Flæðandi línur í BMW Z4.
Flæðandi línur í BMW Z4.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BMW hefur sent út fyrstu myndirnar af tveggja sæta sportbílnum Z4 sem leysir af hólmi Z3. Eins og forverinn sækir nýi bíllinn útlit sitt til klassískra sportbíla.

BMW hefur sent út fyrstu myndirnar af tveggja sæta sportbílnum Z4 sem leysir af hólmi Z3. Eins og forverinn sækir nýi bíllinn útlit sitt til klassískra sportbíla. Hann er langur og lágur með stórri vélarhlíf og vegna lágrar sætastöðu ökumanns er hún stór hluti af útsýn hans. Stóra breytingin í hönnun Z4 er þó líklega flæðandi og sveigðar línur í yfirbyggingunni. Í samanburði við Z3 er innanrýmið í Z4 talsvert meira og til þess að auka enn frekar notagildi bílsins er farangursrýmið komið upp í 260 lítra og rúmar því líklega tvö golfsett.

Z4 verður frumsýndur á bílasýningunni í París í september og þá í tveimur útfærslum, þ.e. Z4 2.5i 170 hestafla og Z4 3.0i 231 hestafla. Aflið kemur frá línusexum sem menn þekkja úr 3- og 5-línunni en búið er að breyta útblásturskerfinu og menn verða víst ekki fyrir vonbrigðum með sportlegt hljóðið í bílnum. Einnig er búið að smíða nýjan gírkassa fyrir Z4, handskiptan sex gíra fyrir 3,0 l bílinn og fimm gíra fyrir 2,5 l bílinn.

Z4 verður líka hlaðinn öryggisbúnaði, eins og dekkjum sem hægt er að aka á þótt springi á þeim (run-flat tire) og DSC-spólvörn og stöðugleikastýringu. Fyrstu bílarnir koma á götuna í október í Bandaríkjunum en ekki fyrr en næsta vor í Evrópu. En þá verður hann líka orðinn fáanlegur með nýjustu gerð af sexþrepa sjálfskiptingu með handskiptivali.