamanns. Þeir litu á okkur eins og hverja aðra vestræna músíkanta og þótt það sé ekki langt síðan var það ótrúlega sjaldgæft að slíkir menn spiluðu í Kína. Okkur stóðu allar dyr opnar og við sátum kvöldverði í öllum borgunum sem við komum í, með helstu skáldum og tónskáldum hvers héraðs, og allir þeir sem höfðu fengið tónlistarverðlaun voru með. Okkur þótti að þessu mikil vegsemd.

Áætlunarbíll með þreifianga

Að stórum hluta vorum við með efni sem við ætluðum okkur að fara með til Evrópu. Við vorum með mann frá BBC með okkur og gerðum heimildamynd um ferðina. En þetta var fyrst og fremst prógramm Strax, - kannski með eitt eða tvö Stuðmannalög með. En við vorum auðvitað með kínversk lög líka, sem við sungum á kínversku - Múrinn mikli hét eitt þeirra, og þá voru alltaf mikil fagnaðarlæti og fólk stóð upp og klappaði fyrir okkur. Annars var þeim alveg bannað að standa upp. Þeir gerðu það á nokkrum tónleikum, en eftir það var lögregluvörður á tónleikunum til að passa upp á þetta. Í Peking var okkur svo bannað að fara nær sviðsbrúninni en sjö metra.

Við vorum með heilmikið af búningum með okkur og alls konar tilstand, eins og uppblásnar leikmyndir. Við vorum meðal annars með uppblásna leikmynd sem við fengum í Englandi og átti að vera eldfjall. Við höfðum aldrei séð leikmyndina, og þegar hún var blásin upp í fyrstu borginni, Kanton, þá kom í ljós að þetta leit út eins og áætlunarbíll, og það sem áttu að vera grýlukerti var eins og einhverjir undarlegir þreifiangar í allar áttir. Við ákváðum, þótt þetta líktist ekki eldfjalli, að blása þetta upp okkur til skemmtunar.

Sjö tíma samsæti með karamellum og límonaði

Okkur var boðið í skóla og í leikhús og alls staðar var tekið á móti okkur með pompi og pragt. Ég minnist einnar móttökuveislu, í leikhúsinu í Nanjing. Það var móttökunefnd sem tók á móti okkur - þetta var fjölleikahús á einum sjö, átta hæðum, og risastórt leikhús við hliðina á því. Staða leikaranna var mæld eftir því hversu nálægt sviðinu þeir bjuggu. Leikhússtjórinn í leikhúsinu sjálfu og lægra settir fjær - og þeir lægst settu þurftu jafnvel að eiga reiðhljól til að komast í vinnuna. Til marks um tímaskyn þeirra, komum við í þessa móttöku klukkan tíu um morgun, og áttum að spila um kvöldið. Okkur var tekið með kostum og kynjum, stór og mikill borði og allt leikhúsfólkið, um þrjú hundruð manns var mætt, sumir úr óperunni, aðrir úr fjöllistahópnum, dansarar og sjötíu manna hljómsveit. Þessi móttökuveisla stóð í sjö tíma. Við sátum þarna með karamellur og límonaði við háborð mikið og urðum að úða í okkur karamellunum og brosa í allar áttir, meðan þeir sýndu okkur hvað hver einasta deild í húsinu var að gera, og það tók sjö tíma. Þegar það var búið þurftum við að spila með hljómsveitinni og kenna henni Hani, krummi, hundur, svín, eða eitthvað álíka. Við rétt mörðum það svo á tónleikana. Þetta fannst þeim ekkert óeðlilegt. Þetta voru bara hjartanlegar móttökur, og hlýlegt fólk.

Hápunktur ferðalagsins var sá að okkur var hverju fyrir sig boðið inn á heimili þessa fólks. Okkur var boðið upp á veitingar, og maður sá að fólk bjó á sautján, átján fermetrum, og við ofboðslega þröngan kost. Þetta voru kannski foreldrar með tvær dætur - því ef fólk eignaðist dóttur mátti það eignast annað barn. Ég lenti hjá leikhússtjóranum og hann bjó á á að giska þrjátíu og fjórum fermetrum með konu og tveim dætrum. Salernið var þannig að þegar maður sat á því var svona hengi sem náði niður að lærunum þegar maður sat. Fæturnir stóðu hins vegar inn í dagstofuna, plássið var svona naumt skammtað. Það merkilega við þetta hús var það að þetta var eina setklósettið, annars höfðu menn bara standklósett.

Með á nótunum

En ferðin var mikið ævintýri, sem maður gleymir aldrei. Málsverðirnir sem þeir buðu okkur til - þar voru yfirleitt hundrað og tuttugu, þrjátíu, fjörtíu gestir og allir topparnir í því samfélagi mættir. Svo voru þeir með lítil skemmtiatriði, kínverskt par kom og söng Tie a yellow ribbon 'round the old oak tree - þeir voru að sýna okkur að þeir væru vel með á nótunum. Þetta var afskaplega hlýlegt og gott fólk.

Það háttaði þannig til í borginni Nanjing að þar var engin lýsing og almyrkvað á nóttu. Eina lýsingin var í hótelinu sem við bjuggum í, enda var það nýbyggt af Kanadamönnum. Þetta var á þeim tíma sem erlendir peningar voru rétt að byrja að koma inn í landið. Í Peking voru tvö evrópsk hótel á þessum tíma - í dag er mér sagt að þau séu orðin þrjúhundruð. Þar var þá heldur enginn næturklúbbur. Við vorum með mann með frá Hong Kong sem fór með okkur í ópíumgreni, þar sem sátu háir sem lágir og reyktu saman ópíum; allt karlmenn. Annað var ekki í boði þá, en í dag eru meira en fjögur hundruð næturklúbbar í Peking. Þannig að margt hefur breyst frá því þetta var.

Okkur var boðið í skóla fyrir afburðanemendur. Þar sáum við drengi spila Rakhmaninov með öllum stælunum og án nótna. Þetta var lyginni líkast. Þeir hafa ekki verið eldri en sex til sjö ára þeir elstu. Þeim hafði verið kennt frá fjögurra ára aldri, og á þessum þrem til fjórum árum höfðu þeir náð þvílíkum árangri. Við sáum líka afburðafólk í tónlistarskólum. Því fólki var bara haldið við tónlistina og annað nám var bara til hliðar við tónlistarnámið.

Hvað er í kassanum?

Með okkur í ferðinni allan tímann var afskaplega góður maður sem hafði verið menningarfulltrúi í kínverska sendiráðinu í New York, og búinn að vera í utanríkisþjónustunni frá því hann var rúmlega tvítugur. Þetta var maður undir sjötugt og afskaplega skemmtilegur. Hann hafði séð Duke Ellington og var mikill aðdáandi hans. Hann vildi endilega að við spiluðum Ellington lag fyrir hann og á endanum gátum við rifjað upp eitt lag, og hann var svo hrifinn að við vorum meðhöndlaðir eins og höfðingjar. Þessi maður er mér svo minnisstæður vegna þess að alveg frá því að við hittum hann í Kanton var hann með lítinn pappakassa meðferðis sem hann hélt alltaf á og passaði mikið uppá. Við vorum alltaf jafnforvitnir að vita hvað væri í pappakassanum, en hann gaf aldrei neitt út á það. Alltaf var pappakassinn með og að þvælast fyrir okkur í þessum löngu lestarferðum milli staða. Þegar við komum til Peking tók konan hans á móti honum. Hann rétti konunni kassann strax á járnbrautarstöðinni og hún varð óskaplega glöð. Þetta var þá hraðsuðupottur og fyrsta rafmagnstækið sem þau eignuðust, komin undir sjötugt. Mér er sem ég sæi íslenska diplómata fagna einum hraðsuðupotti með þessum hætti. Svona var það. Þessi maður hafði heldur aldrei átt bíl og sagði að sennilega myndi það aldrei verða. Ég held að við höfum náð í skottið á mjög merkum tíma í Kína."