SVOKALLAÐUR málfarsbanki hefur verið opnaður á vef Íslenskrar málstöðvar á Netinu. Málfarsbankinn er nýjung í málfarsráðgjöf málstöðvarinnar. "Komnar eru um 7.000 greinar í málfarsbankann og sífellt bætist nýtt efni við.

SVOKALLAÐUR málfarsbanki hefur verið opnaður á vef Íslenskrar málstöðvar á Netinu. Málfarsbankinn er nýjung í málfarsráðgjöf málstöðvarinnar.

"Komnar eru um 7.000 greinar í málfarsbankann og sífellt bætist nýtt efni við. Í bankanum er að finna leiðbeiningar um það sem algengast er að starfsmenn Íslenskrar málstöðvar séu spurðir um, svo sem beygingu orða, ýmis orðasambönd, ritreglur, landa- og íbúaheiti og margt annað.

Til að kynnast bankanum mætti t.d. prófa að slá inn þessi leitarorð: að, af, hver, Portúgal, sautján, systkin, þolmynd.

Ef notandi finnur enga viðeigandi grein um leitarorðið í málfarsbankanum er honum boðið að senda málstöðinni fyrirspurn. Sérfræðingar málstöðvarinnar svara henni í tölvupósti eins og endranær eftir bestu getu. Nýjar fyrirspurnir frá almenningi benda ritstjóra málfarsbankans jafnframt á hvað nýjar greinar í málfarsbankanum ættu að fjalla um. (Þær yrðu svo tiltækar þar fyrir næsta notanda sem bæri fram spurningu um sama eða skylt efni.)," segir m.a. í fréttatilkynningu frá Íslenskri málstöð.