Ingólfur Guðmundsson, settur prestur á Þingvöllum, við biblíuborðið og Sveinbjörn Jóhannesson, formaður sóknarnefndar, situr á nýja brúðhjónabekknum.
Ingólfur Guðmundsson, settur prestur á Þingvöllum, við biblíuborðið og Sveinbjörn Jóhannesson, formaður sóknarnefndar, situr á nýja brúðhjónabekknum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FYRIR hundrað árum, eða árið 1902, voru gefin saman í Þingvallakirkju séra Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason og Guðrún Lárusdóttir.

FYRIR hundrað árum, eða árið 1902, voru gefin saman í Þingvallakirkju séra Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason og Guðrún Lárusdóttir. Þau hjón voru jafnan kennd við Ás, en Sigurbjörn var frumkvöðull að stofnun Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Grundar og Guðrún var alþingiskona og rithöfundur með meiru.

Í tilefni af aldar brúðkaupsafmæli þeirra hjóna ákváðu afkomendur þeirra að gefa Þingvallakirkju fé til gerðar nýs brúðhjónabekkjar sem settur var upp í kirkjunni á dögunum. Gjafaféð kemur úr minningarsjóði sem stofnaður var þegar Guðrún Lárusdóttir lést, 20. ágúst árið 1938.

Forsaga málsins er sú að 27. júní sl. minntust afkomendur Sigurbjörns og Guðrúnar þess að 100 ár voru liðin frá því að þau gengu í hjónaband. Af því tilefni komu nokkrir afkomendur þeirra saman í Þingvallakirkju, þar á meðal Lára dóttir þeirra sem er ein eftir á lífi af börnum þeirra. Séra María Ágústsdóttir, dótturdóttir Láru, annaðist helgistund í kirkjunni.

Einnig hefur nú verið sett upp biblíuborð undir ljósprentaða Guðbrandsbiblíu sem gefin var í minningu Jóns Thorsteinssonar og konu hans, en hann var sóknarprestur á Þingvöllum.