Pan Chin Min, Falun Gong-iðkandi frá Taívan.
Pan Chin Min, Falun Gong-iðkandi frá Taívan.
PAN Chin Min, Falun Gong-iðkandi frá Taívan, er ein þeirra sem voru stöðvuð á Keflavíkurflugvelli í gær. Hún var í Moskvu þegar Jiang Zemin, forseti Kína, var þar og flaug síðan um Kaupmannahöfn til Íslands.

PAN Chin Min, Falun Gong-iðkandi frá Taívan, er ein þeirra sem voru stöðvuð á Keflavíkurflugvelli í gær. Hún var í Moskvu þegar Jiang Zemin, forseti Kína, var þar og flaug síðan um Kaupmannahöfn til Íslands.

Þegar Morgunblaðið ræddi við hana eftir hádegi í gær sagðist hún hafa verið stöðvuð ásamt 46 öðrum og þeim verið sagt að þau mættu ekki fara út úr flugstöðinni. Lögregla hefði engar skýringar gefið á þessu. Síðar hafi lögregla sagt þeim að "æðra stjórnvald" hefði ákveðið að þeim yrði snúið við innan klukkustundar og voru þau beðin um að afhenda farseðla sína. Þessu hafi langflestir hafnað og beðið um að fá að hitta lögfræðing en lögregla þá tjáð þeim að þau hefðu ekki rétt til þess. Pan Chin Min segir að þegar þau hafi spurt lögreglu um ástæður fyrir því að þeim væri meinað um landgöngu hafi þeim verið sagt að þau fengju upplýsingar um það um leið og þau féllust á að fara til baka.

Aðspurð um ástæður fyrir komu þeirra hingað segir hún að ætlunin hafi einfaldlega verið sú að sýna Jiang Zemin fram á hversu friðsamlegir Falun Gong-iðkendur eru. Þeir séu ofsóttir í Kína og fjölmargir hafi verið pyntaðir og myrtir af kínverskum stjórnvöldum. Hún þvertekur fyrir að einhver vandræði gætu orðið af dvöl þeirra hér og þau myndu fara eftir tilmælum lögreglu.

Pan Chin Min segir að sér hafi komið á óvart að vera hafnað um landgönguleyfi enda hafi hún fengið vegabréfsáritun hingað. Ætlunin hafi verið að dvelja hér til 17. júní en nú sé framhaldið algjörlega óvíst.