TVEIR framhaldsskólakennarar í Sevilla á Spáni, Marcial Castro og Sergio Algarrada, vilja nota nýjustu tækni erfðafræðinnar til að útkljá gamla deilu um legstað Kristófers Kólumbusar sem sigldi með föruneyti sínu frá Spáni til Karíbahafs árið 1492,...

TVEIR framhaldsskólakennarar í Sevilla á Spáni, Marcial Castro og Sergio Algarrada, vilja nota nýjustu tækni erfðafræðinnar til að útkljá gamla deilu um legstað Kristófers Kólumbusar sem sigldi með föruneyti sínu frá Spáni til Karíbahafs árið 1492, fyrstur Evrópumanna. Vilja þeir gera DNA-rannsóknir á beinum sem talið er að séu úr landkönnuðinum.

Jarðneskar leifar Kólumbusar er að finna á fleiri en einum stað, ef marka má íbúa Sevilla og Santo Domingo í Dómíníska lýðveldinu á eynni Hispaníólu á Karíbahafi. Ítalski sæfarinn Kólumbus hélt í ferð sína vestur um haf með stuðningi spænsku konungshjónanna Ferdinands og Ísabellu og hugðist finna siglingaleið til Asíu. Hann lést í Valladolid á Spáni 20. maí 1506. 1537 voru jarðneskar leifar hans fluttar til Santo Domingo, en Kólumbus hafði fyrir andlátið óskað þess að verða jarðsettur í Ameríku. Er Frakkar náðu völdum á Hispaníólu 1795 voru beinin flutt til Kúbu en 1898 aftur til Spánar. Voru þau jarðsett í Sevilla.

En Dóminíkar hafa aðra sögu að segja og fullyrða, að í Santo Domingo sé legstaður afreksmannsins. Árið 1877 fannst í dómkirkju borgarinnar blýkista með stórum og smáum beinabrotum og á henni stendur: Duglegur hefðarmaður, herra Cristobal Colon. Á spænsku heitir Kólumbus því nafni.

Kennararnir vilja bera DNA-sýni úr beinum óskilgetins sonar Kólumbusar, Hernando Colons, saman við sýni úr umdeildu beinaleifunum. Ekki er þó ljóst hvort hægt sé að finna nothæf sýni í 500 ára gömlum leifunum.

Madrid. AP.