MENGUNARVARNIR norska ríkisins, SFT, hafa gert útgerð Guðrúnar Gísladóttur KE-15, Festi hf., að fjarlægja alla olíu úr skipinu, um 300 tonn, í allra síðasta lagi í lok september.

MENGUNARVARNIR norska ríkisins, SFT, hafa gert útgerð Guðrúnar Gísladóttur KE-15, Festi hf., að fjarlægja alla olíu úr skipinu, um 300 tonn, í allra síðasta lagi í lok september. Festi hafði áður boðist til að fjarlægja um 90% olíunnar um borð í skipinu, sem sökk við strendur Lófóten um miðjan júní, en SFT vill að öll olían verði fjarlægð.

Þá hefur útgerðin fengið frest þar til í lok næstu viku til að gefa skýrslu um það hvort skipskrokkurinn geti staðið af sér vetrarveðrið á Lófóten. Björn Bratfoss, yfirverkfræðingur SFT, segir að sú skýrsla muni hafa áhrif á það hvort norsk yfirvöld muni krefjast þess að farmur í lest skipsins, um 900 tonn af síld, verði einnig fjarlægður. Í byrjun mánaðarins skilaði lögfræðifyrirtæki íslensku útgerðarinnar skýrslu um hugsanleg umhverfisáhrif af völdum skipsins, sem einkafyrirtæki í Tromsö, sem sérhæfir sig í athugunum á umhverfisáhrifum, gerði. Þar var mælt með því að olían yrði fjarlægð sem fyrst en töldu skýrsluhöfundar að engin hætta stafaði af farmi skipsins.

Segir Bratfoss að ef útgerðin verði ekki búin að gera ráðstafanir til að fjarlægja olíuna í lok september muni SFT að öllum líkindum ráðast í þær framkvæmdir og senda íslensku útgerðinni reikninginn.

Gunnar Felixson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, segir aðspurður að eitt tilboð hafi borist frá norskum aðila í skipsflakið. Tryggingamistöðin hafi á hinn bógin ekki tekið afstöðu til tilboðsins.