Nýir rekstraraðilar Viðskipta- og tölvuskólans og Tölvuskóla Reykjavíkur innan um tölvurnar. Frá vinstri: Magnús Már Magnússon, Hilmar Þór Hafsteinsson og Jónas Yngvi Ásgrímsson.
Nýir rekstraraðilar Viðskipta- og tölvuskólans og Tölvuskóla Reykjavíkur innan um tölvurnar. Frá vinstri: Magnús Már Magnússon, Hilmar Þór Hafsteinsson og Jónas Yngvi Ásgrímsson.
NETVEITAN ehf. hefur tekið yfir rekstur Viðskipta- og tölvuskólans og Tölvuskóla Reykjavíkur af Rafiðnaðarskólanum. Eigendur Netveitunnar ehf.

NETVEITAN ehf. hefur tekið yfir rekstur Viðskipta- og tölvuskólans og Tölvuskóla Reykjavíkur af Rafiðnaðarskólanum. Eigendur Netveitunnar ehf. eru Hilmar Þór Hafsteinsson, Jónas Yngvi Ásgrímsson og Magnús Már Magnússon, en þeir hafa meðal annars starfað við bókhalds- og tölvukennslu hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum undanfarin ár.

Aðspurður hvort einhverjar breytingar verði með tilkomu nýrra aðila segir Hilmar Þór að Viðskipta- og tölvuskólinn hafi þegar flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði á jarðhæð í Faxafeni 10. Þar sé öll aðstaða til fyrirmyndar. Hann leggur áherslu á að tölvukostur hafi verið bættur og nú séu til dæmis 19 tölvuskjáir í hverri stofu. "Við erum einnig með tvær nýjar námsbrautir í mótun og er áformað að hefja innritun í febrúar. Þetta verða grunnbrautir, margmiðlunarbraut og iðnfræðslubraut," bætir hann við.

Tveggja anna heildstætt nám

"Viðskipta- og tölvuskólinn var stofnaður 1974 og á töluvert lengri sögu heldur en Tölvuskóli Reykjavíkur. Í dag er um að ræða heildstætt tveggja anna nám í Viðskipta- og tölvuskólanum," segir Hilmar Þór.

Fjórar námsbrautir eru í boði í skólanum. Annars vegar eru tvær grunnbrautir, almennt skrifstofunám og alhliða tölvunám. Hins vegar eru framhaldsbrautir í markaðs- og sölunámi og fjármála- og rekstrarnámi. "Þeir sem koma inn á grunnnámsbraut þurfa ekki að hafa stúdentspróf en þess er krafist á framhaldsbrautum að viðkomandi hafi stúdentspróf eða ígildi þess. Það hafa margir, sem hafa útskrifast héðan af grunnbrautum, einnig klárað framhaldsbrautirnar og þá tekur námið fjórar annir allt í allt," lýsir hann.

Námið endar á starfsþjálfun

Að sögn Hilmars stofnaði Einar Pálsson Einkaritaraskólann 1974 en Stjórnunarfélagið keypti síðan skólann 1984 og þá varð hann að Ritaraskólanum og síðan að Skrifstofu- og ritaraskólanum. Hilmar Þór kenndi einmitt við Skrifstofu- og ritaraskólann 1989 og 1990 þegar hann var til húsa í Ánanaustum. "Síðan gerðist það 1993 að Stjórnunarfélagið og Nýherji fóru í samstarf um rekstur á skóla. Þá komu tölvurnar af auknum þunga inn í þetta. Rafiðnaðarsambandið keypti þann rekstur 1997 og þá varð til Viðskipta- og tölvuskólinn í þeirri mynd sem hann er í núna," bætir hann við.

Hilmar Þór segir að almenna skrifstofubrautin hafi þróast allar götur síðan skólinn var stofnaður en hinar brautirnar hafi síðar bæst við. Hann leggur áherslu á að í almennu skrifstofunámi sé kennd blanda af viðskiptagreinum og tölvunotkun, auk íslensku og ensku. Námið endar á tveggja vikna starfsþjálfun hjá hinum ýmsu fyrirtækjum. "Í dag koma nemendur sjálfir með hugmyndir um fyrirtæki. Þetta er tveggja vikna þjálfun og markmiðið er að nemendur kynnist atvinnulífinu. Þessu er afar vel tekið hjá atvinnurekendum og oft ílengjast nemendur í starfi hjá viðkomandi fyrirtæki eftir námið," undirstrikar Hilmar Þór.

Viðurkennt nám

Í Viðskipta- og tölvuskólanum eru 33 nemendur að klára sitt nám í lok október, en þeir innrituðust í febrúar. Hann bendir á að innritun fari fram tvisvar á ári og nám hefjist hjá fimm nýjum hópum í byrjun september. Skólinn býður upp á nám á morgnana, eftir hádegið og á kvöldin.

Að sögn Hilmars Þórs er námið í Viðskipta- og tölvuskólanum viðurkennt af menntamálaráðuneytinu. Hann segir það einnig hafa öðlast viðurkenningu á markaðnum, bæði af ráðningarstofum og fyrirtækjum. "Það hefur sýnt sig að nemendur sem hafa verið hérna í námi hafa þótt gjaldgengir og fengið ýmiskonar bókara- og skrifstofustörf innan fyrirtækja. Námið hér er mjög gjarnan skref yfir í áframhaldandi nám," segir hann.

Netveitan ehf. tók einnig yfir rekstur Tölvuskóla Reykjavíkur eins og fyrr segir og segir Hilmar Þór að skólinn sé 12 ára og þar með einn elsti starfandi tölvuskólinn á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að kennsla hefjist þar líka í byrjun september. Í Tölvuskólanum er boðið upp á ýmiskonar stutt tölvunámskeið, grunnnám í helstu tölvuforritum og sérstök námskeið fyrir eldri borgara, svo fátt eitt sé nefnt. Hilmar Þór bætir við að þau námskeið hafi notið mikilla vinsælda.