HEIMS- og Evrópumeistarar Frakka höfnuðu í neðsta sæti A-riðils á HM og eru á heimleið. Frakkar, sem töpuðu 2:0 fyrir Dönum í gær, skoruðu ekki mark í leikjunum þremur í riðlakeppninni. Ríkjandi heimsmeistarar hafa ekki fallið úr keppni í fyrstu umferð frá því 1966 í Englandi þegar Brasilía féll úr keppni. Auk þess er þetta í fyrsta skipti sem heimsmeisturum tekst ekki að skora mark í titilvörn sinni.

Dönsku leikmennirnir mættu yfirvegaðir til leiks og léku af miklu öryggi. Morten Olsen, þjálfari Dana, tók miðherjann Ebbe Sand út úr byrjunarliðinu og setti Christian Poulsen í hans stað, sem hafði það hlutverk að gæta Zinedine Zidane sem lék sinn fyrsta og eina leik í keppninni. Dennis Rommedahl skoraði fyrra mark Dana á 20. mínútu og Jon Dahl Tomasson hið síðara á 66. mínútu, sitt fjórða í keppninni. Með þessum sigri tryggðu Danir sér efsta sætið í riðlinum og mæta þeir liðinu í öðru sæti úr F-riðli í 16-liða úrslitum.

Zinedine Zidane, sem valinn var maður leiksins, sagði að Frakkar hefðu ekki átt von á því að lenda í neðsta sæti riðilsins: "Við áttum aldrei von á því að þetta yrðu örlög okkar, en fótbolti snýst alfarið um þann raunveruleika sem á sér stað á vellinum. Við hefðum getað gert betur. Oft og tíðum, og sérstaklega í dag, hefði mark aukið sjálfstraust okkar. Okkur skorti sjálfstraust því við fengum marktækifærin sem þurfti, en við vorum lánlausir þegar kom að því að skora."

Það var öllu betra hljóðið í Morten Olsen. "Þetta var erfiður riðill, sérstaklega eftir að Frakkar töpuðu fyrsta leiknum og við sáum styrkleika Úrúgvæ og Senegal. Við áttum góðan dag, liðið lék vel, af miklu sjálfstrausti og aga," sagði Olsen sem var hógværðin uppmáluð.

Olsen kom á óvart með því að taka fyrirliðann Jan Heintze út úr byrjunarliðinu. "Það var ekki erfitt að setja fyrirliðann á bekkinn vegna þess að við erum allir atvinnumenn og við erum allir hluti af liðsheild. Hann var sá fyrirliði sem liðið þarfnaðist allan tímann fram að leik. Meira að segja inni í búningsklefanum þegar hann vissi að hann yrði ekki inni á vellinum.

Ég ræddi við Heintze í einrúmi og tjáði honum ákvörðun mína. Greindi ég honum frá því að þegar ég lék á HM í Mexíkó, þá orðinn 36 ára gamall, lá ég í rúminu í átta daga vegna þreytu. Það væri óeðlilegt ef hann gæti leikið alla leiki í þessum hita," sagði Olsen um hinn 38 ára gamla Heintze.