Janína og Zygmunt Bauman.
Janína og Zygmunt Bauman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pólski félagsfræðingurinn Zygmunt Bauman var þátttakandi á ráðstefnu Háskóla Íslands um hnattvæðingu síðustu helgi. ÞRÖSTUR HELGASON ræddi við Bauman um hnattvæðingu, hinn ókunna í samfélagi samtímans, helförina sem tilraunastofu, hlutverk menntamanna og póstmódernisma. Einnig ræddi hann við Janínu, eiginkonu Baumans, sem ritað hefur bók um reynslu sína af helförinni.

ZYGMUNT Bauman er einn af þeim fræðimönnum samtímans sem hafa lagt í það mikla verkefni að reyna að átta sig á samtíð sinni. Fyrir vikið hefur hann snert á geysilega mörgum sviðum mannlífs í rannsóknum sínum. Hann hefur fjallað um neysluþjóðfélagið, siðfræði, hlutverk menntamanna, hnattvæðingu, póstmódernisma og helförina svo dæmi séu nefnd. Í þessari viðleitni sinni hefur Bauman leitast við að tileinka sér það besta í skrifum ákaflega ólíkra fræðimanna og hefur kannski þess vegna verið mjög frumlegur í nálgun sinni.

Bakgrunnur Baumans kann einnig að hafa þar nokkur áhrif. Hann er fæddur árið 1925 af gyðinglegum foreldrum. Á unglingsárum flúði hann ásamt foreldrum sínum til Rússlands undan ofsóknum nasista. Átján ára gekk hann hins vegar til liðs við pólska herinn og barðist með honum.

Hann gekk í kommúnistaflokk Póllands eftir stríð, árið 1946, og tíu árum síðar lauk hann doktorsprófi í félagsfræði. Hann varð prófessor í félagsfræði við Háskólann í Varsjá en var hrakinn úr stöðu sinni árið 1968 fyrir að þóknast ekki stjórnvöldum. Í kjölfar þess fluttist hann ásamt konu sinni Janínu til Ísraels í eitt ár en Janína átti eftir að skrifa endurminningabók um reynslu sína af gettóinu í Varsjá sem átti eftir að hafa áhrif á fræðistörf eiginmannsins. Frá Ísrael fluttu hjónin síðan til Bretlands þar sem Zygmunt fékk prófessorsstöðu við Háskólann í Leeds. Hann hætti kennslu árið 1990 en hefur ekki slegið slöku við fræðistörfin þrátt fyrir það og gefið út hverja bókina á fætur annarri hin síðari ár. Frægust bóka hans er vafalítið Modernity and the Holocaust (1989) en meðal nýrri verka má nefna Postmodernity and its Discontents (1997), Globalization: A Series in Social Thought and Cultural Criticism (1998), Liquid Modernity (2000), Individualized Society (2000) og Community: Seeking Safety in an Insecure World (2001). Ein grein eftir Bauman hefur verið þýdd á íslensku, Lýðræði á tveimur vígstöðvum, og birtist hún í fjórðu Atviksbókinni Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar (2000).

Landakortið breytist eftir því hvaðan er horft

"Það er rangt að mikil menning verði aðeins til í kapítalískum stórveldum," segir Bauman eftir stuttar umræður við blaðamann um það hvernig Íslendingar skynji sig alltaf í miðju heimsins þrátt fyrir að vera fastir á skeri úti í Norður-Atlantshafi. "Fjörugt menningarlíf skapast þar sem straumar mætast, þar sem áhrif úr ýmsum áttum eiga greiðan aðgang, þar sem merking er ýmist af skornum skammti eða yfirdrifin. Og jaðarinn hefur alltaf verið svæði af þessu tagi þar sem nýir hlutir verða til. Og Ísland fylgist sannarlega með hlutunum úr vissri fjarlægð, bæði í Evrópu og Ameríku."

En er það rétt að skilin milli miðju og jaðars séu að mást burt, eins og talað er um, er þetta veruleiki?

"Nei, þetta er ekki veruleiki en heimur nútímans er fljótandi. Skilin milli miðju og jaðars eru að breytast, þau eru komin á flot. Nú orðið er mjög erfitt að vera allt í senn stjórnmálaleg, menningarleg, efnahagsleg og hernaðarleg miðja. Það eru til svæði í heiminum sem eru mjög sterk efnahagslega eða búa yfir miklum hernaðarmætti, sem eru mótandi á sviði stjórnmála eða hugmynda- og menningarlífs. En það er ekki til neitt svæði í heiminum sem er allt þetta í senn.

Skilin eru því í fyrsta lagi að breytast og í öðru lagi eru þau að skarast. Heimurinn er ekki eins frá sjónarhóli bókmenntanna og tónlistarinnar, og hvað þá ef við reynum að finna miðju hins framsækna fjármagns. Landakortið breytist eftir því hvaðan er horft. Heimsmynd hins forna rómverska heimsveldis á ekki lengur við þar sem skýr skil lágu á milli siðmenningar og barbarisma."

Sigurvegarinn verður kannski sigraður af hinum sigraða

Á undanförnum áratugum höfum við samt séð vaxandi tilhneigingu til ákveðinnar miðjumyndunar með myndun ríkjasambanda á borð við Evrópusambandið og Nafta og þetta hefur einnig átt sér stað í einkageiranum þar sem fjölþjóðleg risafyrirtæki hafa orðið til á flestum sviðum atvinnulífs. Hvernig snertir þetta tengsl miðju og jaðars? Sú tilfinning virðist vera ríkjandi að mönnum þyki þeir vera útundan. Kannski á það við um bæði Íslendinga og Pólverja sem eru reyndar á leið inn í Evrópusambandið.

"Bandarískur sagnfræðingur ritaði sögu Póllands og kallaði það leikvöll guðs. Það er nokkuð til í því vegna þess að Pólland lenti á milli í baráttu austurs og vesturs í kalda stríðinu og tapaði svolítið áttum, sjálfsmynd þess bjagaðist.

Miðja Evrópu er að færast austur nú þegar Pólland, Tékkar, Slóvakar, Ungverjar og sennilega Búlgarar og Rúmenar seinna eru að ganga inn í Evrópusambandið. Og ég held að það sé ekki aðeins landfræðileg miðja Evrópu sem er að færast heldur muni komast skriður á Evrópu í ýmsu öðru tilliti einnig. Það er oft talað um að ástandið í þessum fyrrverandi austantjaldslöndum muni breytast við þennan samruna við Vestur-Evrópu en ég held að Evrópa sjálf muni breytast við þetta.

Tökum dæmi af Írlandi sem liggur í námunda við ákaflega stóran og sterkan nágranna eins og Pólland. Írar misstu tungumál sitt vegna þessarar nábúðar en rithöfundar þeirra hafa sett verulegan svip á enskar bókmenntir - það er raunar varla hægt að hugsa sér enskar bókmenntir síðustu aldir án Íranna og sumir myndu segja að þeir væru meðal mestu rithöfunda enskra bókmennta. Það nægir að nefna Wilde, Joyce og Beckett. Þessir menn mótuðu enskar nútímabókmenntir.

Það er því ekki einfalt að átta sig á því hvaða áhrif stækkun Evrópusambandsins mun hafa þótt stjórnmálamenn hafi tilhneigingu til þess að einfalda hlutina. Það má gera ráð fyrir einhverjum gagnáhrifum. Það má vera að sigurvegarinn verði sigraður af hinum sigraða. Þetta gerðist til forna þegar Alexander mikli lagði undir sig Asíu og Grikkland varð fyrir miklum áhrifum af asískri menningu og síðan lagði Rómarveldi undir sig Grikkland og varð fyrir miklum áhrifum af hellenskri menningu, af menningu hins sigraða og undirokaða."

Tvíræðnin og hinn ókunni

Í einni bóka þinna, Modernity and Ambivalence (1991), heldurðu því fram að nútíminn sé tilraun til að eyða tvíræðni, hann sé leit að reglu, en að þessi leit, sem miðist meðal annars að því að kerfisbinda hlutina og afmarka þá með landamærum, leiði einungis til enn meiri tvíræðni. Geturðu útskýrt þetta?

"Heimur mannsins er óendanlega flókinn og engin lýsing getur náð utan um hann - hún verður alltaf einföldun. Ef þú vildir koma á samfélagi sem væri ein heild þá myndirðu finna fólk sem félli ekki inn í þá mynd og væri á jaðri þessa samfélags eða einhvers staðar inn á milli, ekki hluti af þessu samfélagi en þó í því, einhvers staðar í bilinu á milli þess að vera inni og úti. Þetta væru hinir ókunnu, eins og ég hef kallað þá, en þeir eru holdtekja tvíræðninnar.

Hinn ókunni er ekki óvinur og ekki vinur heldur, en hann getur bæði verið óvinur og vinur. Ef hægt væri að skipta heiminum upp með skýrum hætti á milli vina og óvina þá myndir þú vita hvernig þú ættir að haga þér, þú myndir haga þér með ákveðnum hætti gagnvart vinum þínum og öðrum hætti gagnvart óvinunum. En þetta er ekki svona einfalt. Það er nefnilega líka þriðji aðili: Hinn ókunni.

Georg Simmel, félagsfræðingur, skilgreindi hinn ókunna sem einhvern sem kemur og fer ekki aftur. Hinn ókunni hefur ekki alltaf verið hérna en þegar hann er kominn á annað borð þá fer hann ekki aftur. Hinir innfæddu hafa alltaf verið hérna og fara ekki svo glatt. Ferðamenn koma og fara. En hinn ókunni er hvorki innfæddur né ferðalangur. Og þetta skapar kvíða í samfélögum. Fólk veit ekki hvernig það á að haga sér í samfélagi þar sem eru bæði innfæddir og ferðamenn og svo eitthvað ókunnugt fólk sem vill ekki fara. Skilaboðin eru ákaflega misvísandi um það hvað skuli gera og fólk er óöruggt og ringlað.

Það er hægt að skoða borgir í þessu samhengi. Borgir eru staðir þar sem fólk þarf að búa saman í langan tíma. Í hvert skipti sem maður fær sér göngutúr í borg hittir maður fjöldann allan af ókunnugu fólki. Og þess vegna eru borgir eins konar skólar í því hvernig lifa á við óöryggi. Borgir eru staðir mikilla árekstra en þær eru líka staðir sem kenna okkur listina að búa saman."

Helförin sem tilraunastofa

Í bók sinni Modernity and the Holocaust fjallar Bauman einmitt um listina að búa saman. Bauman skrifaði bókina undir áhrifum af endurminningum konu sinnar, Janinu, en þar lýsti hún reynslu sinni af gettóinu í Varsjá á stríðsárunum. Janínu tókst að flýja úr gettóinu og komast hjá því að vera send í útrýmingarbúðir nasista. Eftir flóttann var hún í felum í tvö ár. Janína segist hafa skrifað bókina eftir fjörutíu ára þögn.

"Ég ákvað að ég þyrfti að lýsa reynslu minni af stríðinu. Það er erfitt að segja af hverju. Ég er ekki sú eina sem hefur skrifað svona bók. Ég átti erfitt með að hugsa um þetta tímabil í ævi minni í mjög mörg ár. Einn daginn fannst mér tími kominn til. Kannski vegna þess að móðir mín lést skömmu áður og mér fannst ég vera sú eina sem gæti sagt þessa sögu. Ég vildi að börnin mín þekktu hana og barnabörnin, einnig breskir vinir mínir. Ég hóf skrifin einn góðan veðurdag úti í garði og það var eins og skrúfað væri frá krana, minningarnar streymdu fram, minningar sem ég vissi ekki að væru þarna lengur."

Voru skrifin ef til vill leið til þess að átta þig á því hvaða áhrif þessi reynsla hafði haft á þig í raun og veru?

"Já, og mér tókst að losa mig við hluti sem höfðu legið á mér allan þennan tíma en ég hafði aldrei gefið mér tíma til að hugsa um - ég hafði alltaf unnið mikið en þegar ég hóf skrifin hafði ég nýlega hætt störfum mínum vegna aldurs sem bókasafnsfræðingur. Bókin breytti mér og lífi mínu. Ég fór til dæmis að geta talað um þessa reynslu sem ég hafði ekki getað. Það var mikill léttir."

Zygmunt segir að bókin hafi opnað honum nýja sýn á helförina.

"Eins og flestir var ég mér meðvitandi um helförina en ég hafði fyrst og fremst litið á hana sem glæp þar sem morðingjar myrtu saklaust, hjálparlaust fólk. Bókin opnaði augu mín fyrir því að helförin var tilraunastofa þar sem rannsakaðir voru ýmsir mannlegir möguleikar og tilhneigingar sem við þekkjum ekki úr daglegu lífi. Þetta var vísindaleg tilraun þar sem hlutir voru þvingaðir fram við öfgakenndar og ómengaðar aðstæður, ef svo má segja, rétt eins og gert er í tilraunastofum. Mér fannst ég fá nýja sýn á nútímann og nútímasamfélög þegar ég sá helförina í þessu ljósi. Mér þykir bók Janínu mikilvæg vegna þessa."

"Ég hafði aldrei neina trú á því að ég myndi yfirleitt geta skrifað þessa bók," bætir Janína við, "en ég var ákaflega ánægð þegar ég hafði lokið henni. Mér fannst ég bera ákveðna ábyrgð, mér fannst mér vera skylt að skrifa þessa bók. Og mér var létt þegar ég uppgötvaði að mér hafði tekist það."

Hugmyndin um betra samfélag ekki vinsæl eða aðlaðandi

Bauman hefur einmitt fjallað um ábyrgð menntamanna í skrifum sínum. Hann segir það ákaflega hnýsilegt rannsóknarefni.

"Margir efast um að það sé yfirleitt rúm fyrir menntamenn í heimi samtímans vegna þess að þeir eru sífellt að setja fram hugmyndir um betri heim. Venjulegt dagvinnufólk hefur ekki tíma til að setjast niður og íhuga slíkt. Menntamenn greina veruleikann eins og hann er, þeir gagnrýna þennan veruleika og reyna að benda á hvað veldur mannlegum harmleikjum og benda á valkosti. Ástæðan fyrir því að sumir halda því fram að það sé ekki rúm fyrir slíkt tal í samtímanum er held ég að hugmyndin um "hið góða samfélag" er ekkert sérstaklega vinsæl eða aðlaðandi. Þegar einstaklingar velta fyrir sér hvernig megi bæta líf sitt hugsa þeir yfirleitt um það hvað þeir gætu gert sjálfir sér til hagsbóta - fá sér betri vinnu, braska á verðbréfamarkaðnum, kaupa meira, finna betri íbúð, verða hamingjusamir, skemmta sér o.s.frv. Fólki dettur ekki í hug að umbæturnar geti orðið með því að bæta samfélagið sem það býr í, það trúir því ekki að samfélagið geti breytt neinu í persónulegu lífi þeirra. Fólki er líka sagt að treysta á sig sjálft. Sökum þessa er líka lítil spurn eftir hugmyndum um gott samfélag þótt það sé yfirdrifin spurn eftir góðu lífi. Ég vil halda því fram að það sé ríkari tilhneiging til þess að hugsa um að bæta daginn í dag en að hugsa fyrir betri framtíð. Fólk er því hvorki með hugann við samfélagsleg mál né er það að hugsa til langs tíma. Það er ekki verið að hugsa um hlutina í stóru, ópersónulegu samhengi.

Franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu, sem lést í byrjun þessa árs og ég mat mikils, benti á í lok ferils síns að það að vera félagsfræðingur þýddi að vera gagnrýninn vegna þess að öðruvísi væri ekki hægt að komast fyrir um hvernig samfélagið starfaði, öðruvísi væri ekki hægt að komast handan hinnar einkalegu sýnar á hlutina og kanna innviði samfélagsins þar sem meinin liggja. Að hans mati var ekki hægt að bæta samfélagið eða samfélagsleg vandamál með því að hver og einn einstaklingur bætti sitt einkalíf. Hlutverk félagsfræðingsins er því að rýna í innviðina og segja síðan frá því sem hann sér og uppgötvar. Og þetta er einnig það hlutverk sem allir menntamenn verða nauðugir viljugir að sinna.

Og Bourdieu trúði því raunar að það væri enn hægt að bæta samfélagið, að hugsjónin um betra samfélag væri enn á dagskrá. Hann trúði því að menntamenn hefðu eitthvað að segja um það. Hann taldi að hver sá sem leiddi hugann að þeim vanda sem hrjáir samfélög samtímans myndi á endanum vilja leggja sitt af mörkum, taka þátt í baráttunni jafnvel. En þetta þýðir ekki að menntamenn samtímans séu sömu gerðar og menntamenn módernismans sem voru með lausnir á öllum málum. Okkar hlutverk nú er frekar að benda á valkostina, möguleika sem blasa kannski ekki við en myndu aldrei koma til umræðu nema einhverjir bentu á þá."

Skylda mín að nota það besta frá hverjum höfundi

Póstmódernískir fræðimenn hafa lengi verið gagnrýndir fyrir að vera ekki ábyrgir í skrifum sínum og þessi gagnrýni hefur ekki síst verið áberandi í Bretlandi þar sem þú hefur búið til fjölda ára. Hvað finnst þér um þessa gagnrýni?

"Ég held að þessi gagnrýni eigi ekki rétt á sér nema að takmörkuðu leyti. Framlag póstmódernismans hefur verið mjög mikilvægt, kannski ekki síst vegna þess að hann hefur verið ákaflega gagnrýninn. Hann hefur fært okkur mörg tæki til að rýna í ástand samtímans, fletta ofan af hinum póstmódernu tímum. Ég sé ekki að við hefðum getað gert það með aðferðum módernismans."

Það má sjá á bókum þínum að þú hefur stuðst við ákaflega fjölbreyttar kenningar, þú ert undir áhrifum af jafn ólíkum höfundum og Karli Marx, Max Weber, Emile Durkheim og Antonio Gramsci, Hönnu Arendt og Michel Foucault. Og af samtímahöfundum vitnar þú jafnt í félagsfræðingana Richard Sennet, Claus Offe, Ulrich Beck, Pierre Bourdieu og Jean Baudrillard. Sá síðastnefndi er ekki beinlínis allra og hefur einmitt verið harðlega gagnrýndur fyrir óábyrga fræðimennsku og jafnvel fyrir hættuleg viðhorf.

"Já, ég reyni að tileinka mér það besta hjá hverjum fræðimanni sem ég les. Mér finnst það vera skylda mín. Baudrillard er umdeildur vegna þess hvernig hann segir hlutina. Sumar kenningar hans hafa hins vegar reynst ákaflega mikilvægar til skilnings á hinu póstmóderna ástandi og þar á ég fyrst og fremst við kenningu hans um simulökruna og upplausn veruleikans í kjölfar þess að tími og rúm hafa þjappast saman með aukinni hröðun á dreifingu upplýsinga og með aukinni framleiðslu tákna.

Þetta er ein af þeim hugmyndum sem við erum að reyna að nota til þess að skilja samtímann, greina valdatengsl og aðra samfélagslega uppbyggingu. Þetta er algerlega orgínal kenning.

En Baudrillard hefur líka sett fram kenningar sem mér þykir gagnslausar og hann hefur sagt margt sem mér þykir hreinlega ómerkilegt eða lítilsvert. Hann gengur stundum ansi langt í íróníunni en er þá kannski bara að bregða á leik með kerfið."

throstur@mbl.is