Fjöldi fólks lagði leið sína á Fiskidaginn mikla á Dalvík í góðu veðri í gær og þáði veitingar frá fiskverkendum í sveitarfélaginu, auk þess sem boðið var upp á siglingu um Eyjafjörð og ýmislegt fleira.
Fjöldi fólks lagði leið sína á Fiskidaginn mikla á Dalvík í góðu veðri í gær og þáði veitingar frá fiskverkendum í sveitarfélaginu, auk þess sem boðið var upp á siglingu um Eyjafjörð og ýmislegt fleira.
FISKIDAGURINN mikli fór fram á Dalvík í gær, en dagurinn er framtak þeirra fiskverkenda sem á Dalvíkursvæðinu starfa.

FISKIDAGURINN mikli fór fram á Dalvík í gær, en dagurinn er framtak þeirra fiskverkenda sem á Dalvíkursvæðinu starfa. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Dalvík var farið að fjölga á tjaldstæðum bæjarins á föstudagskvöld, öll gistirými bæjarins upppöntuð og margir gistu í heimahúsum. Veðrið á Dalvík var gott í gær, skýjað en logn og tiltölulega hlýtt í veðri.

Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla, sagði í gær að markmiðið með fiskideginum, sem í ár var haldinn í annað sinn, væri að fólk kæmi saman, skemmti sér og borðaði fisk, en öllum landsmönnum væri boðið að taka þátt í deginum. Hann sagði að 60 manns stæðu í að grilla ofan í gesti fiskidagsins, en 85 þúsund matarskammtar voru búnir til á Dalvík í gær. Júlíus sagði að í tengslum við fiskidaginn væri hægt að fara í siglingu um Eyjafjörð og skemmtiatriði og margt annað væri í boði.

Hann sagði að aðstandendur fiskidagsins gerðu ráð fyrir að allt að 12.000 manns myndu sækja Dalvík heim á fiskidaginn, en í fyrsta sinn sem dagurinn var haldinn voru þátttakendur um 6.000.