Hamragarðar, Hávallagata 24.
Hamragarðar, Hávallagata 24.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hamragarðar, Hávallagata 24, hús sem SÍS byggði sem skólastjórabústað fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu, er til sölu núna hjá Fasteignamarkaðinum.

Hamragarðar, Hávallagata 24, hús sem SÍS byggði sem skólastjórabústað fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu, er til sölu núna hjá Fasteignamarkaðinum.

"Þetta hús er í eins konar nýklassískum stíl, síðbúnum," sagði Magnús Skúlason, forstöðumaður húsfriðunarnefndar, um húsið Hávallagötu 24, Hamragarða, sem er teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

"Það er einfalt að gerð en um leið með nokkuð klárri grunnmynd. Guðjón teiknaði annað hús af þessu tagi sem stendur í Hafnarfirði. Þetta hús hefur mikið varðveislugildi sem hluti af okkar byggingararfleið og ber að fara um það nærfærnum höndum og gæta vel að uppruna þess og ekki gera áþví neinar þær breytingar sem skaða mundu upphaflegt byggingarlistarlegt gildi. Guðjón Samúelsson á mjög stóran hlut í okkar byggingarsögu sem arktitekt og fyrsti eiginlegi húsameistari ríkisins. Hann hefur teiknað gríðarlega mikið af húsum um allt land, skóla, kirkjur og íbúðarhús. Mörg þeirra hafa þjónað mjög vel sínu hlutverki."

Nútímalegt hús

"Jónas réð miklu um hvernig þetta hús var teiknað. Hamragarðar eru í raun mjög nútímalegt hús. Stíllinn og útfærsla á gluggum er klassík," sagði Pétur Ármannsson arkitekt.

"Guðjón Samúelsson hafði ekki teiknað íbúðarhús í rösk 10 ár þegar hann teiknaði Hávallagötu 24, eina undantekning er þetta hús og Hofsvallagata 1 sem hann teiknaði fyrir Vilhjálm Þór, hann teiknaði sem sagt fyrir þessa tvo forystumenn samvinnuhreyfingarinnar og það gerir þessi hús sérstök.

Mér finnst þetta fallegt og reisulegt hús. Það er skemmtileg minning um sinn höfund og eiganda og sérstakt af því það var teiknað sem heimili fyrir mikinn stjórnmálaleiðtoga. Guðjón teiknaði raunar mjög fá einbýlishús síðari hluta starfsævi sinnar. Hávallagatan er og ein fallegasta gata Reykjavíkur og þetta hús setur mikinn svip á hana."

Húsið á Hávallagötu 24 var sem fram hefur komið teiknað af Guðjóni Samúelssyni, en hann og Jónas frá Hriflu voru einkavinir. Hamragarðar voru byggðir sem skólastjórabústaður fyrir Jónas af Sambandi íslenskra samvinnufélaga, til þess m.a. að Samvinnuskólinn fengi húsnæðið sem Jónas og kona hans höfðu búið í í húsnæði skólans á Sölvhólsgötu. Jónas og kona hans Guðrún Stefánsdóttir fluttu í Hamragarða, eins og þau nefndu þetta glæsilega hús, árið 1941 og þar andaðist Jónas 1968. Ýmis starfsemi var í húsinu eftir lát Jónasar, m.a. hafði Búseti þar skrifstofur og Nemendasamband Samvinnuskólans var í kjallara þess. Þegar Búseti fór með starfsemi sína úr húsinu kom til greina að Framsóknarflokkurinn keypti það undir skrifstofur en af þeim kaupum varð ekki. Þá keypti Sighvatur Bjarnason úr Eyjum húsið en seldi það fljótlega aftur. Núverandi eigandi er Elfar Aðalsteinsson.

Stórglæsilegt og endurnýjað hús

"Þetta er stórglæsilegt og svo til algjörlega endurnýjað einbýlishús með aukaíbúð í kjallara," sagði Jón Guðmundsson hjá Fasteignamarkaðinum.

"Húsið er 352,3 fermetrar, steinsteypt og því fylgir frístandandi 27 fermetra bílskúr.

Í forstofu er náttúrugrjót á gólfi og þar eru skápar. Holið er stórt og parketlagt. Í gestasnyrtingu við hol er gluggi, náttúrugrjót á gólfi og ný tæki. Eldhúsið er stórt og parketlagt með nýjum og vönduðum eikarinnréttingum og graníti á borðum, þar eru sérlega vönduð tæki. Stofurnar eru stórar og samliggjandi með parketi á gólfum. Þaðan er útgangur út á svalir og svo út á lóðina. Stórt húsbóndaherbergið er parketlagt og þar eru fastar hillur með innfelldri lýsingu.

Fallegur, breiður, sérsmíðaður viðarstigi er upp á efri hæð.

Á efri hæð er parketlagður stigapallur og stórt parketlagt herbergi með skápum. Baðherbergið er með flísalögðu gólfi, glugga, góðum skápum, nýjum tækum og sturtuaðstöðu.

Þar er og stórt parketlagt barnaherbergi. Mjög stórt hjónaherbergið er með svölum út til suðurs. Stórt parketlagt baðherbergi er inn af hjónaherbergi með stórum flísalögðum sturtuklefa, frístandandi baðkari, glugga og innréttingu. Fataherbergi er inn af baðherbergi með vönduðum innréttingum.

Í kjallara er bæði innangengt og í hann sérinngangur. Þar er séríbúð sem skiptist í gang, eldhús, baðherbergi, stóra stofu, tvö stór herbergi, fataherbergi og tvær geymslur. Allt parket á húsinu er olíuborið eikarparket og allar innréttingar mjög vandaðar. Ásett verð hússins er 60 millj. kr."