Helga Jónsdóttir húsfreyja að Goðabyggð 13 á Akureyri fæddist á Hrappsstöðum í Bárðardal hinn 15. júní 1942. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hinn 4. ágúst síðastliðinn. Helga var næstyngst sjö barna hjónanna Jóns Sigurjónssonar, f. 15. apríl 1894, d. 16. maí 1968 á Arndísarstöðum í Bárðardal, og Aðalbjargar Guðnadóttur, f. 2. október 1903, d. 16. desember 1981, frá Hvarfi í Bárðardal. Þau bjuggu í Fjósatungu í Fnjóskadal frá 1948 til 1968 er sonur þeirra Ragnar tók þar við búskap. Helga kenndi sig alla tíð við Fjósatungu þótt hún væri fædd á Hrappsstöðum í Bárðardal og verið þar til sex ára aldurs. Systkini Helgu eru. 1) Baldur, f. 23. september 1928, verkamaður, búsettur á Akureyri. 2) Herdís, f. 27. nóvember 1931, húsfreyja í Lundi í Fnjóskadal, maki Þórólfur Guðnason, f. 15. júní 1919, þau eiga fimm börn. 3) Ragnar, f. 13. janúar 1934, maki Hrefna Indriðadóttir, f. 21. október 1942, Ragnar á eina dóttur, þau eru búsett í Reykjavík. 4) Reynir, f. 7. apríl 1936, verkamaður búsettur á Akureyri. 5) Kristbjörg, f. 12. júlí 1937, verkakona, búsett í Reykjavík. 7) Sigríður, f. 30. desember 1943, húsmóðir á Akureyri, maki Pálmi Sigurðsson, f. 24. september 1945, verkamaður á Akureyri, þau eiga sex syni.

Hinn 21. desember 1968 giftist Helga Inga Kristjáni Péturssyni, f. 22. júlí 1943, afgreiðslumanni á Akureyri. Ingi er sonur hjónanna Péturs Björgvins Jónssonar skósmiðs, f. 26. nóvember 1891, d. 8. nóvember 1966, og Sigurbjargar Pétursdóttur, f. 14. febrúar 1902, d. 22. mars 1996 en þau bjuggu lengi á Gleráreyrum 2 á Akureyri. Börn Helgu og Inga eru: 1) Pétur Björgvin, f. 25. janúar 1970, kranamaður búsettur á Akureyri, sambýliskona Dagný Ósk Ingólfsdóttir, f. 29. ágúst 1973. 2) Jón Aðalbjörn, f. 25. janúar 1970, bifreiðarstjóri, búsettur á Akureyri, sambýliskona Jóhanna María Baldursdóttir, f. 30. janúar 1970. Börn þeirra eru, Berglind Sif, f. 9. júní 1991, Helga Kristín, f. 3. ágúst 1995, og Baldur Ingi, f. 3. janúar 1999. 3) Ingi Rafn, f. 24. febrúar 1973, bifreiðarstjóri, búsettur á Akureyri, eiginkona Þorgerður Helga Árnadóttir viðskiptafræðingur, f. 10. desember 1974. 4) Valgeir, f. 6. júlí 1978, verkamaður á Akureyri. 5) Birgir, f. 11. október 1982, nemi, búsettur á Akureyri.

Útför Helgu verður gerð frá Akureyrarkirkju á morgun, mánudaginn 12. ágúst, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Nú er komið að kveðjustund og því langar mig að minnast tengdamóður minnar í nokkrum orðum.

Þegar ég kynntist núverandi eiginmanni mínum, Inga Rafni, bauðstu mig strax velkomna á heimili ykkar Inga. Ég fann alltaf fyrir hlýju þegar ég kom til ykkar og þú sást til þess að maður færi aldrei svangur út af heimilinu enda þyngdist ég töluvert þegar við Ingi hófum samband okkar. Þú varst alltaf tilbúin með bakkelsi ýmiss konar. Það þýddi ekkert annað en að eiga kleinur eða soðið brauð eða eitthvað gott handa þér og þínum. Þó svo að Ingi flytti að heiman til að búa með mér bakaðirðu samt líka handa okkur og færðir okkur að auki kartöflur, sultur, slátur og svið.

Þú varst mikil handavinnukona og prjónaðir margar fallegar peysur og föt. Það er tvennt sem er mér efst í huga hvað handavinnuna varðar. Í fyrsta lagi trúðarnir þínir sem þú hafðir mikið fyrir en þú gafst svo af þér þegar þú prjónaðir þá. Í öðru lagi sófasettið sem þú saumaðir út. Það tók nokkurn tíma, en þú hafðir svo gaman af því. Ég man líka vel eftir því þegar við Ingi Rafn gáfum þér mynd til að sauma út og þú saumaðir hana, lést ramma hana inn og gafst okkur hana til baka. Þú varst svo gjafmild og góð.

Elsku Helga mín, við urðum öll fyrir miklu áfalli þegar þú greindist með krabbamein fyrir tæpum átta árum. En þú gafst aldrei upp og kvartaðir aldrei. Þú varst að hugga okkur hin út af smávægilegum árekstrum í dagsins önn. Það var stutt í brosið hjá þér og ég held að ég hafi aldrei séð þig reiða.

Það gladdi okkur hjónin mikið að þú gast tekið þátt í brúðkaupsdeginum okkar og ég veit að það gladdi þig mikið að við tókum upp pakkana heima hjá þér og Inga.

Hetjuleg barátta við sjúkdóminn endaði því miður þannig að þú þurftir að láta í minni pokann fyrir honum og nú hefurðu fengið hvíldina. Ég þakka þér fyrir tímann sem við áttum saman. Tíu ár eru langur tími, en hann var of stuttur í þessu tilfelli. Ég mun alltaf minnast þín með prjónana eða útsaumsmyndirnar. Engin komu börnin hjá okkur Inga meðan þú lifðir, en ég veit að þú munt vaka yfir þeim þegar þau koma.

Elsku Ingi, Jón, Pétur, Ingi Rafn, Valgeir og Birgir, þið hafið staðið ykkur eins og hetjur og ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Ég bið góðan Guð um að blessa ykkur.

Kveðja,

Þorgerður Helga Árnadóttir.

Látin er mágkona okkar Helga Jónsdóttir frá Fjósatungu í Fnjóskadal. Helga sem sjálf var stolt af því vera sveitakona var alin upp við sveitastörf og vinnu. Það var henni kappsmál og dyggð að vinna störf sín af vandvirkni og alúð. Helga hlaut venjubundna menntun eins og önnur börn, barnaskólamenntun á Skógum í Fnjóskadal en að auki lauk hún námi frá Kvennaskólanum á Laugum 1962. Eftir að Helga fluttist til Akureyrar vann hún verkakvennastörf. Hinn 21. desember 1968. giftist Helga Inga Kristjáni Péturssyni bifreiðarstjóra, sjómanni og nú afgreiðslumanni og áttu þau ætíð heimili sitt á Akureyri, nú síðustu ár í Goðabyggð 13. Þegar Helga kom til móts við fjölskyldu okkar sannaðist það að ókunnugir eru vinir sem maður hefur ekki enn eignast. Hjá Helgu eignuðumst við nýjan og traustan vin. Unun var að fylgjast með uppbyggingu þeirra hjóna á heimili þeirra sem fljótt stækkaði, tvíburastrákar fyrst en alls urðu strákarnir fimm. Samheldni þeirra hjóna var einstök, gengið var í öll verk af kappi og eljusemi þar sem hagur og umhyggja fyrir heimilinu var í fyrirrúmi. Helgu var einstaklega lagið að vinna heimilisverk sín og aldrei kom maður til hennar að ekki væri boðið upp á kaffi og heimabakað brauð. Helga var sérstaklega lagin við prjónaskap og ófáar flíkurnar eru komnar frá henni. Þá tók Helga sér fyrir hendur nú í seinni tíð að prjóna smáfólk og mátti oft sjá hjá henni heilu fjölskyldurnar. Ljóst var að í verkið lagði hún alúð og ætlunin var að gleðja unga fólkið sem dáðist að þessu prjónafólki. Manni varð það fljótt ljóst að það var ekki aðeins af skyldurækni að Helga annaðist heimili sitt, það var líf hennar og hugsjón. Hún leitaði ekki gæfunnar langt yfir skammt, Helga vissi alla tíð að hennar hamingja var hamingja fjölskyldunnar, lífið var ekki flóknara en það. Sagt er að hamingjuna eignist maður aðeins á einn veg í lífinu, með því að elska og vera elskaður. Helga elskaði fjölskyldu sína og naut í staðinn ómældrar aðdáunar og elsku til baka. Nú síðustu misseri þegar veikindin ágerðust og ljóst var hvert stefndi var Helga óbuguð og ótrúlega sterk. Við sem komum með uppörvunarorð máttum okkar oft lítils gegn glaðværð og bjartsýni hennar. Öllum kom á óvart eftir að hún hafði verið lögð inn og talið var að mjög stutt væri eftir að henni gafst styrkur á ný til að koma nokkrar vikur heim. Þar naut hún ástar og umhyggju eiginmanns og fjölskyldu sem með dyggri aðstoð frá heimahlynningu sjúkrahússins gerði henni kleift að fá að dvelja nokkurn tíma til viðbótar á heimili sínu.

Minningin um Helgu verður okkur öllum kær, við eignuðumst traustan vin sem ekki brást fjölskyldu sinni og setti velferð og væntingar sinna nánustu ofar sínum. Inga Kristjáni og fjölskyldu hans sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð sem öllu ræður að veita ykkur styrk í sorginni.

Bogi Pétursson,

Þorsteinn Pétursson

og fjölskyldur.

Þorgerður Helga Árnadóttir.