Alvarlegt flugatvik yfir Grænlandi FLUGVÉL Flugfélags Jórvíkur, Cessna 404, lenti í byrjun ágúst í alvarlegu flugatviki yfir Grænlandi er hún var þar í leiguflugi. Um borð voru níu farþegar auk flugmanna.

Alvarlegt flugatvik yfir Grænlandi

FLUGVÉL Flugfélags Jórvíkur, Cessna 404, lenti í byrjun ágúst í alvarlegu flugatviki yfir Grænlandi er hún var þar í leiguflugi. Um borð voru níu farþegar auk flugmanna. Atvikið er til rannsóknar hjá flugmálayfirvöldum í Danmörku. Talið er að flugvélin hafi lent í mikilli ísingu yfir austurströnd Grænlands. Við það hafi hún fallið úr þrettán þúsund fetum í tvö þúsund fet.

Stórtjón í eldsvoða

ALLT slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um kl. þrjú sl. miðvikudag eftir að eldur kviknaði í lager í kjallara húss númer níu við Fákafen í Reykjavík. Fljótlega varð mikið reykhaf í kringum húsið og nágrenni þess. Á annan tug verslana hefur ýmist verslunar- eða lageraðstöðu í húsinu, auk þess sem Reykjavíkurborg hefur þar geymsluhúsnæði undir listaverk í eigu Listasafns Reykjavíkur. Talið er að tjón vegna brunans nemi mörg hundruð milljónum króna. Meira en sólarhring tók að slökkva eldinn. Í fyrstu var óttast að listaverkin hefðu eyðilagst í eldinum en í ljós kom að ástand þeirra var betra en búist var við. Þau virðast að mestu heil.

Aðgerðir vegna gjaldþrots Nanoq

FORSVARSMENN hóps birgja sem eiga tugmilljónakröfur í þrotabú Íslenskrar útivistar ehf. (Nanoq) hafa ákveðið að stefna stjórnarmönnum Íslenskrar útivistar fyrir dóm í þeim tilgangi að láta reyna á ábyrgð þeirra. Þá hyggjast þeir óska eftir rannsókn á því hvort skilasvik hafi átt sér stað.

Skiptastjóri þrotabús Nanoq og Rekstrarfélag Nanoq hafa komist að samkomulagi um að kaupverð óveðsettra lausafjármuna og verðmæta sem féllu undir kaupsamning þessara aðila skuli vera 24 milljónir kr.