7. september 2002 | Menningarblað/Lesbók | 486 orð | 2 myndir

Móðir Jörð er að tæknivæðast og Tíðni valin

Verk Finnboga Péturssonar, Tíðni, sem sett verður upp á hæð nálægt Vatnsfellsvirkjun.
Verk Finnboga Péturssonar, Tíðni, sem sett verður upp á hæð nálægt Vatnsfellsvirkjun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkeppni um útilistaverk við Vatnsfellsvirkjun lauk í vor. Inga María Leifsdóttir skoðaði sýningu á tillögunum sem kepptu til úrslita sem staðsett er í Hrauneyjafossstöð.
NIÐURSTÖÐUR samkeppni á vegum Landsvirkjunar um útilistaverk við Vatnsfellsvirkjun lágu fyrir í maí síðastliðnum. Voru valdar tvær tillögur af níu til framkvæmdar, en það voru verk Finnboga Péturssonar, Tíðni, annars vegar og verk Gjörningaklúbbsins, Móðir Jörð er að tæknivæðast, hins vegar. Í úrslitum samkeppninnar voru einnig verk Rögnu Róbertsdóttur, Hreins Friðfinnssonar, Romans Signers og Ragnhildar Stefánsdóttur.

Tillögurnar allar má nú skoða á sýningu í anddyri Hrauneyjafossstöðvar, sem er á Sprengisandsleið, og skoðaði blaðamaður Morgunblaðsins sýninguna í fylgd Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.

Pípa sem gefur frá sér 50 Hz hljóð

"Tillögurnar sem voru valdar að lokum eru mjög skemmtilegar, eins og reyndar allar tillögurnar sem fram komu í samkeppninni," segir hann og bendir fyrst á verk Finnboga Péturssonar sem valið var til framkvæmdar, stóra hljóðpípu sem standa mun á hæð nálægt virkjuninni. "Í skemmstu máli sagt er þetta orgelpípa úr steini sem er 20 metra löng og vel manngeng. Í henni er blágrýtisfjöður, líkt og í flautu, sem myndar tón þegar vindurinn blæs í gegn. Tíðni rafmagns er 50 Hz, sem verður einmitt tíðni hljóðsins úr pípunni, þannig að verkið myndar samhljóm þar á milli."

Þríhyrningur úr gróðri

Blaðamaður skoðar því næst tillöguna að hinu verkinu sem valið var, Móðir Jörð er að tæknivæðast, eftir Gjörningaklúbbinn. "Verkið er fólgið í því að nota einkenni í landslaginu, en virkjanamannvirkin koma inn í mjög hrjóstrugt og gróðursnautt umhverfi. Eina formið sem mannvirkin hafa áhrif á hvað varðar landslagið sjálft er þetta svokallaða spjót eða þríhyrningur sem myndast milli tveggja vatnsvega. Þar vilja þær í Gjörningaklúbbnum setja gróðurþríhyrning, sem er tæknivæddur þannig að hann hefur rafmagn til hitunar og vatn til vökvunar," útskýrir Þorsteinn. Gróðurinn sem fylla mun þríhyrninginn er íslenskur heiðagróður og er hugmyndin að minna með forminu á rafmagnstæki en þríhyrningurinn minnir á "play"-takka á ýmsum tækjum. "Eins getur maður fylgst með hvernig náttúrunni reiðir af ef hún tæknivæðist," bætir Þorsteinn við.

Hann bendir á að þeir sem leggi leið sína að verki Finnboga á hæðinni við virkjunina hafi gott útsýni yfir verk Gjörningaklúbbsins í leiðinni. "Það er einnig skemmtilegt hvernig þau kallast á," segir hann. Vonir standa til að verkin verði komin upp á næsta ári.

Hægt að kynnast starfsemi virkjananna

Um leið og sýningin á tillögunum í Hrauneyjafossstöð er skoðuð gefst gestum kostur á að kynna sér starfsemi Hrauneyjafossstöðvar og heimsækja virkjunarskálann þar sem getur að líta veggspjöld og landakort þar sem orkuframleiðslan og starfsemi Landsvirkjunar er kynnt.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið leitar til myndlistarmanna um skreytingar á virkjunum sínum og stöðvum. Flestar virkjanir þess eru skreyttar með einum eða öðrum hætti, margar af þekktustu listamönnum Íslands. Sem dæmi má nefna lágmynd Ásmundar Sveinssonar á Ljósafossstöð, verk Sigurjóns Ólafssonar á Búrfellsstöð og verkið Sólöldu eftir Sigurð Árna Sigurðsson á Sultartangastöð.

Samkeppnisreglur SÍM giltu um samkeppnina um listaverk við Vatnsfellsvirkjun en í dómnefnd áttu sæti Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Friðrik Sophusson og Árni Kjartansson frá Landsvirkjun og Helgi Þorgils Friðjónsson og Kristín Ísleifsdóttir, tilnefnd af SÍM. Trúnaðarmaður dómnefndar var Ólafur Jónsson.

ingamaria@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.