26. júní 2002 | Innlendar fréttir | 233 orð

Vítisenglar stefndu til landsins

SAMKVÆMT áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins hafði lögregla spurnir af því að allstór hópur danskra Vítisengla hefði stefnt hingað til lands í sumar en þeir virðast nú hafa hætt við förina. Jón H.
SAMKVÆMT áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins hafði lögregla spurnir af því að allstór hópur danskra Vítisengla hefði stefnt hingað til lands í sumar en þeir virðast nú hafa hætt við förina.

Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, segist ekki geta staðfest að Vítisenglarnir hafi ætlað að koma til landsins en reyni þeir eða aðrir sem tengjast glæpasamtökum að koma hingað, verði þeim meinuð landganga eða vísað úr landi líkt og gerðist þegar 19 Vítisenglar voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli í febrúar sl. "Það er stefna yfirvalda sem staðið verður við," segir Jón.

Lögregla hefur sérstaka viðbragðsáætlun

Skv. heimildum Morgunblaðsins ætluðu Vítisenglarnir að koma með Norrænu til landsins og var lögregla viðbúin að senda mikið lið til að aðstoða lögregluna á Seyðisfirði. Jón vill aðeins segja að lögregla hafi sérstaka viðbragðsáætlun vegna komu slíkra glæpahópa til landsins og geti brugðist við með skömmum fyrirvara.

Aðspurður segir hann að engir eftirmálar hafi orðið af því þegar Vítisenglarnir 19 voru stöðvaðir í vetur. Lögregla hafði þá haldgóðar upplýsingar um að Vítisenglar hefðu ætlað að ná fótfestu í glæpastarfsemi hér á landi. Jón segir að lögregla sé á verði gagnvart þessum samtökum sem og öðrum glæpahópum. Samstarf sé mjög náið og gott við embætti ríkislögreglustjóranna á Norðurlöndunum sem eru í fararbroddi í baráttu gegn glæpasamtökum þar. "Kollegar okkar telja að þær aðgerðir og sú stefna sem tekin hefur verið upp hér á landi auðveldi þeim baráttuna í heimalöndum þeirra," segir Jón.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.