Appelsínutré fóstrað af náttúrunni aðlagað jörð og vatni hér um slóðir, þér var ekki ætlað að fara burt, þú munt æ og ávallt dafna hér í suðrinu.

Appelsínutré fóstrað af náttúrunni aðlagað jörð og vatni hér um slóðir, þér var ekki ætlað að fara burt, þú munt æ og ávallt dafna hér í suðrinu. Rótdjúpt festirðu ekki yndi annars staðar, bundið þessari jörð alltaf einarðlegt í ákvörðunum, blómhreint og laufgrænt, ánægjuleg ótæmandi gnægðin jafnvel þótt þyrnar séu meðal laufblaðanna, ávextirnir fagrir og ávalir, fullkomin andstæða græns og guls, minna á rósaský minna til fulls á andstæður himins og jarðar. Yfirborðið sérstætt, stofninn hvítur og hreinn, eins og sá sem er traustsins verður, frjálst og óþvingað, fáguð er fegurð þín. Ég dáist að þér, glóaldintré fyrir sunnan, ungt og einstakt tókstu ákvörðun, neitar að flytja þig um set, sjálfstætt slík einbeitni er geðfelld og gleðileg. Það mjakar þér ekkert á þessum djúpu rótum, úthverft og hófsamt, yfirvegað og öllum óhreinleika fjarri, aldrei gróft, en frjálst að öllu. Hyggið, með hreinan skjöld, mistakalaust, án yfirsjóna, ókvartsárir verðleikar þínir mæla sig við himin og jörð. Þegar köld álögin ógna og blómin visna verður þú vonandi styrkur félagi alla tíð, hjartaprútt, æðahreint, sterkt og beinvaxið. Svo ungt sem þú ert geturðu verið mér fyrirmynd, jafneinörð og Bo Yi, enn mun ég lengi fylgja fordæmi því. (Matthías Johannessen þýddi)

Appelsínutré fóstrað af náttúrunni aðlagað jörð og vatni hér um slóðir, þér var ekki ætlað að fara burt, þú munt æ og ávallt dafna hér í suðrinu. Rótdjúpt festirðu ekki yndi annars staðar, bundið þessari jörð alltaf einarðlegt í ákvörðunum, blómhreint og laufgrænt, ánægjuleg ótæmandi gnægðin jafnvel þótt þyrnar séu meðal laufblaðanna, ávextirnir fagrir og ávalir, fullkomin andstæða græns og guls, minna á rósaský minna til fulls á andstæður himins og jarðar. Yfirborðið sérstætt, stofninn hvítur og hreinn, eins og sá sem er traustsins verður, frjálst og óþvingað, fáguð er fegurð þín. Ég dáist að þér, glóaldintré fyrir sunnan, ungt og einstakt tókstu ákvörðun, neitar að flytja þig um set, sjálfstætt slík einbeitni er geðfelld og gleðileg. Það mjakar þér ekkert á þessum djúpu rótum, úthverft og hófsamt, yfirvegað og öllum óhreinleika fjarri, aldrei gróft, en frjálst að öllu. Hyggið, með hreinan skjöld, mistakalaust, án yfirsjóna, ókvartsárir verðleikar þínir mæla sig við himin og jörð. Þegar köld álögin ógna og blómin visna verður þú vonandi styrkur félagi alla tíð, hjartaprútt, æðahreint, sterkt og beinvaxið. Svo ungt sem þú ert geturðu verið mér fyrirmynd, jafneinörð og Bo Yi, enn mun ég lengi fylgja fordæmi því. (Matthías Johannessen þýddi)

- Qu Yuan er talinn fyrsta stórskáld Kínverja. Kvæði hans hafa lifað með þjóðinni á þriðja þús. ár. Hann var fæddur 340 f.Kr., en lézt 278 f.Kr., 62 ára að aldri. Hann átti sæti í ráðuneyti Huai keisara í Chu-héraði. Hann var hægri hönd hans og helzti trúnaðarvinur, meðan allt lék í lyndi, einstæður mannkostamaður og slyngur pólitíkus. Samt var honum vikið úr embætti vegna rógburðar og andstöðu aðalsins og lézt í útlegð, bugaður af illum örlögum ættlandsins og vina sinna sem misstu fótanna í átökum við nærliggjandi héruð og innbyrðis deilum.

Í þessu kvæði, Óði til appelsínutrésins, líkir skáldið staðfestu þess við eigin afstöðu og föðurlandsást. Sjálft var skáldið, róið út af gærunni, hrakið í útlegð. En það var honum um megn að festa rætur annars staðar en í Chu-héraði. Fyrirmyndin var tréð góða sem hann yrkir um. Og svo þjóðsagnahetjan Bo Yi.

Qu Yuan samdi frægt leikrit um mannlegan breyskleika, byggt á reynslu hans sjálfs við hirðina, en þaðan er hann hrakinn vegna samsæris gegn honum. Sjálfur er hann ein helzta persóna verksins, ásamt því fólki sem hann umgekkst í daglegu lífi, t.a.m. Huai keisara af Chu og skylduliði hans. Leikritið er afar nútímalegt eins og önnur verk Yuans og sýnir að manneskjan hefur ekkert breytzt.

Í upphafi kemur ljóðið góða um appelsínutréð við sögu, því að höfundur fer með það eins og hann sé að reisa vegvísi að ferðalokum.

Það væri ástæða til að flytja leikritið hér heima við gott tækifæri. Það á ekki minna erindi en margt af því sem menn eru að daðra við með hástemmdu lofi nú um stundir.

Ég snaraði kvæðinu á íslenzku með aðstoð skáldsins sem nú skipar sendiherrastöðu Kínverja hér á landi, Wang Ronghua, sem hefur ort ágætlega um Ísland og verið hér aufúsugestur. Hann las mér kvæðið á kínversku, lýsti textanum á ensku og lét mér svo eftir afganginn.

Þess má geta að smárími bregður fyrir í þýðingunni og minnir á, að frumkvæðið er undir rímuðum kínverskum hætti.

Þýðingin er birt í virðingarskyni við einstæða arfleifð kínverskrar menningar, en af henni gætum við margt lært, ekki sízt umgengni við tunguna og varðveizlu hennar.

Matthías Johannessen