Gamla hverfið, Gamla Stan, í miðborg Stokkhólms. Dregið hefur úr niðurgreiðslum og er nú svo komið að hið opinbera hefur meiri skatttekjur af húsnæðisgeiranum en sem nemur stuðningi ríkisins til málaflokksins.
Gamla hverfið, Gamla Stan, í miðborg Stokkhólms. Dregið hefur úr niðurgreiðslum og er nú svo komið að hið opinbera hefur meiri skatttekjur af húsnæðisgeiranum en sem nemur stuðningi ríkisins til málaflokksins.
SVÍAR brutust snemma á 16. öld undan Kalmarsambandinu, þar sem Danir höfðu sterkasta stöðu. Næstu 150 ár voru svo saga stöðugra hernaðarátaka við Dani, sem smátt og smátt fóru halloka.

SVÍAR brutust snemma á 16. öld undan Kalmarsambandinu, þar sem Danir höfðu sterkasta stöðu. Næstu 150 ár voru svo saga stöðugra hernaðarátaka við Dani, sem smátt og smátt fóru halloka.

Um tíma náðu Svíar stórveldisstöðu beggja vegna Eystrasalts og allar götur síðan hafa Svíar lagt mikla áherslu á öflugt og vel skipulagt ríkisvald. Segja má að þessi aldagamla skipulagshyggja einkenni enn í dag allt sænskt þjóðlíf og gætir hennar ekki síst á sviði húsnæðis- og skipulagsmála.

Þótt skipuleg verkalýðshreyfing sé í raun eldri í bæði Danmörku og Noregi varð sænska verkalýðshreyfingin er kom fram á tuttugustu öld sú öflugasta á Norðurlöndum. Sænski jafnaðarmannaflokkurinn varð einnig sá stærsti á Norðurlöndum og er raunar leitun að öflugri krataflokki nokkurs staðar á byggðu bóli.

Árið 1932, fyrir réttum 70 árum, unnu jafnaðarmenn mikinn kosningasigur og hafa, að undanteknum níu árum (1976-1982 og 1991-1994) leitt allar sænskar ríkisstjórnir síðan; nær alltaf einir í ríkisstjórn. Kosningaspár fyrir væntanlegar þingkosningar í haust benda eindregið til áframhaldandi stjórnarsetu krata.

Þjóðarheimilið og húsnæðisstefnan

Húsnæðisstefnan var frá upphafi einn af helstu hornsteinum sænsku jafnaðarstefnunnar. Per Albin Hansson, er var forsætisráðherra Svíþjóðar nær óslitið árin 1932-1946, setti þegar árið 1928 fram hugmyndina um "folkhemmet", þar sem enginn þegn væri skilinn útundan, sem vísaði beint til þeirrar hugsunar að mannsæmandi húsnæði öllum til handa væri hluti almennra borgararéttinda.

Samvinnufélög um byggingu og rekstur íbúðarhúsnæðis höfðu verið stofnuð í Svíþjóð á 19. öld, svo sem raunin var í fjölmörgum öðrum Evrópulöndum. Mörg þeirra urðu þó skammlíf og starfsemi þeirra var einungis staðbundin. Árið 1923 var hins vegar stofnað landssamband húsnæðissamvinnufélaga, HSB, að frumkvæði sænsku leigjendasamtakanna.

Forystumaður HSB fyrstu þrjá áratugina var arkitektinn Sven Wallander, sem átti stærstan þátt í því að HSB urðu - þegar á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar - ein öflugasta félagshreyfing Evrópu á sviði húsnæðismála. HSB var t.d. bein fyrirmynd norsku húsnæðissamvinnuhreyfingarinnar á fjórða áratugnum. Löngu seinna, þ.e. árið 1983, varð HSB meginfyrirmyndin að stofnum Búsetafélaganna hér uppi á Íslandi.

Eftir síðari heimsstyrjöldina átti sér um alla Evrópu stað mótun þeirrar húsnæðisstefnu sem átti eftir að verða ríkjandi allt til síðasta áratugar aldarinnar. Ísland var nánast eina undantekningin frá þessu, hér á landi fór slík stefnumótun fram mun seinna og hefur auk þess lengst af verið ærið brotakennd.

Í Svíþjóð stóð valið á milli áframhaldandi uppbyggingar húsnæðissamvinnufélaganna og stofnunar leiguíbúðafyrirtækja á vegum sveitarfélaganna, eins og t.d. hafði orðið ofan á í Bretlandi. Eining ríkti ekki um málið innan jafnaðarmannaflokksins og varð niðurstaðan í rauninni sú að bæði leið húsnæðissamvinnunnar og sveitarfélagaleiðin voru farnar samtímis.

Sumstaðar var áhersla lögð á byggingu leiguíbúða, sumstaðar voru húsnæðissamvinnufélögin öflugri. Á sjöunda áratugnum var eigendum búseturéttar hjá húsnæðissamvinnufélögum heimilað að selja þennan íbúðarrétt á frjálsum markaði, sem gert hefur að verkum að sænska búseturéttarformið er mun nær því að vera markaðskerfi heldur en hliðstætt kerfi hérlendis.

Ein milljón íbúða á 10 árum

Fyrir þingkosningarnar 1964 áttu jafnaðarmenn undir högg að sækja í kosningabaráttunni. Tage Erlander hafði þá verið forsætisráðherra í samfleytt 18 ár og stöðnunar gætti á sumum sviðum, m.a. þótti mörgum hægt miða í húsnæðismálum. Erlander svaraði með því að leggja fram stórfellda áætlun um byggingu einnar milljónar íbúða á árunum 1965-1975. Þrátt fyrir hrakspár tókst að standa við þessa áætlun; alls var á umræddu tíu ára tímabili lokið smíði 1.003.000 íbúða.

Með milljón nýjum íbúðum tókst að leysa helstu vandamálin sem tengdust íbúðaskorti og útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Of lítil áhersla var hins vegar lögð á gæði húsnæðisins og helsti minnisvarðinn eftir "miljonprogrammet" er í dag einhæf fjölbýlishúsahverfi sem orðið hafa athvarf þeirra þjóðfélagshópa sem verst eru settir.

Húsnæðisstefna sænskra jafnaðarmanna hafnaði smátt og smátt, þrátt fyrir óumdeilanlega frábæran heildarárangur, í skotlínu gagnrýni frá jafnt hægri sem frá vinstri. Vinstrimenn gagnrýndu einkum einhæfan arkítektúr og borgarskipulag, hægrimenn ofstýringu og reglugerðaveldi.

Fyrri stjórn borgaraflokkanna, 1976-1982, hafði í raun haldið áfram hinni kratísku húsnæðispólitík er ríkt hafði síðan á fjórða áratugnum. Þegar fjögurra flokka borgaraleg ríkisstjórn Carls Bildts tók við völdum árið 1991 var hins vegar allt annað hljóð komið í strokkinn. Þrátt fyrir stutta valdasetu - aðeins frá 1991 til 1994 - tókst ríkisstjórn Bildts að stokka rækilega upp í sænskri húsnæðisstefnu.

Þetta tengdist án efa því að heimsmyndin var þegar hér var komið sögu orðin gerbreytt, frjálshyggjuhugsunin orðin ríkjandi í efnahagsmálum heimsins og ríkisforsjá jafnt í húsnæðismálum sem á öðrum sviðum félagsmála talin vera úrelt fyrirbæri. Horfið var frá stórfelldum niðurgreiðslum í húsnæðiskerfinu, húsnæðisráðuneytið var lagt niður og sérstaða húsnæðismála í efnahagskerfinu að mestu aflögð.

Til að gera langa sögu stutta má segja að sænskir jafnaðarmenn hafi frá 1994 á margan hátt haldið áfram þeim breytingum í húsnæðismálum sem stjórn Bildts hóf árið 1991. Áfram hefur verið dregið úr niðurgreiðslum og er nú svo komið að hið opinbera hefur meiri skatttekjur af húsnæðisgeiranum en sem nemur stuðningi ríkisins til málaflokksins.

Allra síðustu misseri hefur hins vegar umræðan aftur verið að beinast í þann farveg að þörf sé á virkari aðkomu hins opinbera en verið hefur á undanförnum árum.

Í þeim efnum er einkum horft til aðgerða er eflt geta leigumarkaðinn, einkum í stærri borgum og bæjum, þar sem félagsleg staða ákveðinna þjóðfélagshópa hefur verið að versna á undanförnum árum, þrátt fyrir bætt lífskjör og batnandi atvinnuástand meðal þorra sænsku þjóðarinnar.

Þeir tímar þegar húsnæðisstefnan var ein helsta kjölfesta hinnar víðfrægu sænsku velferðarstefnu tilheyra eigi að síður sögunni og munu vart eiga afturkvæmt á þeirri nýju öld er við nú lifum á.