Helgi Einarsson, nemi í rafiðn.
Helgi Einarsson, nemi í rafiðn.
Þegar ungt fólk hugar að styttra námi í iðnskóla virðist það sækja fremur í nýjar greinar eins og er að finna innan tölvu- og upplýsingasviðs fremur en í hefðbundnar iðngreinar," segir Helgi Einarsson, formaður Skólafélags Iðnskólans í Reykjavík.

Þegar ungt fólk hugar að styttra námi í iðnskóla virðist það sækja fremur í nýjar greinar eins og er að finna innan tölvu- og upplýsingasviðs fremur en í hefðbundnar iðngreinar," segir Helgi Einarsson, formaður Skólafélags Iðnskólans í Reykjavík.

Helgi er á fyrsta ári á rafiðnaðarbraut og segist kunna vel við sig í náminu.

Hver finnst þér helsti kosturinn við þína deild?

"Við fáum mjög góða fræðslu þar sem lögð er áhersla á rétt vinnubrögð. Það eru þó nokkrir áfangar sem mætti breyta og þróa til nútímalegra hátta þannig að þeir höfði betur til okkar nemendanna."

Hvernig finnst þér deildin þín tækjum búin?

"Ég er sáttur við þann tækjabúnað sem ég er að vinna með, þótt hann sé ef til vill ekki alveg sá nýjasti á markaðnum."

Eru námsbækurnar góðar?

"Þær eru flestar ágætar en það eru þó bækur innan um sem eru komnar nokkuð til ára sinna."

Hver er ástæðan fyrir að þú fórst í þetta fag?

"Áhugi á rafmagni og góðir möguleikar á vinnu því framtíðin er í rafiðnaði."

Skólafélagið hefur haldið tölvumót undanfarin ár sem kallast Smellur hvernig kom það til?

"Nokkrir nemendur innan tölvufræðinnar hittust og héldu lítið tölvumót. Nú er það haldið fjórum sinnum á ári og þátttakendur orðnir allt að 250 manns. Þeir mæta með tölvuna sína og keppa í tölvuleikjum."

Hvað finnst þér helst vanta þegar þú hugsar til skólans?

"Mér finnst vanta heimavist á höfuðborgarsvæðið fyrir iðnnema utan af landi. Það er verið að sérhæfa námið það mikið og fella út brautir á landsbyggðinni og flytja til Reykjavíkur. Til að fá nemendur utan af landi inn í skólann þarf að vera mögulegt að fá ódýrara húsnæði en gefst á almennum leigumarkaði. Félagsíbúðir iðnnema er það eina sem er á boðstólum á viðráðanlegu verði og þær fullnægja ekki eftirspurn eftir húsnæði."

Eitthvað sérstakt sem þú vilt taka fram að lokum?

"Ég vil sjá fleiri stelpur í námi á rafiðnaðarsviði."