Alan Greenspan
Alan Greenspan
ALAN Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, fagnar því í dag, sunnudag, að hafa setið fimmtán ár í embætti. Þó að hann sé orðinn 76 ára þykir Greenspan enn í fullu fjöri og núgildandi ráðningarsamningur hans rennur ekki út fyrr en árið 2004.

ALAN Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, fagnar því í dag, sunnudag, að hafa setið fimmtán ár í embætti. Þó að hann sé orðinn 76 ára þykir Greenspan enn í fullu fjöri og núgildandi ráðningarsamningur hans rennur ekki út fyrr en árið 2004. Getgátur eru þó uppi um að Greenspan vilji hverfa fyrr úr starfi enda telji hann óheppilegt að skipt sé um seðlabankastjóra á sama ári og forsetakosningar eru haldnar í Bandaríkjunum.

Greenspan er gjarnan nefndur næstvaldamesti maðurinn í Bandaríkjunum, ef ekki í heiminum öllum. Þykir Bandaríkjaforseti einn vera valdameiri en Greenspan og felst skýringin á þessu ekki aðeins í þeirri stöðu, sem Greenspan gegnir, heldur einnig í því trausti sem til hans persónulega er borið.

Greenspan er m.a. þakkað fyrir að hafa bjargað heiminum frá mikilli efnahagskreppu árið 1987 er hann brást skjótt og vel við hruni á mörkuðum, og þá er hann einnig talinn hafa brugðist rétt við efnahagsvandanum sem reið yfir ýmis ríki heims 1997-1998. Loks telja menn Greenspan hafa brugðist rétt við hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin 11. september sl. en hann hefur ítrekað lækkað vexti til að tryggja stöðugleika á mörkuðum.

Telja þó reyndar sumir að Greenspan hefði átt að vera búinn að lækka vexti fyrir 11. september enda hafi efnahagur Bandaríkjanna þegar verið í niðursveiflu.

Leitin að eftirmanni hafin

Það eru ekki Bandaríkjamenn einir sem kunna að meta verk Greenspans. Þannig var tilkynnt í Bretlandi í vikunni að Elísabet Englandsdrottning myndi sæma hann riddaratign fyrir vel unnin störf í þágu alls alheims. Greenspan mun að vísu ekki geta kallað sig "Sir Alan", þar sem hann er ekki breskur ríkisborgari, en heiðurinn, sem honum er sýndur með þessu, þykir eigi að síður mjög mikill.

Það var í forsetatíð Ronalds Reagans sem Greenspan var skipaður seðlabankastjóri. Áður hafði hann verið Richard Nixon og Gerald Ford til ráðgjafar í efnahagsmálum. Hann þykir afar grandvar maður og eru ræður hans ávallt hnitmiðaðar og varlega orðaðar enda er Greenspan ljóst að hver ummæli, sem hann lætur hafa eftir sér, geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á Wall Street og öðrum mörkuðum.

Fréttaskýrendur segja ljóst að ekki verði auðvelt að feta í fótspor Greenspans. Margir hafa þó verið nefndir til sögunnar sem hugsanlegir eftirmenn hans; þ.ám. Lawrence Lindsey, aðalhagfræðingur Hvíta hússins, John Taylor aðstoðarfjármálaráðherra og Robert Rubin, sem var fjármálaráðherra í forsetatíð Bills Clintons.

Washington. AFP.