Brynja M. Dan Gunnarsdóttir var fjallkona í Hafnarfirði.
Brynja M. Dan Gunnarsdóttir var fjallkona í Hafnarfirði.
Á ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGINN hefur myndast sú hefð sem liður í hátíðardagskránni að ungar konur komi fram í hlutverki fjallkonunnar, klæddar skautbúningi, og fari með ljóð sem oft er óður til ættjarðarinnar.
Á ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGINN hefur myndast sú hefð sem liður í hátíðardagskránni að ungar konur komi fram í hlutverki fjallkonunnar, klæddar skautbúningi, og fari með ljóð sem oft er óður til ættjarðarinnar. Að þessu sinni var Brynja Muditha Dan Gunnarsdóttir fjallkona Hafnarfjarðar, en hún er sextán ára menntaskólamær.

Brynja er af erlendu bergi brotin, var ættleidd hingað frá Sri Lanka þegar hún var tveggja mánaða gömul og eru foreldrar hennar Snjólaug Stefánsdóttir og Dan Gunnar Hansson sem er látinn.

"Ég ákvað að taka að mér hlutverk fjallkonunnar til að gera eitthvað nýtt sem hafði ekki verið gert áður," sagði Brynja og sagðist ekki vita til þess að fjallkonan hafi áður verið af erlendum uppruna. "Mér skilst að þetta hafi verið liður í átaki til að berjast gegn fordómum og ég er viss um að þetta hefur haft góð áhrif."

Brynja segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð og er þess fullviss að hlutverkið hafi orðið til þess að brjóta ísinn, opna augu fólks og sýna fram á hversu fjölbreytilegu þjóðfélagi við búum nú í. "Það kom sumum á óvart að sjá mig í hlutverki fjallkonunnar. Margir búast við að sjá þekkta leikkonu sem fjallkonuna og fannst þetta kannski ekki alveg við hæfi en ég fékk mjög góð viðbrögð við þessu."

Brynja flutti ljóð eftir Jóhann Guðna Reynisson, upplýsingastjóra Hafnarfjarðar, í tilefni dagsins.