Í MORGUNBLAÐINU laugardaginn 8. júní er rætt við Þjóðgarðsvörð á Þingvöllum varðandi grein er ég ritaði og birtist á heimasíðu Þjóðkirkjunnar, kirkja.is., um aðstöðu kirkjunnar á Þingvöllum.

Í MORGUNBLAÐINU laugardaginn 8. júní er rætt við Þjóðgarðsvörð á Þingvöllum varðandi grein er ég ritaði og birtist á heimasíðu Þjóðkirkjunnar, kirkja.is., um aðstöðu kirkjunnar á Þingvöllum. Tvennt í athugasemdum þjóðgarðsvarðar tel ég rétt að skoða nánar, því það gæti að öðrum kosti valdið misskilningi á stöðu og sögu Þingvallakirkju.

Hið fyrra varðar þá athugasemd að aðstaða kirkjunnar sé hin sama nú og verið hafi um árabil. Eins og ég bendi á í grein minni á kirkjan.is þá hefur verið prestsetur á Þingvallastað í ein 1000 ár, eða allt fram yfir kristnitökuhátíðina árið 2000. Skrifstofa prests og móttaka var í einni burst Þingvallabæjarins hina síðari áratugina og þá aðstöðu gátu allir prestar og aðrir nýtt sér er komu til athafna í Þingvallakirkju um ársins hring. Á skrifstofu prests var geymdur messuskrúði kirkjunnar allur, bækur, helgigripir, skjöl og aðrir munir. Eftir messur var iðulega boðið til kaffisamsætis á prestsetrinu og fjöldi kirkjugesta hefur notið þess í gegnum tíðina. Auk þessa nýttu kirkjugestir aðstöðu prestsetursins af margvíslegu tilefni. Þessi aðstaða er ekki lengur fyrir hendi. Í dag er öll aðstaða Þingvallakirkju eitt herbergi og í því herbergi er móttaka, geymsla kirkjumuna og skrifstofa starfandi prests. Stærstan hluta ársins er aukinheldur enginn búandi á prestsetrinu gamla.

Hið síðara sem skoðunar þarfnast er hvort Þingvallakirkja sé í eðli sínu sambærileg við aðrar litlar sveitakirkjur. Þingvallakirkja er vissulega sóknarkirkja Þingvallasveitar og helgistaður heimamanna. En þó að Þingvallakirkja sé lítil og hógvær, þá er hún sögulega séð einn stærsti helgidómur íslenskrar kristni, sambærileg við Skálholtsdómkirkju og Hóladómkirkju. Til hennar koma tugir þúsunda gesta á hverju ári, árið um kring. Ótölulegur fjöldi hjóna hefur þar þegið sína vígslu og barna verið borinn til skírnar. Við altari kirkjunnar hefur hans heilagleiki Jóhannes Páll páfi beðist fyrir, fyrir hönd kaþólsku kirkunnar, og þar hafa fulltrúar allra kirkjudeilda lotið guði. Þingvallakirkja stendur á þeim stað þar sem kirkja hefur staðið lengur í þessu landi en á nokkrum öðrum stað ef að líkum lætur. Allt umhverfi kirkjunnar er helgað sögu kristinnar trúar.

Þeirri kirkju og þeim kirkjustað hæfir því reisn og aðstaða til að bjóða gesti velkomna frá öllum hornum heimsins, af öllum kirkjudeildum og frá öllum trúfélögum, um allan ársins hring. Formanni Þingvallanefndar og Þingvallanefnd ber að þakka alla aðstoð við umsýslu kirkju og staðar fyrr og síðar og það góða starf sem er unnið á vegum nefndarinnar og þjóðgarðsins.

SR. ÞÓRHALLUR HEIMISSON.

Frá sr. Þórhalli Heimissyni: