JÓN G.

JÓN G. Tómasson, formaður stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, segir að niðurlagsorð greinargerðar Sigurðar Líndals prófessors, sem unnin var að beiðni stjórnar SPRON, þess efnis að stjórninni sé óheimilt að samþykkja framsöl á stofnfjárbréfum, gildi eingöngu um þann eina samning sem hafi verið til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu, þ.e.a.s. samning Búnaðarbankans og fimmmenninganna.

Í niðurlagsorðum greinargerðar Sigurðar segir orðrétt: "Það verður því ekki séð að stjórninni sé heimilt að samþykkja framsöl á stofnfjárbréfum samkvæmt tilboði umsækjenda, enda ber henni að gæta þess í hvívetna að lögum sé fylgt og þá jafnframt hagsmuna sparisjóðsins."

Aðspurður hvort ástæða sé til að ætla að annað gildi um tilboð starfsmannasjóðsins en tilboð fimmmenninganna sagðist hann ekki hafa hugmynd þar um. Um það yrði Fjármálaeftirlitið að segja.