[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SKIPULAG og framtíð miðborgar Reykjavíkur hefur verið ofarlega á döfinni undanfarin misseri, en ekki eru allir sammála um hvað leiðir séu vænlegastar til að efla gamla miðborgarkjarnann, hjarta höfuðborgarinnar.

SKIPULAG og framtíð miðborgar Reykjavíkur hefur verið ofarlega á döfinni undanfarin misseri, en ekki eru allir sammála um hvað leiðir séu vænlegastar til að efla gamla miðborgarkjarnann, hjarta höfuðborgarinnar. Skemmst er að minnast deilna um framtíð flugvallarsvæðisins í Vatnsmýri, ágreinings um staðsetningu Listaháskóla Íslands og umræðu um kosti og galla fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn. Óánægja kaupmanna í miðborginni vegna stöðumælagjalda, auk neikvæðrar umfjöllunar í tengslum við skemmtistaði á þessu svæði, hefur orðið til þess að skerpa málefnalega umræðu, ekki síður en að afhjúpa mikilvægi þess að marka miðborgarmálum viðunandi stefnu.

Hvað slíka stefnumótum varðar er þó nauðsynlegt að hafa í huga að á síðustu 15 árum hefur hlutverk miðborgarinnar breyst mikið í takt við breytt samfélagsmynstur. Kröfur um fjölbreyttari veitingahús, samkeppni við verslunarmiðstöðvar og áhugi ungs fólks á búsetu í miðborginni eru allt samfélagslegir þættir sem taka þarf tillit til við stefnumörkun í skipulagsmálum, auk þess sem miðborgin verður að standa undir auknum væntingum erlendra gesta og þjóðarinnar allrar sem menningarleg höfuðborg er staðið geti jafnfætis erlendum borgum án þess þó að glata sérkennum sínum.

Ef litið er yfir þróun Reykjavíkur, skipulags- og byggingarsögu hennar kemur í ljós að þær umræður sem nú fara fram um framtíðarskipulag Reykjavíkur hafa staðið með litlum hléum í rúma öld - eða allt frá byrjun tuttugustu aldar er Reykvíkingar gerðu sér í fyrsta sinn grein fyrir þeirri staðreynd að borgin sigldi hraðbyri inn í nútímann sem höfuðborg þjóðarinnar. Umskiptin voru mjög snögg og framfarirnar miklar; vatnsveitan komst í gagnið 1909, Gasstöðin 1910 og stórframkvæmdir við höfnina hófust 1913, en þær urðu undirstaða öflugs atvinnulífs í Reykjavík. Fólksfjöldinn í höfuðstaðnum margfaldaðist á örfáum árum, var aðeins 2.000 manns árið 1876, svo tæplega 6.000 aldamótaárið 1900, en var kominn í rúmlega 14.000 fimmtán árum seinna.

Í bók sinni "Reykjavík, vaxtarbroddur, þróun höfuðborgar" bendir Trausti Valsson arkitekt og skipulagsfræðingur á þau tímamót sem verða við brunann mikla í Reykjavík árið 1915, en þá urðu mörg stór og nýleg timburhús eldi að bráð er ógnaði í reynd öllum miðbænum. Í kjölfar brunans hófst mikil umræða um skipulag bæjarins og var mönnum mikið í mun að koma í veg fyrir að slíkur atburður gæti endurtekið sig. Einn þeirra sem mest létu til sín taka í skipulagsmálum þessa tíma var Guðmundur Hannesson læknir sem árið 1916 gaf út bókina "Um skipulag bæja", en hún var undirstaða frumvarps til laga árið 1917 er að lokum var samþykkt með breytingum 1921. Hann átti síðan eftir að sitja í skipulagsnefnd ríkisins um langt skeið, m.a. með Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins, sem strax árið 1912 tjáði sig um skipulagsmál í grein sinni "Bæjarfyrirkomulag", en þeir Guðmundur og Guðjón settu báðir mark sitt á höfuðborgina þótt það hafi verið með ólíkum hætti.

Sérstaða

vegna ungs

aldurs og legu

Arkitektinn Alfred Raavad, hálfbróðir Thors Jensens, skrifaði einnig um skipulagsmál um þetta leyti, og kom fyrstur manna fram með mótaðar hugmyndir um framtíðarþróun Reykjavíkur. Í bók Trausta kemur fram að meginatriði í hugmyndum Raavads hafi verið "að borgin ætti að byggjast og þéttast á milli byggðakjarna Reykjavíkur og Hafnarfjarðar [...]. Í samræmi við það gerði Raavad m.a. ráð fyrir miðbæ nálægt miðju svæðinu, við Skerjafjörð, og stjórnhverfi og dómkirkju á Öskjuhlíð, sem yrði þá nokkurs konar Akrópólíshæð." Þessar hugmyndir Raavads um Vatnsmýrina eru ekki síst athyglisverðar í ljósi umræðunnar um flugvallarsvæðið á síðasta ári, þar sem margir urðu til þess að benda á hversu mjög flugvöllur á þessum stað hefði hamlað eðlilegri þróun miðborgarinnar. Eftir kosningarnar sem fram fóru á síðasta ári um framtíð flugvallarins virðist fátt geta komið í veg fyrir að hann verði látinn víkja í náinni framtíð, og því hefur þar skapast aukið svigrúm til framtíðarskipulags sem fyrir löngu hefði átt að verða að veruleika, og hefur alla burði til að styrkja miðborgina til mikilla muna ef vel er að því staðið.

Í viðtali við Þorvald S. Þorvaldsson borgararkitekt, sem birtist hér í blaðinu í janúar síðastliðnum, reifar hann nokkuð sérstöðu Reykjavíkur sem borgar, sérstöðu sem markast af því hversu ung borgin er öfugt við flestar þær borgir sem við þekkjum best í nágrannalöndum okkar. Hann lítur þessa sérstöðu jákvæðum augum og varar við því að móta byggð í Vatnsmýrinni eftir erlendum fyrirmyndum með háum húsum í "randbyggð". Hann telur fremur að við eigum að horfa á þær fyrirmyndir sem mótað hafa sérkenni íslenskrar byggðar hingað til og álítur þann þorpsbrag sem þar er að finna notalegan. Rökin sem Þorvaldur færir gegn byggingu hárra húsa eru óneitanlega skynsamleg, en þau byggjast á því hversu sól er hér lágt á lofti stóran hluta ársins: "Með slíkum byggingum og inngörðum milli þeirra eru menn hreinlega að búa til myrkvun stóran hluta ársins. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við getum ekki byggt eins og aðrar þjóðir og við eigum heldur ekki að gera það. Við verðum að taka tillit til þess að við erum stödd norðarlega á hnettinum og því verðum við að byggja borg sem hentar þeim aðstæðum og okkur sjálfum," segir Þorvaldur.

Þótt þróunarsaga Reykjavíkur hafi allt fram undir 1970 mótast mjög sterkt af hugmyndum um háreistar byggingar líkt og í öðrum borgum, þar sem gert var ráð fyrir að eldri reykvísk byggð viki, hefur orðið mikil breyting þar á. Málun Bernhöftstorfu árið 1973 markaði líklega formlegt upphaf húsfriðunarátaks sem orsakaði hugarfarsbyltingu meðal Íslendinga og nú er svo komið að flestir líta á gömul hús sem mikilsverða arfleifð sem vert er að varðveita. Mörg gömul hús sem komin voru í niðurníðslu í miðborginni hafa verið gerð upp og hafa þannig endurheimt fyrri glæsileika sem mótar sterkt ásýnd kvosarinnar, gamla vesturbæjarins og Þingholtanna. Það er því ljóst að fleiri en Þorvaldur hafa í seinni tíð viljað ýta undir jákvæðar hliðar þess þorpsbrags sem ætíð hefur einkennt Reykjavík. Hugmyndir um að móta nýrri byggð að því sem fyrir er, svo byggingarsögulegt samhengi og handverkshefð njóti sín eftir því sem kostur er, hafa fengið byr undir báða vængi.

Laugavegurinn, lífæð miðborgarinnar

Aðalverslunaræð miðborgarinnar, Laugavegurinn, hefur orðið nokkuð útundan í ofangreindri skipulagsumræðu þótt löngu sé orðið tímabært að huga þar að uppbyggingu. Laugavegurinn er og hefur ætíð verið lífæð miðborgarinnar og þeirrar margháttuðu starfsemi sem þar þrífst, en nú má þar víða sjá illa nýtta reiti í óviðunandi niðurníðslu.

Í apríl síðastliðnum skilaði starfshópur um endurmat á deiliskipulagi við Bankastræti og Laugaveg tillögum sínum um framtíðarskipulag þessarar helstu verslunaræðar miðborgarinnar, en tillögurnar eru veigamikill áfangi í endurmati á hlutverki og nýtingu svæðisins. Í hópnum áttu sæti Árni Þór Sigurðsson, formaður skipulags- og byggingarnefndar, Bolli Kristinsson kaupmaður, sem töluvert hefur látið til sín taka í umræðu um miðborgina, Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri miðborgar, Jóhannes S. Kjarval, skipulags- og byggingarsviði, og Pétur H. Ármannsson arkitekt, sem starfar við byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur. Í endurmati hópsins á deiliskipulaginu er farið í saumana á ásýnd og yfirbragði Laugavegar sem verslunargötu "þar sem sjónarmið uppbyggingar og varðveislu haldast í hendur", eins og segir í skýrslunni.

Höfundar hennar leggja áherslu á mikilvægi þess að gera "Laugavegssvæðið að aðlaðandi kosti til fjárfestingar í verslunar-, atvinnu- og íbúðarhúsnæði með því að eyða óvissu um skipulag og skapa svigrúm í skipulagi til þróunar og uppbyggingar". Þá er það sömuleiðis mat hópsins að "unnt sé að skapa verulegt svigrúm til nýrrar uppbyggingar við Laugaveg án þess að fórna byggingarsögulegum sérkennum götunnar og þeim lykilbyggingum fyrri tíðar sem mest gildi hafa fyrir ásýnd hennar". Jafnframt leggur hópurinn áherslu á það meginsjónarmið að hæð bygginga við sunnanverðan Laugaveg taki mið af því að hægt sé að njóta sólar á götunni eftir föngum, en við norðurhluta Laugavegar er gert ráð fyrir hærri og samfelldari byggingum sem væntanlega munu þá veita skjól fyrir veðri og vindum. Það er því ljóst að rótgróin sérkenni byggingarsögu borgarinnar og landfræðileg lega hennar hafa verið höfð að leiðarljósi við vinnu starfshópsins og er það lofsvert.

Bæti umhverfið en skaði ekki

Eins og fram kemur í fylgiskjali með niðurstöðum starfshópsins, "Stefnumörkun um húsvernd - þemahefti", telur vinnuhópurinn að í einhverjum tilvikum kunni að vera nauðsynlegt að víkja frá settum verndunartillögum á Laugavegssvæðinu til þess að "skapa svigrúm fyrir nýja uppbyggingu er miðaði að því að treysta Laugaveginn í sessi sem aðalverslunargötu borgarinnar". Þannig er meiri áhersla lögð á varðveislu eldri húsa sunnan götunnar en norðan hennar, þar eru fleiri varðveisluverð hús auk þess sem auðveldara er að skapa nauðsynlegt bakland fyrir öfluga verslunargötu Hverfisgötumegin en Grettisgötumegin. Gert er ráð fyrir varðveislu gamalla hornhúsa sem kennileita upp með götunni, sérstaklega þar sem þau mynda tengingu við hliðargötur og heilsteypta byggð eldri húsa. Höfundur þemaheftisins, Pétur H. Ármannsson arkitekt, leggur jafnframt áherslu á að það sé mat hans að sérstaða Laugavegarins liggi "öðru fremur í þróun hans sem mikilvægrar verslunargötu á 20. öld", því margar aðrar götur í gamla bænum státi af heilsteyptari götumyndum. Hann nefnir sérstaklega Þingholtsstræti, Miðstræti og Vesturgötu, en þangað telur hann að mætti flytja gömul hús til að fylla upp í eyður og varðveita þá lágreistu götumynd timburhúsa frá 19. öld sem þar er enn til staðar.

Þau hús sem mest hafa mótað yfirbragð Laugavegarins eru stærri timbur- og steinhús frá fyrri hluta 20. aldar, hönnuð sem hluti af samfelldri byggð. Telur Pétur að þau eigi að gefa "fordæmi að mælikvarða, stærðarhlutföllum og mögulega útlitseinkennum nýrrar byggðar við götuna, einkum sunnan hennar", enda megi þannig koma í veg fyrir að "andi" hennar glatist. Hann tekur fram að grundvallarforsenda við mat á því hvort eldra hús eigi að víkja vegna uppbyggingaráforma sé sú að "það sem kemur í staðinn bæti umhverfið en skaði það ekki". Þessi varnagli Péturs er mjög mikilvægur enda alltof mörg dæmi um seinni tíma byggingar í miðborg Reykjavíkur sem hvorki bæta umhverfi sitt né standa undir fagurfræðilegum kröfum ein og sér. Slík hús stinga ávallt í stúf og draga mikið úr gildi heildarmyndarinnar þegar til lengri tíma er litið. Því er full ástæða til að taka undir þau orð Péturs að athugandi sé "hvort íbúar og verslunareigendur við götuna ættu að hafa umsagnarrétt um útlit nýrra húsa, líkt og tíðkast í grónum hverfum víða erlendis [...] þar sem litið er á heildaryfirbragð umhverfis sem sameiginlegt hagsmunamál allra". Einnig mætti hugsa sér að skipa nefnd fagmanna sem væru umsagnaraðilar um teikningar að nýbyggingum á þessu viðkvæma svæði, enda algjört skilyrði að uppbygging mótist af þeirri byggingarsögulegu og fagurfræðilegu yfirsýn er dugar til að tryggja að ný hús falli vel að því sem fyrir er.

Ljóst er að seint verða allir á eitt sáttir um uppbyggingu við Laugaveg, en þó virðist sem starfshópurinn um endurmat á deiliskipulaginu þar hafi ratað nokkuð vandfarinn meðalveg. Út frá ströngustu sjónarmiðum um varðveislu má vissulega gagnrýna ákvarðanir varðandi einstök hús sem nefndin telur í lagi að víki, en ekki má þó gleyma að möguleikinn á að flytja þau hús á aðra staði í miðborginni þar sem þau samræmast götumyndinni betur og þjóna sínu upprunalega hlutverki sem íbúðarhús er ætíð fyrir hendi. Þær áherslur sem koma fram í niðurstöðum nefndarinnar eru skynsamlegar og nútímalegar að því marki sem þær miðast við að halda í heiðri sérkenni reykvískrar byggðar og þróa hana áfram án þess að stæla hugsunarlaust stórborgir er risið hafa á öðrum forsendum en okkar. Það er því afar brýnt að þessi uppbygging hefjist sem fyrst.

Félagslegir þættir mótunar miðborgarinnar

Ef takast á að byggja Laugaveginn og hliðargötur hans upp sem öfluga verslunargötu er myndað getur æskilegt mótvægi í miðborginni við verslunarmiðstöðvar segir sig sjálft að nauðsynlegt er að stýra þeirri atvinnustarfsemi sem þar fer fram af mikilli festu. Í því sambandi er eftirtektarvert að hagsmunir verslunarrekenda og íbúa virðast að mörgu leyti fara saman, en hins vegar stangast hagsmunir þeirra sem reka kaffihús iðulega á við hagsmuni verslunarrekenda og íbúa - en hér er átt við þau "kaffihús" sem betur færi á að kalla öldurhús þar sem mest er veitt af áfengi en ekki kaffi, auk þess sem starfsemin er öflugust síðla kvölds og eftir miðnætti. Veitingarekstur á að sjálfsögðu heima á þessu svæði, en hann þyrfti að vera mun fjölbreyttari en nú er og skilin á milli kaffihúsa, matsölustaða og skemmtistaða skýrari. Mörg þeirra "kaffihúsa" sem nú starfa í miðborginni starfa í raun eins og skemmtistaðir eða næturklúbbar, í það minnsta ef miðað er við afgreiðslutíma, en það er fáheyrt í erlendum borgum að venjulegar krár, hvað þá kaffihús, starfi framundir morgun. Þótt drykkjulæti og óspektir í miðbænum um nætur hafi vissulega orðið minna áberandi eftir að afgreiðslutími var rýmdur er nú svo komið að verslun og önnur starfsemi sem rekin er á daginn er víða tekin að hörfa undan þessum kaffihúsarekstri, þrátt fyrir að verslun eigi að vera í öndvegi í miðborginni samkvæmt Þróunaráætlun miðborgarinnar. Sem dæmi um þessa óheillaþróun má nefna þá samþjöppun öldurhúsa sem orðið hefur út frá Laugavegi við Klapparstíg, en þar eru þrjú kaffihús á lófastórum bletti, en verra dæmi er þó mikill fjöldi slíkra staða þar sem Þingholtsstræti og Ingólfsstræti mæta Laugavegi en þar eru einir sjö staðir sem allir verða að skemmtistöðum um miðnæturbilið á mjög þröngu svæði. Þar hefur enda hver verslunin á fætur annarri lagt upp laupana á undanförnum misserum auk þess sem nálægð þessara staða við gróna íbúðarbyggð í Þingholtunum skapar óneitanlega vanda.

Hagsmunir verslunarmanna og íbúa fara einnig saman hvað bílastæðamál varðar, en kaupmenn hafa lengi kvartað yfir stöðumælagjöldum og margir þeirra telja óréttlæti felast í því að bílastæðasjóður sé notaður sem tekjustofn til þess að byggja bílastæðahús. Rök þeirra eru m.a. þau að ekki sé sanngjarnt að þeirra viðskiptavinir borgi þessa uppbyggingu frekar en aðrir, svo sem viðskiptavinir veitinga- og kaffihúsa sem sækja í borgina á kvöldin, eða þeir sem þangað koma eftir afþreyingu af ýmsu tagi. Gjaldtaka á þessu svæði er vissulega mikilvæg forsenda þess að hreyfing sé á bílastæðum en þar sem bílastæðavandinn er ekki síður mikill er líður á kvöldin, í það minnsta um helgar, má vel velta því fyrir sér hvort hægt sé að koma til móts við umkvartanir kaupmanna með einhverjum hætti, til að mynda með því að lækka gjöldin töluvert en lengja gjaldskyldutímann á móti. Þannig mætti dreifa kostnaðinum af bílastæðaþjónustu í miðborginni á fleiri þeirra gesta sem sækja hana heim. Nýting stæðanna myndi einnig aukast til mikilla muna með aukinni hreyfingu yfir lengri hluta sólarhringsins, sem einnig kemur íbúum á svæðinu til góða.

Hlutur menningar í öflugri miðborg

Í sögulegu samhengi er Reykjavík enn mjög ung borg en sem betur hefur hún þó þróast þannig að töluvert svigrúm er til þess að gera hana að betri borg. Þar skipta menningarlegar forsendur ekki síst máli. Það sem borgir hafa upp á að bjóða umfram aðra þéttbýliskjarna felst fyrst og fremst í fjölbreytileika þess sem þar er í boði og tækifæra sem þróast í kjölfarið. Borgarsamfélagið er um margt lýsandi fyrir stórkostlegt hugvit og getu mannanna til uppbyggingar og skipulags, það er ekki einungis staður ætlaður til búsetu, heldur beinlínis sá kraftur sem knúið hefur siðmenninguna áfram. Með byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn verða stoðir borgarinnar styrktar til mikilla muna, en sú starfsemi sem þar á eftir að fara fram mun tvímælalaust efla Laugaveginn sem verslunar- og þjónustuæð. Sömuleiðis er mikilvægt að stofnun á borð við Listaháskólann fái aðsetur í miðborginni, þar sem Háskólinn, listasöfnin og menningarstarfsemin í heild stendur í mestum blóma. Listaháskóla fylgir mikill menningarlegur drifkraftur sem miðborgin á að njóta. Uppbygging þekkingarþorps í Vatnsmýrinni er einnig mikilsvert framlag til borgarsamfélagsins í Reykjavík, sem án efa á eftir að verða það gæfuspor er markar upphaf frekari þróunar miðborgarinnar þar - í þá átt sem eðlilegast þótti áður en flugvöllurinn kom til sögunnar og byrgði mönnum sýn. Hugmyndir um blandaða og fremur lágreista byggð þar eru vissulega í samræmi við sérkenni Reykjavíkur og vel við hæfi nú þegar hugmyndir um íslenskt borgarlandslag eru farnar að líta dagsins ljós.

Í bók sinni "Ósýnilegar borgir" segir ítalski rithöfundurinn Italo Calvino að "ekki megi rugla sjálfri borginni saman við þau orð sem notuð eru til að lýsa henni. En þó eru tengsl á milli þessara tveggja hluta". Það er vert að hafa orð hans að leiðarljósi í umræðum um miðborg Reykjavíkur; miðborgin er það afl sem knýr borgarsamfélagið á Íslandi áfram með sérkennum sínum, kostum og göllum. Umræðan um framtíð hennar lýtur öðrum lögmálum en borgin sjálf, en er þó ómetanlegt afl sem virkja má til þess að gera góða borg betri.