SAMKVÆMT nýlegu áliti nefndar sem starfar á grundvelli 27. gr.

SAMKVÆMT nýlegu áliti nefndar sem starfar á grundvelli 27. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gerði ríkislögreglustjóri rétt í því að víkja aðalvarðstjóra hjá ríkislögreglustjóra tímabundið úr starfi vegna rannsóknar á meintu umferðarlagabroti hans. Grunur er um að hann hafi notað einkabifreið sína með áfestum skráningarmerkjum þrátt fyrir að bifreiðin hafi verið tekin af skrá og þannig hafi hann komið sér undan greiðslu tryggingariðgjalda og annarra gjalda.

Aðalvarðstjórinn, sem starfaði um nokkurra mánaða skeið í umferðardeild ríkislögreglustjóra, var stöðvaður við venjulegt eftirlit lögreglunnar í Reykjavík 25. janúar sl. og kom þá í ljós að skráningarmerkin höfðu verið lögð inn hjá Frumherja hf. á Hvolsvelli um miðjan desember 2001. Þegar starfsmaður Frumherja var yfirheyrður sagði hann að lögreglumaðurinn hefði verið staddur í Reykjavík þegar hann óskaði eftir innlögninni. Hafi lögreglumaðurinn lofað að koma skráningarmerkjunum til Frumherja innan nokkurra daga en ekki hafi orðið af því. Einnig kom í ljós að hann hafði tekið bifreið konu sinnar af skrá með sama hætti rúmu ári áður. Báðar bifreiðirnar voru skráðar á eiginkonu lögreglumannsins en nefndin telur það ekki breyta því að hann hagnýtti þær sjálfur og var stöðvaður á annarri þeirra.

Í lok febrúar var honum vikið tímabundið úr starfi og telur nefndin að ríkislögreglustjóri hafi gert rétt í að víkja honum frá. Telur hún að brotin, sem aðalvarðstjórinn er grunaður um, séu ósamboðin lögreglumanni.

"Í ljósi starfssviðs [lögreglumannsins] á vettvangi umferðarmála og sérþekkingar hans á reglum um bifreiðaskráningar væru slík brot sérlega alvarleg," segir í álitinu. "Að mati nefndarinnar eru brotin [...], ef sönn reyndust, svo alvarleg að hann teldist ekki lengur verður eða hæfur til að vera lögreglumaður, sbr. 68 gr. alm. hgl." Lögreglurannsókn á málinu heldur áfram hjá lögreglunni í Reykjavík.