Spurning: Hvers konar sjúkdómur er amyloid(osis)? Kona sem ég þekki er sögð vera með þennan sjúkdóm og ég vil vita hvort hægt sé að lækna þetta eða sjúkdómurinn sé ólæknandi. Ég hef ekkert heyrt um þennan sjúkdóm.
Spurning: Hvers konar sjúkdómur er amyloid(osis)? Kona sem ég þekki er sögð vera með þennan sjúkdóm og ég vil vita hvort hægt sé að lækna þetta eða sjúkdómurinn sé ólæknandi. Ég hef ekkert heyrt um þennan sjúkdóm.

Svar: Amyloid hefur verið kallað mýlildi á íslensku og er óeðlileg útfelling prótína í ýmsum vefjum líkamans. Amyloidosis, sem mætti kalla mýlildissjúkdóma, er flokkur sjúkdóma þar sem mýlildi safnast fyrir í ýmsum vefjum og líffærum og truflar starfsemi þeirra. Algengast er að mýlildi safnist fyrir í hjarta, nýrum, taugakerfi eða meltingarfærum. Mýlildi á sér stundum þekkta orsök og má nefna sem dæmi berkla eða aðrar langvinnar sýkingar, Alzheimers-sjúkdóm og langvinna bólgusjúkdóma eins og iktsýki. Algengt er þó að mýlildi eigi sér ekki neina þekkta orsök. Sjúkdómum af þessu tagi var fyrst lýst fyrir um 350 árum og nafnið amyloidosis hefur verið notað í meira en 100 ár. Mýlildi er ekki krabbamein en er illlæknanlegt og getur valdið alvarlegum veikindum og dauða. Mýlildi er sjaldgæft og má gera ráð fyrir aðeins örfáum tilfellum á hverju ári hér á landi. Sjúkdómseinkennin fara eftir því hvaða líffæri verða fyrir barðinu á sjúkdómnum og geta þess vegna verið margvísleg og gert sjúkdómsgreiningu erfiða. Nokkur þekkt einkenni eru ökklabjúgur, máttleysi, þyngdartap, mæði, dofi í höndum eða fótum, niðurgangur, mikil þreyta, tungustækkun og svimi. Einkenni og sjúkrasaga geta gefið grunsemdir um mýlildi en staðfesting á sjúkdómsgreiningu fæst einungis með vefjasýni en algengt er að sýni séu tekin úr fitu á kviðvegg, beinmerg eða endaþarmsslímhúð. Þegar sjúkdómurinn leggst á nýrun tapast mikilvæg prótín með þvaginu og það leiðir til vökvasöfnunar og bjúgs og stuðlar einnig að þyngdartapi sem getur numið 10-20 kg. Ef hjartað er undirlagt getur komið að því að það dæli ekki nægjanlegu magni af blóði á tímaeiningu og þá verður hjartabilun; hjartsláttartruflanir geta einnig verið vandamál. Stundum verður taugakerfið fyrir skemmdum og þá koma einkenni eins og dofi eða verkir í höndum og fótum, tilfinningaleysi eða brunatilfinning. Sjúkdómurinn getur einnig lagst á taugar sem stjórna þarmahreyfingum og það getur leitt til niðurgangs og hægðatregðu til skiptis. Eins og áður sagði er yfirleitt um ólæknandi sjúkdóm að ræða og að því leyti eru horfur ekki sérlega góðar. Það tekst þó og nú eru í gangi ýmsar rannsóknir sem vonandi geta bætt horfur sjúklinganna í framtíðinni. Þau lyf sem oftast eru notuð eru sterar ásamt lyfjum sem notuð eru við illkynja sjúkdómum. Á allra síðustu árum hafa verið gerðar rannsóknir með notkun svokallaðra stofnfrumna við lækningar á mýlildi og lofa þær nokkuð góðu.