Steindór Steindórsson fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal í Eyjafirði 12. ágúst 1902. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 26. apríl 1997.

Þegar Steindór Steindórsson setti punktinn aftan við tveggja binda sjálfsævisögu sína, Sól ég sá, í ársbyrjun 1982, var áratugur liðinn frá því hann lokaði dyrum Menntaskólans á Akureyri á eftir sér í hinsta sinn og gerðist eftirlaunamaður. Ekki settist hann þó í helgan stein því á þessum áratug komu út á prenti eftir hann - ekki síst fyrir atbeina Örlygs Hálfdánarsonar bókaútgefanda - 18 bækur, frumsamdar, þýddar eða endursamdar, en fimm lágu í handriti. Má það teljast myndarlegur endahnútur á ævilöngum ritferli sem að lokum taldi hálft sjöunda hundrað titla.

Ritstörfum sínum skipti Steindór í fimm meginflokka: 1. Grasafræði og önnur náttúrufræði. 2. Landafræði og ferðaþætti - meginritið er Landið þitt. 3. Blaðagreinar og ritstjórn. 4. Þýðingar - hér má telja Ferðabók Eggerts Ólafssonar, Ferðabók Ólafs Olaviusar og Ferðabók Sveins Pálssonar (ásamt Pálma Hannessyni og Jóni Eyþórssyni) auk ferða- og dagbóka fjölmargra Íslandsfara á 18. og 19. öld. 5. "Ýmislegt" svo sem Ævisögu Stefáns Stefánssonar og Íslenska náttúrufræðinga. Síðastnefnda bókin spannar tímabilið frá 1600 til um 1930, hefst á æviágripum Skálholtsbiskupanna Odds Einarssonar og Gísla Oddssonar og endar á Guðmundi G. Bárðarsyni. Því miður entist Steindóri ekki heilsa til að skrifa annað bindi, um ævir næstu kynslóðar náttúrufræðinga, og hafnaði meðal annars tilboði undirritaðs um aðstoð við það verk - sagði að enginn gæti gert það nema hann sjálfur, og nú væri það of seint.

Steindór var fjölmenntaður í náttúrufræði. Sérgrein hans var þó grasafræði, og á því sviði voru vísindarannsóknir hans og veigamikill hluti ritstarfa. Um upphaf þeirra og lærdómsrík ráð Guðmundar G. Bárðarsonar segir svo í ævisögunni (II, s. 205): "Fyrsta ritið um það efni [grasafræði] gaf Vísindafélag Íslendinga út 1931, var það um rannsóknir á skógsvarðargróðri í Þjórsárdal, og ári síðar gaf það út ritgerð um Safarmýri. Ég hefði tæplega byrjað að skýra svo fljótt frá gróðurrannsóknum mínum, sem voru á byrjunarstigi, ef Guðmundur G. Bárðarson hefði ekki beinlínis rekið mig til þess. Hann var þá í stjórn Náttúrufræðideildar Menningarsjóðs og áhrifamikill í Vísindafélaginu. Lét hann sér annt um að útvega ungum mönnum styrki til náttúrurannsókna, en eins og hann sagði, "þá verður róðurinn þar þungur, ef ekkert kemur fram um þessar rannsóknir. Það er því beinlínis skylda þín að skrifa um það sem þú kannar jafnóðum og þú hefir eitthvað að segja, svo að alþjóð sjái að eitthvað sé unnið, og fyrir sjálfan þig er það lífsnauðsyn að gefa eitthvað út á prent, svo að þú tryggir þér sess meðal náttúrufræðinga". Þessum rökum gat ég ekki mótmælt, vissi líka að ráð Guðmundar reyndust hverjum manni vel. Varð það því regla mín að skrifa sem mest um rannsóknir mínar."

Steindór varð stúdent 1925 og haustið 1930, að loknu námi í Kaupmannahöfn, var hann settur kennari við hinn nýstofnaða Menntaskóla á Akureyri. Þar var æ síðan megin-starfsvettvangur hans, síðustu árin sem skólameistari. Sumrin og aðrar tómstundir frá skyldustörfum notaði Steindór einkum til rannsókna og ritstarfa. Fyrsta rannsóknaverkefni hans var að kanna gróðurbreytingar af völdum Flóaáveitunnar, en framkvæmdirnar við hana stóðu milli 1920 og 1930. Tilgangurinn var að breyta áveitusvæðunum í gulstararengi. Sú hugsun byggðist þó fremur á óskhyggju en staðreyndum, og Guðmundur G. Bárðarson benti Steindóri á að það væri verðugt rannsóknarefni að fylgjast með áhrifum áveitunnar. Steindór hóf rannsóknirnar sumarið 1930 en hafði lagt rannsóknaráætlun ásamt styrkumsókn fyrir Búnaðarfélagið 1928. Auk Flóans skyldi hann skoða gróður á nokkrum sáðsléttum sem gerðar höfðu verið í tilraunaskyni með fræblöndur. Þegar hér var komið voru fjögur ár síðan áveitunni hafði verið hleypt á fyrstu svæðin, þannig að þar höfðu gróðurbreytingar þegar orðið. Önnur svæði voru hins vegar enn ósnortin af áhrifum áveitunnar og þau gat hann notað til að skilgreina hina upphaflegu gróðursamsetningu. Þegar Steindór leit til baka hálfri öld síðar virtist honum hann hafa verið heldur illa búinn undir þetta starf, nýskriðinn frá prófborðinu. Hann þekkti að vísu meginþorra íslenskra plantna og hafði kynnt sér allvel kerfi Chr. Raunkiærs til að skilgreina gróðursamfélög tölfræðilega, auk þess sem vinur hans H. Mölholm-Hansen hafði skrifað doktorsritgerð (Kbh. 1930) um gróðurfar á Íslandi þar sem þessari aðferð var beitt. Aðferðin er í stuttu máli fólgin í því að hringur, sem er 0,1 fermetri að flatarmáli, er settur niður 10 sinnum af handahófi á tilteknu svæði og allar plöntutegundir innan hans greindar. Hlutföll tegunda eru síðan metin út frá því í hve mörgum hinna 10 sýna hún kemur fram. Aðferðin er auðvitað sérlega heppileg til að skilgreina breytingar sem verða á tilteknu svæði, en einnig er hún notuð til að skilgreina gróðursamfélög, svo sem valllendisgróður, mólendisgróður, mosaþembur, melagróður, mýragróður o.s.frv. Með rannsóknum þessa fyrsta sumars, í Flóa, Skeiðum og Þjórsárdal, lagði Steindór grundvöll að því kerfi eða flokkunarlykli sem hann beitti æ síðan og nýttist einnig við undirbúning gróðurkorta af Íslandi og Grænlandi sem hann var síðar aðili að. Steindóri varð snemma ljóst að Flóaáveitan mundi ekki hafa tilætluð áhrif og að framtíðin lægi fremur í framræslu votlendisins. Lokaskýrsla um áhrif áveitunnar birtist 1943: Gróðurrannsóknir á Flóaáveitusvæðinu.

Sumarið 1931 kannaði Steindór Safarmýri ofan við Þykkvabæ, en nokkru fyrr (1923) hafði verið lokið fyrirhleðslu um Djúpós og var mýrin farin að þorna. Um þá könnun skrifaði hann aðra vísindaritgerð sína, sem Vísindafélagið birti 1932 - hin fyrsta var um skógsvarðargróður í Þjórsárdal eins og áður sagði. Mýri þessi var um 1600 hektarar að stærð og talin eitt grösugasta starengi landsins, með mörgum tegundum stara. Hún var mjög blaut og störin svo stórvaxin að hægt var að halda saman blaðoddunum yfir hrygg á hesti og þegar stórgripir fóru þar um sá aðeins á bak þeirra. Sagt var sauðkindur ættu til að týnast í þessu mikla grasi og vera þar á þvælingi vikum saman (Landið þitt). Þegar Steindór kom þarna aftur 1947 var mýrin horfin og þar er nú ræktarland komið í staðinn.

Síðsumars 1931 hófst nýr þáttur í rannsóknastarfi Steindórs: könnun hálendisgróðurs á Íslandi. Hann slóst þá í för með Pálma Hannessyni um Landmannaleið og umhverfis Torfajökul, en Pálmi var þá að leggja drög að ritun árbókar Ferðafélagsins um þetta svæði. Næstu sumur ferðuðust þeir um Brúaröræfi, suðausturöræfi og Síðumannaafrétt, Pálmi jarðfræðingur og Steindór grasafræðingur ásamt Magnúsi Björnssyni dýrafræðingi, en auk þess voru með í för Finnur Jónsson málari og ýmsir aðrir. Árangur þessara ferða, og annarra styttri næstu árin, var ritið Studies on the Vegetation of the Central Highland of Iceland (1945) og framhald þess Um hálendisgróður Íslands í tímaritinu Flóru 1966-68.

Hálendisritgerðirnar tvær, ásamt Skrá um gróðurhverfi (1974), urðu hinn fræðilegi grundvöllur að gróðurkortagerð Íslands, en jafnframt voru þær fyrsta yfirlit sem gert var um hálendisgróður landsins. Á sama hátt var ritið um mýragróður á Íslandi, Studies in the Mirevegetation of Iceland (1975), fyrsta yfirlit yfir mýragróður á Íslandi, og raunar fyrsta plöntuvistfræðilega rannsókn á mýragróðri norðurhjarans. Upphaf þeirrar vinnu var auðvitað rannsóknirnar á svæði Flóaáveitunnar, en ritið sjálft vann Steindór að miklu leyti í kennsluleyfi í Osló veturinn 1951, þótt ekki væri það fullfrágengið fyrr en löngu seinna.

Þriðja stórverkefnið, sem Steindór átti aðild að, hófst 1954 þegar dr. Björn Jóhannesson viðraði þá hugmynd við hann að gera kort af megingróðurlendum á afréttum landsins. Með slíku korti fengist óyggjandi vitneskja um útbreiðslu gróins lands, auk þess sem það skapaði grundvöll að umræðu um það hvort gróður aukist eða eyðist, hver áhrif beitar séu, o.s.frv. Taldi Björn einsýnt að Steindór yrði að taka þátt í kortagerðinni vegna þess að hann var allra manna fróðastur um hálendisgróður landsins, auk þess sem rit hans um það efni og um íslensk gróðurhverfi yrðu að vera fræðileg undirstaða kortagerðarinnar. Varð það úr að Steindór var með leiðangri kortagerðarmanna lengri eða skemmri tíma í 12 sumur, 1955-1966. Björn var leiðangursstjóri fyrstu tvö sumrin, en síðan Ingvi Þorsteinsson þar til verkefnið fluttist frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins til Náttúrufræðistofnunar árið 1992. Þá var lokið kortlagningu um 2/3 hluta alls landsins, einnig láglendis en ekki einungis afrétta eins og upphaflega var áætlað. Flokkunarlykill Steindórs Steindórssonar og skilgreining gróðurhverfa eru enn í fullu gildi og alfarið notuð við kortagerðina, sem nú fer fram á Náttúrufræðistofnun.

Rúmum áratug eftir að Steindór lauk þátttöku í gróðurkortagerðinni (1966) bað Ingvi Þorsteinsson hann að koma með til Grænlands, en þarlend stjórnvöld höfðu leitað til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um gerð gróðurkorts af sauðfjárræktarhéruðum Grænlands á sunnan- og suðvestanverðu landinu. Varð úr að flokkur Ingva ásamt Steindóri var á Grænlandi sumrin 1977-80; síðasta sumarið sem þeir voru að klifrast þarna fótgangandi um hlíðar og slakka varð Steindór 78 ára og ekki orðinn jafn fótviss og fyrr, enda hlaut hann nokkrar byltur og skrokkskjóður í þessum síðustu ferðum, þótt ekki yrði honum varanlega meint af.

Frá sjónarmiði "hreinna rannsókna" er rit Steindórs um uppruna íslensks gróður vafalítið áhugaverðast: On the Age and Immigration of the Icelandic Flora, sem Vísindafélagið gaf út 1962. Um það ritaði Hákon Bjarnason skógræktarstjóri, að sér væri engin launung á, að hann teldi útkomu þessarar bókar með því allra merkasta sem skrifað hefði verið um náttúru Íslands fyrr og síðar. Í ritinu leitast Steindór við, út frá útbreiðslu tegunda - líkt og Wallace forðum - að færa rök að því að verulegur hluti íslenskra plantna hafi lifað af síðasta jökulskeið, og þar með ísöldina.

Hinir ýmsu hlutar íslenska lífríkisins geta verið af þrennum toga: "upprunalegir", þ.e. frá því fyrir ísöld, aðfluttir eftir ísöld, eða innfluttir af mannavöldum. Ýmsir höfðu, og hafa síðan, tekist á við þá spurningu með ýmsum aðferðum hvort einhverjar plöntur hafi lifað af ísöldina, en löngum var það ríkjandi skoðun að fimbulvetur ísaldar hafi þakið landið jöklum svo fullkomlega að hin eldri flóra hafi gersamlega þurrkast út. Flestir hinna eldri jarðfræðinga og líffræðinga aðhylltust "tabula-rasa-kenninguna" - að Ísland hefði komið algerlega gróðurvana undan jöklunum. En árið 1937 lýsti Sigurður Þórarinsson þeirri niðurstöðu sinni að líklegt væri að einkum á fjórum svæðum á landinu hafi fjöll staðið upp úr ísnum - milli Hvalfjarðar og Borgarfjarðar, á Vestfjörðum, á Tröllaskaga og á Austfjörðum. Hann taldi að á ísöld hafi Vestfjörðum svipað til SA-hluta Vatnajökuls nú. Guðmundur Kjartansson (1943) og Trausti Einarsson (1942) færðu sömuleiðis rök að því að hlutar landsins hefðu verið íslausir á síðasta jökulskeiði. Sænski skordýrafræðingurinn Lindroth varð fyrstur líffræðinga til að lýsa því (1931) að fjöldi skordýrategunda hljóti að hafa lifað af ísöldina, og danski grasafræðingurinn Gelting (1934) taldi einsýnt að á Íslandi, ekki síst Tröllaskaga, hafi gróður getað lifað af, því þar sé að finna fjölda tegunda sem hvergi finnist annars staðar á landinu, auk þess sem grænlenskar tegundir séu algengari þar en annars staðar.

Fyrst skrifaði Steindór um þetta efni í Náttúrufræðinginn 1937, en kemur síðan aftur og aftur að því í ritum sínum. Hann hafði fljótlega veitt því athygli eftir að hann fór að rannsaka hálendisgróður landsins að flestar hinna óalgengari tegunda eru ýmist einskorðaðar við tiltekin svæði, eða virðast hafa dreifst út frá þeim. Svæði þessi reyndust í aðalatriðum vera hin sömu og Sigurður Þórarinsson taldi hafa verið íslaus. Eftir því sem árin liðu renndu frekari rannsóknir Steindórs stoðum undir þessa niðurstöðu, sem loks var tekin saman í ofangreindu 150 blaðsíðna riti (1962). Mun það rit vera óbrotgjarnt framlag til þessara fræða eins og Hákon Bjarnason spáði, þótt enn séu skiptar skoðanir um uppruna íslensku flórunnar - til dæmis ritaði Sturla Friðriksson grein Um aðflutning íslensku flórunnar í Náttúrufræðinginn 1962 þar sem haldið er fram gagnstæðri niðurstöðu. Skömmu síðar gaus Surtsey, og landnám lífsins þar með fuglum og sjávarstraumum þykir merkilegt rannsóknarefni.

Kenningar koma og kenningar fara, en réttar athuganir standast óhaggaðar tímans tönn. Af því tagi eru viðamiklar athuganir Steindórs Steindórssonar á flóru Íslands, áratuga eljuverk glöggs og hugkvæms náttúrufræðings. Meðal "aukaafurða" þeirra miklu ferðalaga og rannsókna má telja yfirlitsritið Gróður á Íslandi (Almenna bókafélagið, 1964), Skrá um gróðurhverfi (1974), Íslensk plöntunöfn (1978), Landið þitt (upphaflega með Þorsteini Jósepssyni: Örn og Örlygur, 1966, 1980), og Vegahandbókina í framhaldi af því.

Flokkunarlykill Steindórs og skilgreining gróðurhverfa, sem hann tók fyrst upp við rannsóknir sínar á svæði Flóaáveitunnar og þróaði síðan áfram, sjálfur og ásamt Birni Jóhannessyni og Ingva Þorsteinssyni til nota við gróðurkortagerðina, voru brautryðjandaverk. Auk þess markaði hann með þessari vinnu upphaf vistfræðirannsókna hér á landi. Steindór markaði því djúp spor í íslenskri náttúrufræði, spor sem ekki hefur fennt í svo merkt verði á 100 ára afmæli hans.

Sjálfur hitti ég Steindór Steindórsson aðeins einu sinni, á Akureyri árið 1991. Þar var þá haldin veggspjaldasýning um Alfred Wegener og ég flutti erindi. Þrettán sóttu samkomuna, og var Steindór þeirra á meðal, þá orðinn blindur. Hann var áhugasamur mjög og léttur í máli, fjölfróður og minnugur.

Um kvöldið var samkvæmi hjá Haraldi Bessasyni og frú hans þar sem Steindór var hrókur alls fagnaðar. Þar spurði ég hann um framhald bókar hans um íslenska náttúrufræðinga og bauð fram aðstoð mína við það verk, en Steindór hafnaði því eins og fyrr sagði - treysti engum til þess nema sjálfum sér.

Því miður tók hann mikið með sér í gröfina þótt fáir stæðu honum á sporði á ritvellinum, ævinlega trúr ráðum velunnara síns Guðmundar G. Bárðarsonar.

Steindór Steindórsson var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1941 og heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1981.

Sigurður Steinþórsson,

prófessor við Háskóla Íslands

og fyrrverandi forseti

Vísindafélags Íslendinga.