SKIPULAG heilbrigðiskerfisins má að mati Hauks Valdimarssonar aðstoðarlandlæknis bæta með því að efla þátt grunnþjónustu á borð við heilsugæslu. Það megi gera án þess að auka fjármagn inn í kerfið eða draga úr vægi annarrar þjónustu.

SKIPULAG heilbrigðiskerfisins má að mati Hauks Valdimarssonar aðstoðarlandlæknis bæta með því að efla þátt grunnþjónustu á borð við heilsugæslu. Það megi gera án þess að auka fjármagn inn í kerfið eða draga úr vægi annarrar þjónustu.

Haukur var inntur eftir viðbrögðum við ummælum Einars Odds Kristjánssonar, varaformanns fjárlaganefndar Alþingis, í Morgunblaðinu í gær þess efnis að skipulagi heilbrigðisþjónustunnar væri ábótavant og efla þyrfti heilsugæsluna frekar en að færa þjónustu upp á hæsta stig með hátækniaðgerðum.

"Ég er þó ekki sammála Einari Oddi um að það sé hægt að stilla málinu þannig upp að annaðhvort velji menn grunnþjónustu eða hátækniþjónustu. Þessi stig þurfa bæði að virka saman eins og vel smurðar vélar. Með því að bæta grunnþjónustuna væri eflaust hægt að bæta ástandið og taka þá á málum fyrr og á öðru þjónustustigi en verið er að gera," segir Haukur og vísar þar einkum til höfuðborgarsvæðisins þar sem kvartað hafi verið undan aðgengi að grunnþjónustunni, þ.e. heilsugæslustöðvunum.

Aðspurður hvort heilbrigðisyfirvöld hafi um of lagt áherslu á að hámarka gæði þjónustunnar telur Haukur svo ekki vera. Íslendingar geti verið stoltir af því að bera sig saman við það besta sem þekkist í heiminum á sviði heilbrigðismála. Nú séu flestar aðgerðir gerðar hér á landi og almenn sátt hafi verið um að stefna að því. Haukur segir að ekki megi draga úr þeirri áherslu heldur frekar að beina þjónustunni inn á réttar brautir og dreifa álaginu betur.