Í viðtali við forsvarsmenn söluskrifstofu Allianz á Íslandi í Morgunblaðinu um síðustu helgi kom fram að þýska tryggingafélagið Allianz er farið að bjóða viðbótarlífeyrissparnað hér á landi, fyrst erlendra tryggingafélaga.

Í viðtali við forsvarsmenn söluskrifstofu Allianz á Íslandi í Morgunblaðinu um síðustu helgi kom fram að þýska tryggingafélagið Allianz er farið að bjóða viðbótarlífeyrissparnað hér á landi, fyrst erlendra tryggingafélaga. Í viðtalinu sögðust forsvarsmennirnir telja að Allianz bjóði upp á ákveðin atriði sem ekki hafi verið í boði hér á landi. Meðal annars sé um að ræða að Allianz lofi 6% nafnvöxtum og þýska ríkið tryggi 3,25% nafnávöxtun, hvort tveggja í evrum, en annað atriði sem forsvarsmenn Allianz leggja áherslu á er einmitt að sparnaðurinn sé í evrum og í því felist hagstæð áhættudreifing. Þá kom fram í máli forsvarsmannanna að þeir telja kostnað launþegans skýrari sé viðbótarlífeyririnn lagður inn hjá Allianz en almennt hafi tíðkast hafi hér á landi. Loks segja þeir að meira val sé um útborgun en boðið hafi verið upp á hér og leggja í því sambandi sérstaka áherslu á ævilangan lífeyri, en hér sé viðbótarlífeyririnn yfirleitt greiddur út á tilteknum árafjölda.

Kostnaður við viðbótarlífeyri ekki óskýr hér á landi

Ólafur Haukur Jónsson, framkvæmdastjóri Sameinaða líftryggingafélagsins, Samlífs, segist ekki sjá að með innkomu Allianz á markað fyrir viðbótarlífeyrissparnað sé að bætast við vara sem íslenskir neytendur hafi farið á mis við hingað til. "Við hjá Samlífi höfum boðið upp á ævilífeyri, sambærilegan því sem Allianz er nú að markaðssetja, en höfum fallið frá þeirri leið," segir Ólafur Haukur. "Ástæðan er aðallega sú að með viðbótarlífeyrissparnaði vill fólk fyrst og fremst tryggja sér svigrúm á fyrstu árum eftir starfslok og jafnvel stefna á starfslok fyrr en grunnréttindi lífeyrissjóðanna bjóða upp á."

Ólafur Haukur segir, aðspurður um það að bjóða tryggða lágmarksávöxtun, að Samlíf hafi frá árinu 1993 boðið upp á verðtryggðan sparnað með loforði um 2% raunávöxtun, að viðbættum mögulegum bónusgreiðslum. "Reynslan er hins vegar sú," segir hann, "að fólk hefur frekar valið leiðir sem eru samsettar af skuldabréfum og hlutabréfum með von um hærri langtímaávöxtun. Slíkir sjóðir Samlífs hafa til að mynda allir sýnt yfir 10% árlega nafnávöxtun frá því lífeyrissparnaður hóf göngu sína fyrir rúmum þremur árum.

Lífeyrissparnaður með föstum vöxtum er hins vegar vissulega valkostur fyrir þá sem vilja gæta mestu varúðar en þá hlýtur það fólk einnig að íhuga hvort rétt sé að taka gengisáhættu."

Spurður út í kostnað og þá staðhæfingu Allianz að hjá því fyrirtæki sé kostnaðurinn skýrari en gerist og gengur hér á landi segist Ólafur Haukur ekki geta fallist á það. Kostnaður Samlífs sé tekinn áður en ávöxtun sjóðanna sé birt. Eigin gjaldtaka Samlífs sé einungis 0,5% af eignum sjóða á ári. Hann sagðist jafnframt efast um að aðrir gætu keypt og selt bréf án kostnaðar, þar hljóti að vera um einhverja einföldun að ræða.

Ekki skynsamlegt að hafa allan viðbótarlífeyrissparnaðinn í evrum

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Séreignalífeyrissjóðsins hjá Búnaðarbankanum, segist ekki telja skynsamlegt að launþegar ávaxti allan viðbótarlífeyrissparnað sinn í evrum eins og Allianz bjóði upp á, því meirihluti af eyðslu fólks sé í íslenskum krónum. Þessu ósamræmi fylgi nokkur áhætta því ef íslenska krónan styrkist gagnvart evru fái fólk færri íslenskar krónur þegar það selji evrur. Æskilegt sé samt að hluti af sparnaðinum sé ávaxtaður í erlendri mynt til að nýta fjölmörg fjárfestingartækifæri erlendis til að dreifa áhættu. Búnaðarbankinn bjóði upp á fjölmargar fjárfestingarleiðir í viðbótarlífeyrissparnaði sem henti hverjum og einum. Til dæmis sé hægt að velja um fjárfestingaleiðir þar sem hluti af sparnaðinum sé ávaxtaður í erlendri mynt.

Varðandi loforð Allianz um 6% nafnávöxtun í evrum segir Arnaldur að Búnaðarbankinn bjóði nú þegar upp á Lífeyrisbók í viðbótarlífeyrissparnaði fyrir fólk sem vill taka lágmarksáhættu eða á stutt í eftirlaunaaldur. Vextir séu nú 6,5% auk verðtryggingar. Auk þess hafi verðbréfasöfn með meira vægi hlutabréfa skilað almennt hærri ávöxtun til lengri tíma litið en verðbréfasöfn með meira vægi skuldabréfa. Mismunandi sé eftir aldri fólks hvaða eignasamsetning henti hverjum og einum og því bjóði Séreignalífeyrissjóðurinn upp á aldurstengdar leiðir þar sem áhættan minnki eftir því sem fólk eldist.

Arnaldur segir að erfitt geti verið að bera saman 3% kostnað af ávöxtun og 4% söluþóknun Allianz af hverri greiðslu við 0,5% umsýsluþóknun í Séreignalífeyrissjóðnum, því mismunandi forsendur, eins og ávöxtun og sparnaðartími, geti skilað ólíkum niðurstöðum. Sjóðfélagar í Séreignalífeyrissjóðnum greiða enga söluþóknun og því fari allt iðgjaldið í ávöxtun. Arnaldur segir að viðbótarlífeyrissparnaður sé í eðli sínu langtímasparnaður og á löngum tíma verði vextir stór hluti af uppsafnaðri inneign launþega. Hann segir að fjárfestingum fylgi viðskiptakostnaður en hann sé mismunandi eftir eðli þeirra, og hann segist gera ráð fyrir að Allianz greiði einhvern viðskiptakostnað við fjárfestingar sínar eins og aðrir sjóðir.

Ævilangur lífeyrir engin nýlunda

Varðandi þá möguleika sem Allianz býður upp á við útborgun, þ.e. að rétthafar geti fengið sparnaðinn greiddan út til æviloka eða í eingreiðslu, segir Arnaldur að það sé í raun engin nýlunda. Í samningi sem rétthafar geri við Búnaðarbankann um viðbótarlífeyrissparnað komi fram að þessi möguleiki sé fyrir hendi. Enginn hafi þó enn óskað eftir ævilöngum ellilífeyri. Arnaldur segist ekki búast við að fólk muni nýta sér þennan útborgunarmöguleika í miklum mæli. Launþegar tryggi sér ævilangan ellilífeyri með greiðslu 10% iðgjalds í lífeyrissjóð. Einnig vilji fólk almennt hafa hærri tekjur fyrstu árin eftir starfslok og þá sé hagstæðara að taka viðbótarlífeyrissparnaðinn út á ákveðnum árafjölda. Einnig minnki tekjuþörfin á seinni hluta ellilífeyrisáranna.

Varðandi flutning inneignar til maka segir Arnaldur að um hann gildi lög hér á landi og Búnaðarbankinn bjóði upp á skiptingu á inneign á milli sjóðfélaga og maka samkvæmt lögunum. Ekki megi skipta meira en 50% af inneign og skiptingin þurfi að vera gagnkvæm og jöfn.

Nafnávöxtun verðtryggðrar lífeyrisbókar verið 10-16% síðustu ár

"Ég hef ekki mikið um þessa frétt af söluskrifstofu Allianz að segja," segir Björn Líndal, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum, í samtali við Morgunblaðið. "Landsbankinn hefur samkvæmt könnunum náð forystu í sölu viðbótarlífeyrissparnaðar og býður viðskiptavinum fjölbreyttar leiðir til að ávaxta slíkan sparnað. Þegar sagt er að 6% nafnávöxtun sé tryggð, þá bendi ég til dæmis á verðtryggða lífeyrisbók Landsbankans, sem verðtryggir fjármuni sparenda, auk þess sem greiddir eru 6,4% vextir ofan á verðtrygginguna. Nafnávöxtun bókarinnar var þannig til dæmis 15,56% á síðasta ári, 11,4% árið 1999 og árið 2000 10,4%. Þannig tryggir samkeppnin mjög góða ávöxtun eins og þessar tölur sýna og ég held að þetta nýja útspil breyti þar litlu um.

Varðandi kostnaðinn þá sýnist mér söluskrifstofan beina spjótum sínum að öðrum aðilum á markaðnum en Landsbankanum, og ég hef í sjálfu sér ekkert um það að segja. Varðandi útgreiðslumöguleikana þá fylgjum við vitaskuld reglum íslenskra laga, en skoðum sífellt nýja kosti í því efni."