"Bringuhár fyrir konur."
"Bringuhár fyrir konur."
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lene Zachariassen er fædd í Noregi, sleit barnsskónum í Afríku og býr nú á Dæli í Skíðadal. Guðni Einarsson og Ragnar Axelsson heimsóttu Lene og skoðuðu Skruggu, handverksiðju þar sem góðir hlutir eru gerðir hægt.

Í gömlu minkahúsi í Skíðadal, inn af Svarfaðardal, blasa við sútuð skinn af norrænum skepnum á borð við hesta, nautgripi, sauðfé, refi, hreindýr, sauðnaut, seli, geitur, kanínur, hvítabirni, minka og mýs. Skinnin hafa verið sútuð í Skruggu sf. þar sem beitt er aldagömlum aðferðum við sútun leðurs og loðskinna. Hugviti og handverki er beitt til að gera fallega gripi úr hráefni sem oftar en ekki fer forgörðum. Þar má sjá reipi og gjarðir úr hrosshári, bandhespur úr margs konar hári, útskurð, trévörur, skrautmuni, skartgripi og nytjalist.

Lene Zachariassen er bóndakona á Dæli í Skíðadal og vinnur í Skruggu þegar tóm gefst til. Samstarfskona hennar, Beate Stormo, var í barnsburðarleyfi þegar okkur bar að garði. Þá hefur Barbara Kepinski frá Þýskalandi unnið í Skruggu í vetur.

Noregur, Líbería, Ísland

Lene kom fyrst hingað til lands 1981. Hún er frá Tønsberg við Oslóarfjörð en flutti sex ára gömul með foreldrum sínum og tveimur systkinum til Líberíu í Afríku. "Við bjuggum þar í sex ár," segir Lene. "Þá var ástandið í góðu lagi - nema það var togstreita á milli þeirra sem þar höfðu búið frá fornu fari og afkomenda leysingjanna sem komu úr þrælahaldinu í Ameríku.

Við bjuggum í alþjóðlegu hverfi þar sem börn af mörgu þjóðerni, svört og hvít og gul, léku sér saman. Samskiptamálið var léleg enska og í skólanum var kennt á ensku. - Ég er nokkuð góð í lélegri ensku," segir Lene.

"Ég fyrirgaf foreldrum mínum seint að við skyldum flytja aftur til Noregs. Mér líkaði ekki í Noregi þegar við snerum til baka. Þar var ekki lengur minn staður."

Lene segir að þetta óyndi hafi orðið til þess að sig hafi langað til að gera eitthvað - bara eitthvað. Hún setti stefnuna á myndlistarnám, en áður en af því varð fór hún til Íslands. "Ég kom hingað í Svarfaðardal að vinna á sveitabæ. Kunni ekki orð í íslensku og var lengi að læra málið."

Lene fannst hún þurfa að gera eitthvað annað í frístundum en að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp. "Ég skildi hvort eð er takmarkað í málinu. Svo ég fór að spyrjast fyrir um gömul vinnubrögð og komst að því að fæstir kunnu þau lengur. Hins vegar mundi fólk gjarnan eftir því að pabbi þess eða mamma hafði fengist við þá iðju sem ég spurði um. En mér tókst að grafa ýmislegt upp og lærði alltaf meira og meira." Lene hefur víðar leitað sér fróðleiks um gamlar aðferðir við ullar- og skinnaverkun. Farið í bækur og skoðað söfn. Leitað þekkingar sem var útbreidd, en nú að glatast.

Lene byrjaði á ullinni, en svo opnuðust augu hennar fyrir því að það voru fleiri áhugaverð hráefni til. Hún fór að velta því fyrir sér hvort það væri ekki gaman að súta skinn. "Það var haldið námskeið á Hvanneyri þar sem við lærðum að slátra kanínum, súta skinnin og borða kjötið," segir Lene um hvernig hún byrjaði að súta. "Mér voru gefin nokkur geitarskinn. Ég rakaði af öllum, nema einu, og ætlaði að spinna úr geitarullinni. Svo tímdi ég ekki að henda skinnunum og ákvað að prófa að súta þau."

Lene segir að síðan hafi sútunin undið upp á sig, líkt og snjóbolti. "Þetta verður aldrei leiðinlegt. Það er skemmtilegt að halda í gamlar hefðir og laga þær að nútímanum."

Lene og bóndi hennar eiga þrjú börn og eru með kúabú. Hvenær gefst tími frá annasömum heimilis- og bústörfum til að sinna Skruggu?

"Það hafa allir þörf fyrir að gera eitthvað meira en hugsa bara um börn og bú. Það skiptir máli að hafa eitthvað skemmtilegt að gera. Maður þarf bara að finna sitt svið. Sumir fara á bingó!" Lene segir að sér leiðist að gera það sama og allir aðrir. "Þó maður sé að vinna samkvæmt aldagömlu handverki þá gefur það manni samt frelsi til að fara sínar eigin leiðir."

Í Skruggu er ekki sett fyrir sig þótt vinnan taki lengri tíma en hægt væri með nútíma vélabrölti. Lene sýnir okkur sköfur úr dýrabeinum sem notaðar eru til að skrapa holdrosann af skinnum. Sköfurnar eru gerðar að norrænni fyrirmynd. "Hér á Íslandi var skinnaverkun ekki jafn útbreidd og á Norðurlöndum. Skinn voru notuð hér aðallega í skinnskó og sjóklæði. Skinn í skóleður voru rökuð og hert og stundum lituð með blásteini."

Það vekur athygli að sjá drifhvít ísbjarnarskinn, kafloðnar sauðnautahúðir og uppstoppaða selkópa þarna í Skíðadal. Lene segir að þessi skinn hafi komið frá Austur-Grænlandi. Dalvík er vinabær Ittoqqortoormiit (Scoresbysunds) og þannig myndaðist skinnasamband yfir Grænlandssund. Í vetur fékk Lene ísbjarnarveiðimann í heimsókn sem hafði fellt dýr og skinnin sútuð í Skruggu.

Hirða það sem aðrir henda

Það er ekki óalgengt að til Skruggu sé leitað um loðsútun, bæði á gærum og húðum. "Veiðimennirnir koma með hreindýraskinnin á haustin og það er mjög skemmtilegt að fá þá í heimsókn. Maður fær að heyra veiðisögur og veit að skinnið fer heim til sín aftur."

Það eru þrjú ár síðan starfsemi Skruggu sf. hófst í gamla minkaskálanum og fyrsta hrosshúðin var sútuð þar. "Þá var ekkert rennandi vatn og við þurftum að bera það allt að og hita," segir Lene. Síðan hefur aðstaðan batnað mikið og nú er bæði rennandi vatn og rafmagn í Skruggu. Þegar Skinnaiðnaður á Akureyri lagði niður loðsútun á stærri húðum fengu þær í Skruggu töluvert af áhöldum, gamla spýtunarramma og skinnaklemmur. Við sútunina eru notuð efni á borð við alun, salt og fitur, auk króms í litlum mæli. Fara þau í sérstaka þró að lokinni notkun.

Úr skinnunum verða til fjölbreyttar vörur. Meðal annars eru saumuð teppi úr mislitum gærubútum. Aftan á gæruteppin og sútaðar gærur eru stimpluð einföld mynstur eða skrautmyndir, eins og þekkist hjá ýmsum fornum skinnaþjóðum. Stimplarnir eru gerðir eftir gömlum fyrirmyndum, m.a. rós sem Bólu-Hjálmar skar út og notaði mikið á sína smíðisgripi.

Beate er skurðhög og skar stimplana út. Eins hefur hún smíðað vandaða kistla að hætti Bólu-Hjálmars og skreytt þá útskurði og hrosshárshnýtingu. Kistlunum er lokað með listilega gerðri trélæsingu og í sumum er meira að segja leynihólf.

"Við hirðum það sem aðrir henda," segir Lene og sýnir okkur sútaða nautahala. Laglegir hærðir leðurvasar, líkastir höttum, reynast vera sútaðir nautspungar. Eins súta þær hrútspunga, sem áður þóttu vinsælir tóbakspungar. Meðal annars eru gerðar töskur fyrir vasapela úr pungunum og eins snyrtiveski fyrir konur. Lene hirðir kindahorn og leggi og notar við framleiðslu skrautmuna. Úr tólg eru steypt kerti og gerð sápa sem notuð er til að þvo gærurnar í.

En hvað skyldi taka langan tíma að súta stórt skinn?

"Það er misjafnt," segir Lene. "Það getur ráðist af því hvort er ófærð á vetrum, eða heyþurrkur á sumrin. En yfirleitt má reikna með fjórum til fimm vikum í allt ferlið."

Eldgömul tækni

Við leðursútunina er notuð eldgömul aðferð til að hreinsa hárin af skinnunum. Lene segir að bundið sé í afturskæklana á skinninu og það sett út í læk. Eftir fjórar til fimm vikur er hársrótin farin að rotna og þá er auðvelt að tína hárið af húðinni. Eftir það er hægt að skafa skinnið og búa til pergament, eins og notað var í skinnhandrit, eða súta með berki og fá þannig brúnt leður. Lene segir að sú aðferð hafi mikið verið notuð á Norðurlöndum. Hún sýnir okkur skinn, ótrúlega mjúkt og þægilegt viðkomu, og spyr af hverju við höldum að þetta sé? Okkur tekst ekki að geta upp á því og þá segir Lene að þetta sé húð af hvaltungu. Eins sýnir hún okkur silkihvíta og mjúka sútaða hvalsgörn.

Í sútunarstöðinni liggja skinn í bleyti í stórum körum. Lene dregur upp hrútsgæru á sútunarbekkinn, sem kallaður er "Emma klemma" og smíðaður að sænskri fyrirmynd. Hún tekur sköfu úr stórgripalegg og bregður henni á sandpappír til að skerpa bitið.

"Þetta er vont skinn að skafa," segir Lene og beitir sköfunni af krafti. "Það er miklu fastara á hrútunum en ánum. Svo er þetta ekki venjulegur hrútur heldur úr Hörgárdal. Þeir eru verstir." Lene segir að þetta sé ekki grín á kostnað nágrannanna. Það fari eftir fjárstofnum hve fast sé á skinninu. Tvískinnungar séu algengari á sumum stöðum en öðrum. Þá þarf að skafa tvö lög - sem sagt hræðileg skinn!

"Með beinsköfu er engin hætta á að fara í gegn," segir Lene og holdrosinn flettist af. Hún dregur upp grænlenskan ulu-hníf og sýnir okkur hvernig honum er beitt. Það er vandasamara því hnífurinn er beittur. Af nautshúð eru skafin um 10 kíló af holdrosa.

"Sumir koma og fá að súta skinnin sín sjálfir," segir Lene. "Þeir koma nokkrum sinnum áður en ferlinu lýkur. Eins hef ég verið með námskeið í flókagerð, hrosshársvinnu, jurtalitun og ullarvinnu. Oft eru þessi námskeið í samvinnu við aðra. Það stendur til að halda sútunarnámskeið þegar búið er að safna nógu mörgum nemum í hóp."

Ótakmarkað hugmyndaflug

Þær stallsystur snúa, eða slá, kaðla úr hrosshári og togi bæði með hefðbundinni íslenskri aðferð og svo mexíkóskri. Þær urðu sér úti um kennslumyndband sem sýndi hvernig Mexíkóar slá saman kaðla. Samkvæmt kennsluleiðbeiningum Mexíkóa er kaðalgerðin tilefni mikilla veisluhalda og skal kneyfa áfengi og kappreykja meðan kaðallinn er fléttaður. Þættirnir eru slegnir saman með snældu sem heitir "Vitleysingur". Beate smíðaði svo tækið sem notað er til að snúa saman kaðalinn. "Hún er listasmiður," segir Lene.

Á einum loftbitanum hanga garnlykkjur úr margs konar hári. M.a. af kameldýri, úr kúahlandslituðu þeli blönduðu kanínuhári, angórukanínugarn, garn úr geitarull, garn úr hárum af íslenskum hundi og úr refaþeli. Lene hefur líka spunnið úr mannshári. En á hún sér einhvern uppáhaldsefnivið?

"Það er nú svona sitt á hvað," segir Lene hóglát. "Mér finnst gaman að geta unnið allt frá örsmáum hlutum upp í eitthvað sem ég varla lofta. Að fá útrás fyrir tilfinningar mínar á hverjum tíma og þolinmæði. Þetta er tjáningar- og sköpunarþörf. Mér þykir gaman að sjá eitthvað verða til og helst að fylgja því eftir í gegnum allt ferlið. Það má vel taka sinn tíma að sjá eitthvað verða til."

Þegar mikil vinna hefur verið lögð í hlut verður hann hluti af skapara sínum. "Maður tímir varla að láta hlutina frá sér, en reynir þó að finna þeim góð heimili," segir Lene.

Ekki bara dauð dýr

Í Skruggu eru ekki bara hamir af dauðum dýrum heldur einnig lifandi dýr, kötturinn Sólovia, dúfur og mýs. "Músasjónvarpið" er búr áþekkt fiskabúri þar sem Lene elur hagamýs. Áður en köttur kom í Skruggu var þar töluverður músagangur. Villtu mýsnar, sem gengu utan búrsins, söfnuðust að búrinu og fylgdust með ættingjum sínum innan glersins.

"Það er gaman að hafa þessi lifandi dýr hér," segir Lene. "Margir tengja skinnin við dáin dýr og þykir þau ógeðsleg. En ég lít svo á að skinnin öðlist hér nýtt líf á eigin forsendum, þau geti komið að notum og glatt augað.

Minnstu skinnin sem Lene sútar eru af hagamúsum. Hún sýndi okkur sútaðan hagamúsarfeld sem búið var að setja upp á platta. "Þetta er ísbjörn fátæka mannsins," segir Lene. "Í haust var hér mikil músaplága og allt fullt af músum. Það dugði ekki að hengja upp músarskinn heldur komu þær hér inn og skoðuðu mýsnar í búrinu. Ég var farin að gefa villtu músunum við búrið, til að þær skemmdu síður með nagi. Þær stálu dúfnafóðri og svo gaf ég þeim piparkökuhús um jólin. Maðurinn minn varð svo að eitra fyrir þær og ég þurfti auðvitað að bjarga einhverju af þessu." Lene segir að hagamýsnar í búrinu verði aldrei gæfar, það sé eitthvað villt í huga þeirra sem aldrei verði tamið.

Ógeðslegar aðfarir

Lene hefur litað ullarband eftir gömlum aðferðum. Þegar hún lýsir ferlinu er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig einhver datt niður á þessar aðfarir til að byrja með. Það á til dæmis við um hárauða íslenska litinn á ullarbandi.

"Maður byrjar á að safna kúahlandi og láta það gerjast í tvær vikur á hlýjum stað. Svo litar maður ullina með fjallagrösum og leggur hana í hlandið. Lyktin er næstum því óbærileg! Svo þarf maður að velgja hlandið á hverjum degi og bæta fersku hlandi útí. Ullin er hengd upp svo súrefnið geti leikið sér í lyktinni. Þetta þarf að endurtaka á hverjum degi í fjórar til fimm vikur.

Það kemur ævinlega upp ákveðið vandamál. Kúnum er meinilla við að pissa í fötuna og eftir nokkra daga nota þær tækifærið þegar ég er hinum megin í fjósinu til að létta á sér. Þá verð ég að fá gestkomandi til að leika á þær og skella fötu undir bununa.

Eftir nokkrar vikur fer liturinn á bandinu að breytast. Fyrst koma dílar og allt í einu breytist liturinn og bandið verður hárautt."

Lene segir að það sé vel þekkt víða um lönd að nota þvag til litunar á bandi. Einhvern tímann hafi þvag úr ókynþroska drengjum verið notað til að fá bláan lit og í Noregi hafi verið safnað þvagi úr drukknum körlum til litunar. "Mér hefur dottið í hug að setja upp söfnunardalla hér meðfram þjóðvegunum um göngurnar," segir Lene og brosir.

gudni@mbl.is